Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2013

Þriðjudaginn 4. febrúar 2014


A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. september 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 20. september 2013. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. ágúst 2013, þar sem umsókn hennar um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu var hafnað.

Með bréfi, dags. 30. september 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 23. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. október 2013, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik.

Kærandi eignaðist barn þann Y. ágúst 2012. Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna þessa, auk þess sem hún sótti um lengingu á fæðingarorlofi vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum með umsókn, dags. 1. mars 2013. Kæranda var synjað um lengingu fæðingarorlofs skv. 11. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.), með bréfi, dags. 13. mars 2013. Í kjölfarið barst Fæðingarorlofssjóði sjúkrasaga kæranda auk læknisvottorðs. Kæranda var synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu með bréfi, dags. 22. júlí 2013, þar sem ekki þótti ráðið af fyrirliggjandi gögnum að kærandi hafi verið óvinnufær í skilningi laganna.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að Fæðingarorlofssjóður hafi byggt á því að ekki hafi komið fram í læknisvottorði að kærandi hafi verið frá vinnu vegna sinna veikinda á meðgöngu. Læknir kæranda hafi reynt að ítreka það símleiðis, en sérreitur sé fyrir það í vottorðinu þar sem merkt hafi verið við hvenær kærandi hafi hætt störfum vegna sjúkdóms í þungun og sé þar tekin fram dagsetning.

Um sé að ræða sjúkdóm sem komi upp vegna meðgöngu og hafi valdið kæranda óvinnufærni. Fyrri meðgöngur hafi verið mjög slæmar með grindarlosi líkt og fram hafi komið í vottorði.

Einnig komi fram í vottorðinu að kærandi hafi þurft að hætta vinnu tveimur mánuðum og sjö dögum fyrir fæðingu barnsins.

Með vísan til framangreinds geti kærandi ekki fallist á niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs og krefst þess að ákvörðun sjóðsins verði endurskoðuð þar sem kærandi uppfylli öll skilyrði fyrir lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda móður á meðgöngu.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 1. mars 2013, sem hafi borist þann 11. mars 2013, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna barnsfæðingar þann Y. ágúst 2012. Þannig hafi kærandi fyrst sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði rúmum sjö mánuðum eftir fæðingardag barnsins. Á umsókninni hafi jafnframt komið fram að kærandi sæki um lengingu vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum skv. 11. gr. ffl.

Með bréfi til kæranda, dags. 13. mars 2013, hafi henni verið synjað um lengingu skv. 11. gr. ffl. Í framhaldinu hafi borist læknisvottorð, dags. 22. maí 2013, og sjúkrasaga kæranda frá 16. janúar 2012 til 22. maí 2013.

Með bréfi til kæranda, dags. 22. júlí 2013, hafi henni verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu þar sem ekki yrði ráðið af sjúkrasögu að hún hafi orðið óvinnufær af grindarlosi á meðgöngu. 

Í framhaldinu hafi sama læknisvottorðið borist aftur, dags. 22. maí 2013, með smávægilegri viðbót sem ekki hafi þótt gefa tilefni til að breyta fyrri ákvörðun í málinu, sbr. bréf til kæranda, dags. 8. ágúst 2013.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Ráðherra skuli setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd þessa ákvæðis.

Í 5. mgr. komi fram að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu. Í málinu hafi verið óskað umsagnar B sérfræðilæknis og liggi fyrir skrifleg umsögn hans, dags. 13. október 2013.

Í 6. mgr. komi fram að umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar eftir því sem við á. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær greiðslur féllu niður.

Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi fram að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma og í 2. mgr. kemur fram að með heilsufarsástæðum sé átt við:

a. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b. sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi sem versna á meðgöngu og valdaóvinnufærni,

c. fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og sé stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Jafnframt þurfi að fylgja staðfesting vinnuveitanda þar sem fram komi hvenær launagreiðslur hafi fallið niður.

Eins og áður hafi verið rakið hafi kærandi fyrst sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði rúmum sjö mánuðum eftir fæðingardag barnsins, þann Y. ágúst 2012. Í þeirri umsókn hafi jafnframt verið sótt um lengingu vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum skv. 11. gr. ffl. Þeirri umsókn hafi verið synjað. Því næst hafi borist læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu, dags. 22. maí 2013, eða rúmum tveimur mánuðum síðar.

Á læknisvottorði, dags. 22. maí 2012, hafi komið fram að um sé að ræða 30 ára gamla konu á sinni þriðju meðgöngu og hún hafi fundið fyrir grindarlosi á fyrri meðgöngum einnig, þurfti meðal annars að nota hækjur. Miklir verkir í grindinni í kringum 20 vikur og síðan vaxandi verkir og óþægindi og hafi átt erfitt með að hreyfa sig. Hafi notast við belti frá Össuri á meðgöngunni og verið mjög slæm af verkjum sem háðu henni í daglegu starfi. Sjúkdómsgreining sé grindarlos á meðgöngu (O26.7). Lýsing á sjúkdómi móður eftir fæðingu sé væg einkenni eftir meðgöngu einnig fyrstu mánuðina. Niðurstaða skoðunar sé skráð grindarlos á meðgöngu.

Á sama læknisvottorði, dags. 22. maí 2013, hafi verið aukið við texta. Þar segi: „30 ára gömul kona á sinni þriðju meðgöngu. Á fyrstu og annarri meðgöngu var hún það slæm af grindarlosi að hún þurfti m.a. að nota hækjur. Á núverandi meðgöngu komu vaxandi verkir í grindina í kringum 20 vikna meðgöngu. Verri vinstra megin og missti stundum máttinn í fætinum fyrirvaralaust. Þessir verkir í grindinni fóru versnandi og gerðu það að verkum að hún átti erfitt með að hreyfa sig og var einnig verkjuð á nóttinni. Hún þurfti einnig á núverandi meðgöngu að notast við belti frá Össur. Fékk staðbundna meðferð sem hjálpaði og einnig þegar hún hætti að vinna 01.06.12 vegna verkja í grindinni. Hún var því frá vinnu 01.06.12 til Y.08.12 vegna grindarlos á meðgöngu.“

Í báðum vottorðunum komi fram að sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart þann 1. mars 2012. Sjúklingur hafi verið skoðaður þann 27. apríl 2012 og staðreynt að um greindan sjúkdóm hafi verið að ræða og að sjúklingur hafi látið af störfum vegna sjúkdóms í þungun þann 1. júní 2012.

Í gögnum málsins liggi einnig fyrir sjúkrasaga kæranda frá 16. janúar 2012 til 22. maí 2013.

Í umsögn B sérfræðilæknis, dags. 13. október 2013, segi meðal annars: „Við skoðun á þessum hluta sjúkrasögu móður er „grindarlos“ fyrst nefnt í nótu C, mæðravernd og segir þar að hún sé gengin 25+3 vikur. Sé mjög slæm í grindinni, vi. megin að aftan, „missti fótinn“ í gær og datt. Þetta sé á sama stað og í síðustu meðgöngu. Fær Bowen 2. Í nótu D heimilislæknis þann 02.05.12, símtal, kemur fram að hún sé gengin 26 vikur, 3. meðganga og hún hafi fengið grindarlos í báðum fyrri meðgöngum. Hún sé verri vi. megin en ekki með bakverk. Hún hafi ekki verið í æfingum á meðgöngu. Greiningin „Grindarlos á meðgöngu, O26.7“ og fær beiðni til sjúkraþjálfara. Það er ekki nefnt í þessum nótum að móðir sé óvinnufær vegna einkenna og virðist ekki vera ráðlagt að minnka við sig vinnu eða leggja niður störf. Hún kemur síðan reglulega í mæðravernd eftir þetta, m.a. 09.05, 21.05, 15.06 og áfram og hvergi er þar nefnt einkenni grindargliðnunar og kemur fram þar að skoðun sé athugasemdalaus og að henni líði ágætlega. Hún kvartar hinsvegar stundum um samdráttarverki og seinna á meðgöngunni um fyrirvaraverki.“

Í niðurstöðukafla B sérfræðilæknis segir orðrétt: „Margar barnshafandi konur fá einkenni grindarlos/grindargliðnunar á einhverjum stigum meðgöngunnar. Margar hafa góðan bata af meðferðum ýmiskonar og ekki er sjálfgefið að allar verði óvinnufærar af þeim sökum. Í þessu tilviki hefur móðir kvartað undan grindargliðnunareinkennum við mæðravernd í skoðun hjá C og fengið Bowen meðferð. Hún hefur síðan fengið tilvísun til sjúkraþjálfara í gegnum símtal við D heimilislækni og hann skrifar tilvísun á sjúkraþjálfara. Það kemur ekki fram í þessum gögnum að D hafi skoðað móður og staðfest einkenni þrátt fyrir að hann skrifi „Grindarlos á meðgöngu“ í reit „Niðurstaða skoðunar“ á vottorði Fæðingarorlofssjóðs. Þarna endar umræðan um hennar grindargliðnunareinkenni og mætti ætla að einkenni hafi lagast við meðferð, allavegana er hvergi nefnt að hún þurfi frekari meðferð eða ráðlagt að minnka við sig eða leggja niður vinnu. Mitt mat er að ekki sé hægt út frá þeim gögnum sem fyrir liggja að segja að móðir hafi verið óvinnufær af völdum meðgöngutengdra veikinda, þ.m.t. grindarlos á meðgöngu og falli því ekki undir skilgreiningar Fæðingarorlofssjóðs um lengingu fæðingarorlofs.“

Samkvæmt framangreindum læknisvottorðum D heimilislæknis, sjúkrasögu móður og umsagnar B sérfræðilæknis verði ekki annað séð en kærandi hafi þann 27. apríl 2012 í mæðravernd hjá C kvartað undan verkjum frá grind og fengið Bowen-meðferð. Kærandi hafi síðan haft samband símleiðis við D heimilislækni þann 2. maí 2012 og fengið tilvísun til sjúkraþjálfara. Ekki verði séð að hún hafi fengið læknisskoðun á grindarverkjum né heldur hafi henni verið ráðlagt að draga úr vinnu eða láta af störfum vegna meðgöngutengdra heilsufarsástæðna, sbr. 4. mgr. 17. gr. ffl. og 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008. Í fjölmörgum komum eftir það til mæðraverndar og fram að fæðingu barns sé síðan hvergi minnst á verki eða vandamál frá grind eða að móður sé nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf. 

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu, sbr. synjunarbréf sem kæranda var sent þann 22. júlí 2013.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu.

Hin kærða ákvörðun byggir á því að kærandi hafi ekki sýnt fram að henni hafi verið nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf.

Kærandi byggir á læknisvottorði D heimilislæknis, dags. 22. maí 2013, þar sem fram kemur að kærandi hafi orðið óvinnufær vegna grindarlos á meðgöngu frá 1. júní 2012.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt að heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingarag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Þá segir í 5. mgr. sömu greinar að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.-4. mgr. með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu.

Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð D heimilislæknis, dags. 22. maí 2013, og umsögn B sérfræðilæknis, dags. 13. október 2013. Í vottorði D, dags. 22. maí 2013, kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær vegna grindarlos á meðgöngu frá 1. júní 2012. Í umsögn B, sem byggð er á sjúkrasögu kæranda frá 16. janúar 2012 til 22. maí 2013, kemur fram að ljóst sé að kærandi hafi orðið slæm í grindinni í kringum 26. viku meðgöngunnar en eftir þann tíma hafi ekki verið minnst á einkenni grindargliðnunar. Eins verði ekki séð af sjúkrasögu kæranda að henni hafi verið ráðlagt að minnka við sig vinnu. Því hafi það verið mat B sérfræðilæknis að ekki sé hægt að segja að kærandi hafi verið óvinnufær af völdum meðgöngutengdra veikinda.

Í sjúkrasögu kæranda frá 16. janúar 2012 til 22. maí 2013 er fyrst vísað til einkenna frá grind í mæðravernd þann 20. janúar 2012. Þar segir að kærandi sé laus í grind. Þá er ekki rætt um frekari einkenni frá grind fyrr en kærandi hafi hringt vegna mjög slæmra grindarverkja þann 26. apríl 2012. Þá hafi kærandi einnig kvartað yfir miklum grindarverkjum í mæðravernd þann 27. apríl 2012. Þá hafi verið ákveðið að kærandi fengi Bowen-meðferð. Þann 2. maí 2012 hafi D gefið kæranda beiðni til sjúkraþjálfara vegna grindarloss á meðgöngu. Í kjölfarið hafi kærandi mætt í mæðravernd þann 9. maí 2012, 21. maí 2012, 15. júní 2012, 19. júní 2012, 25. júní 2012, 5. júlí 2012, 12. júlí 2012, 13. júlí 2012, 19. júlí 2012, 27. júlí 2012, 2. ágúst 2012 og 6. ágúst 2012 án þess að frekari einkenni frá grind hafi verið skráð. Þá er hvergi að sjá að kæranda hafi verið ráðlagt að leggja niður launuð störf vegna veikinda á meðgöngu.

Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd það ekki liggja fyrir að kæranda hafi verið nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf.

Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda, A um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda hennar á meðgöngu er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta