Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 41/2013

Þriðjudaginn 4. febrúar 2014

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 29. september 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 26. apríl 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 30. apríl 2013, þar sem hún var krafin um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar frá Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi, dags. 1. október 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 24. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. október 2013, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi var í fæðingarorlofi frá mars 2012 til janúar 2013. Kærandi sagði upp störfum hjá vinnuveitanda sínum fyrir 1. október 2012. Uppsagnarfresti kæranda hjá vinnuveitanda lauk því á sama tíma og fæðingarorlofi, þ.e. 1. janúar 2013. Vinnuveitandi kæranda greiddi kæranda ótekið orlof vegna starfsloka auk orlofsuppbótar að fjárhæð X kr. við starfslok. Fæðingarorlofssjóður sendi kæranda greiðsluáskorun, dags. 30. apríl 2013, þar sem kærandi var endurkrafin um hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir nóvember 2012.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið krafin um ofgreitt fæðingarorlof vegna uppgjörs við starfslok. Þar sem ekki hafi verið um laun að ræða heldur uppgjör vegna starfsloka telji kæranda að endurkrafa Fæðingarorlofssjóðs sé ólögmæt.

Kærandi hafi verið starfsmaður hjá fyrrum vinnuveitanda sínum til janúar 2013. Á tímabilinu mars 2012 til janúar 2013 hafi kærandi verið í fæðingarorlofi en sagt upp störfum hjá vinnuveitanda sínum fyrir 1. október 2012. Uppsagnarfresti átti því að ljúka á sama tíma og fæðingarorlofi, þ.e. 1. janúar 2013. Vinnuveitandi kæranda hafi gert upp við kæranda og greitt henni orlof og orlofsuppbót, að fjárhæð X kr., þann 30. nóvember 2012.

Uppgjörið hafi farið fram með uppgjörsgreiðslu þann 30. nóvember 2012 án þess að kærandi hafi haft nokkuð um það uppgjör að segja. Kærandi byggi á því að uppgjör ótekins orlofs við starfslok skuli ekki koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi hafi ekki verið í orlofi á sama tíma og fæðingarorlof hafi staðið yfir, heldur hafi það uppgjörið verið vegna orlofs sem kærandi hafi unnið sér inn á tímabilinu áður en fæðingarorlof hafi hafist. Samkvæmt 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) segir að eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar séu fyrir það tímabil sem foreldri sé í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í þessu ákvæði hljóti því að felast að greiðsla ótekins orlofs vegna starfsloka skuli ekki koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ávinnsla orlofsins hafi farið fram áður en fæðingarorlof hafi hafist.

Þessu til stuðnings vísi kærandi til athugasemda við ákvæði laga nr. 74/2008 sem breytti framangreindri 10. mgr. en þar komi fram sú skýring að foreldrar kunni að eiga rétt á eingreiðslu frá vinnuveitendum á ákveðnum tíma árs sem komi til framkvæmda meðan foreldri sé í fæðingarorlofi en sé ætlað fyrir lengra tímabil en nemi fæðingarorlofstíma foreldris, til dæmis bónusgreiðslur sem komi til framkvæmda við árslok en miðist við frammistöðu starfsmanns eða velgengni fyrirtækis á hlutaðeigandi ári. Í þessu tilviki sé bent á að uppgjörsgreiðsla orlofs við starfslok sé einmitt slík eingreiðsla frá vinnuveitanda, enda sé með uppgjörsgreiðslunni verið að greiða áunnið orlof á tímabilinu áður en fæðingarorlof hafi hafist. Öll sanngirnis- og réttlætisrök hnígi því að því að túlka lagaákvæðið á þann hátt að uppgjörsgreiðslan komi ekki til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Fæðingarorlofssjóður hafi vísað í 33. gr. ffl. sem mæli fyrir um að foreldri sem njóti orlofslauna eða greiðslna vegna starfsloka geti ekki nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. ffl. á sama tímabili og þær greiðslur eigi við um. Kærandi telji að túlka ætti framangreinda grein sem svo að foreldri megi ekki vera í orlofi, þ.e. sumarfríi, og þannig þiggja orlofslaun samhliða fæðingarorlofi og þeir sem láti af störfum og fái starfslokasamning megi ekki fá greiðslur skv. ffl. á sama tíma Hvorugt eigi við um mál kæranda.

Þá viti kærandi til þess að Fæðingarorlofssjóður hafi afturkallað sambærilega ákvörðun vegna mistaka.

Með vísan til alls framangreinds telur kærandi að henni beri ekki að endurgreiða greiðslur vegna janúarmánaðar 2013. Til vara krefst kærandi þess að 15% álag verði fellt niður.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að sjóðurinn hafi með bréfi til kæranda, dags. 20. mars 2013, vakið athygli kæranda á því að stofnunin hafi verið með til meðferðar mál hennar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu. Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hefði kærandi verið að fá laun frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum fyrir nóvember 2012 ásamt útskýringum frá vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Skýringar hafi borist frá vinnuveitanda kæranda með tölvupósti, dags. 15. apríl 2012, ásamt skýringum kæranda sjálfrar með ódagsettu bréfi sem hafi borist með tölvupósti, dags. 28. apríl 2013. Jafnframt hafi umbeðinn launaseðill borist. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 30. apríl 2013, þar sem hún hafi verið krafin um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar. Ekki hafi verið gerð krafa um 15% álag. Litið hafi verið svo á samkvæmt skrám RSK, fyrirhugaðri töku fæðingarorlofs með barni fæddu Y. mars 2012 og innsendum skýringum og launaseðli að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði fyrir nóvember 2012 skv. 10. mgr. 13. gr. og 4. mgr. 33. gr. ffl., sbr. og 2. mgr. 15. gr. a ffl.

Samkvæmt 10. mgr. 13. gr. ffl. skuli greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem séu hærri en nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar séu fyrir það tímabil sem foreldri sé í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris.

Þann 28. ágúst 2013 hafi settur umboðsmaður Alþingis fjallað um 2. málsl. 10. mgr. 13. gr. ffl. í áliti sínu nr. 7022/2012 o.fl.

Athugun setts umboðsmanns Alþingis hafi lotið að því hvort sú aðferð sem Fæðingarorlofssjóður hafi beitt til að reikna út frádrátt í ofgreiðslumálum, og úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hafi staðfest, hafi verið í samræmi við ákvæði 2. málsl. 10. mgr. 13. gr. ffl., þar sem mælt sé fyrir um að tilteknar greiðslur frá vinnuveitanda skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Settur umboðsmaður hafi talið að aðferðin hafi ekki verið í samræmi við lög og að nota ætti þá aðferð við útreikning sem leiddi beint af orðalagi ákvæðisins, þ.e. að einungis greiðslur vinnuveitanda til foreldris sem væru hærri en mismunur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í framhaldinu hafi úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála breytt túlkun sinni á 2. málsl. 10. mgr. 13. gr. ffl. til samræmis við álit setts umboðsmanns Alþingis í úrskurðum sínum, sbr. til dæmis mál nr. 64/2012.

Samkvæmt 4. mgr. 33. gr. ffl. komi fram að foreldri sem njóti orlofslauna eða greiðslna vegna starfsloka geti ekki nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. ffl. á sama tímabili og þær greiðslur eigi við um.

Í 15. gr. a ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni hafi foreldri fært rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Ekki sé gerð krafa um 15% álag í máli kæranda.

Með kæru geri kærandi þá kröfu til vara að álagið verði fellt niður. Ekki hafi verið gerð krafa um 15% álag í máli kæranda og því sé óþarft að fjalla frekar um þennan þátt.

Á viðmiðunartímabili kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. hafi viðmiðunarlaun hennar verið X kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að fæðingu barnsins hafi þau verið komin í X kr. sem miðað hafi verið við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda henni til hagsbóta við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu skv. 10. mgr. 13. gr. og 4. mgr. 33. gr. ffl. Enga heimild sé að finna í ffl. eða í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, til að taka tillit til launabreytinga foreldris eftir fæðingardag barns við mat á hugsanlegri ofgreiðslu.

Í nóvember 2012 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum. Hafi þá verið tekið tillit til orlofsuppbótar og desemberuppbótar og þær dregnar frá við mat á hugsanlegri ofgreiðslu (laun samkvæmt staðgreiðsluskrá séu X kr.). Launaseðill kæranda hafi borið það með sér að verið sé að gera upp orlofslaun og í skýringum vinnuveitanda, dags. 15. apríl 2013, og ódagsettum skýringum kæranda hafi komið fram að um uppgjör á orlofi sé að ræða.  

Þannig liggi ljóst fyrir að sú greiðsla sem kærandi hafi fengið frá vinnuveitanda sínum í nóvember 2012 sé uppgjör á orlofi eða orlofslaun. Ljóst sé að útborgun ótekins orlofs teljist til réttinda sem séu ósamrýmanleg fæðingarorlofsgreiðslum skv. 4. mgr. 33. gr. ffl. og úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 64/2012.

Í úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 64/2012, sem hafi verið kveðinn upp eftir álit setts umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012, hafi reynt á sambærileg álitaefni og í þessu máli. Í úrskurðinum hafi nefndin fjallað um hvernig túlka ætti ákvæði 4. mgr. 33. gr. ffl. um orlofslaun og greiðslur vegna starfsloka um sama tímabil og þær greiðslur eigi við um sérstaklega með hliðsjón af orðalagi 10. mgr. 13. gr. um greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar séu fyrir það tímabil sem foreldri sé í fæðingarorlofi.

Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið unnt að fallast á að í ákvæðunum hafi verið að vísa til þess tímabils þegar unnið sé til orlofslauna. Launþegar vinni almennt til orlofslauna allt árið, en þær greiðslur sem þeir ávinna sér séu ætlaðar til orlofstöku yfir sumarmánuði, eða eftir atvikum til dæmis við starfslok.

Af framangreindu verði því að teljast ljóst að greiðslan eigi við um það tímabil sem kærandi hafi verið í fæðingarorlofi og ekki verði hægt að dreifa henni á annað eða lengra tímabil en greiðslutímabilið sjálft, þ.e. nóvember 2012.

Samkvæmt öllu framangreindu sé það mat Fæðingarorlofssjóðs að kæranda beri að endurgreiða sjóðnum. Alls hafi því verið gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði X kr., sbr. greiðsluáskorun, dags. 30. apríl 2013. Sú krafa hafi byggt á þeirri frádráttarreglu sem beitt hafi verið fyrir álit setts umboðsmanns Alþingis og breyttri túlkun úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála á 2. málsl. 10. mgr. 13. gr. ffl.

Hefði hinni nýju frádráttarreglu verið beitt í málinu liggi fyrir að krafan hefði lækkað nokkuð. Alls hefði krafan því verið X kr., sbr. sundurliðunarblað sem fylgi með greinargerð Fæðingarorlofssjóðs.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns hinn Y. mars 2012.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi hafi þegið greiðslur frá vinnuveitanda sínum í nóvember 2012 á sama tíma og hún þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Séu þessar greiðslur frá vinnuveitanda svo háar og þess eðlis að þær leiði til lækkunar á rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Barn kæranda er eins og fyrr greinir fætt Y. mars 2012. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. er því tímabilið frá september 2010 til ágúst 2011. Í greiðsluáætlun, dags. 2. maí 2012, kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. voru alls X kr. og greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðað við 100% fæðingarorlof væri samkvæmt því X kr. Af útreikningi sem fylgdi greiðsluáskorun frá 30. apríl 2013 má hins vegar sjá að frá því að viðmiðunartímabili meðaltals heildarlauna kæranda lauk og fram til fæðingar barnsins hækkuðu laun kæranda í X kr. sem miðað hafi verið við við útreikning á endurgreiðslukröfu Fæðingarorlofssjóðs í samræmi við heimild í 10. mgr. 13. gr. ffl. Er það kæranda til hagsbóta.

Þar sem kærandi þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði í nóvembermánuði 2012 var henni einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismuni meðaltals heildarlauna hennar eins og þau voru hækkuð samkvæmt nú 10. mgr. 13. gr. ffl. og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði án þess að greiðslur vinnuveitanda til hennar kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Líkt og áður segir er rétt að mati úrskurðarnefndar að miða endurgreiðslukröfu á hendur kæranda við meðaltals heildarlaun að fjárhæð X kr. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð X kr. í nóvember 2012 og var henni því heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sínum að fjárhæð X kr. í nóvember 2012 án þess að það kæmi til lækkunar á greiðslum úr sjóðnum. Er þessi túlkun í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 7022/2012 o.fl. frá 28. ágúst 2013.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greitt ótekið orlof vegna starfsloka frá vinnuveitanda sínum í nóvember 2012 að fjárhæð X kr., en ljóst er að útborgun ótekins orlofs telst til réttinda sem eru ósamrýmanleg fæðingarorlofsgreiðslum skv. 4. mgr. 33. gr. ffl.

Það er kjarni þessa máls hvernig eigi að túlka ákvæði 4. mgr. 33. gr. ffl. um orlofslaun og greiðslur vegna starfsloka um „sama tímabil[..] og þær greiðslur eiga við um“, sérstaklega með hliðsjón af orðalagi 10. mgr. 13. gr. um „greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi“.

Ekki er unnt að fallast á að í þessum ákvæðum sé verið að vísa til þess tímabils þegar unnið er til orlofslauna. Launþegar vinna almennt til orlofslauna allt árið, en þær greiðslur sem þeir ávinna sér eru ætlaðar til orlofstöku yfir sumarmánuði, eða eftir atvikum til dæmis við starfslok. Þar sem umrædd greiðsla, sem nam u.þ.b. einum mánaðarlaunum, kom til útborgunar 30. nóvember 2012 en fæðingarorlofi kæranda lauk ekki fyrr en um áramót virðist hafið yfir vafa að umrædd orlofsgreiðsla var „ætluð fyrir tímabil“ og „átti við um“ það tímabil þegar kærandi var í fæðingarorlofi.

Það er því ljóst að kærandi þáði hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en henni var heimilt fyrir nóvembermánuð 2012. Verður niðurstaða Fæðingarorlofssjóðs um skyldu kæranda til endurgreiðslu fyrir þann mánuð því staðfest.

Af gögnum málsins má sjá að Fæðingarorlofssjóður byggir hina kærðu ákvörðun á hlutfallsútreikningi. Það er álit úrskurðarnefndar, með vísan til álits umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 7022/2012 o.fl. frá 28. ágúst 2013, að sú aðferð sé ekki í samræmi við ákvæði ffl. og því er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi hafi fengið ofgreitt fæðingarorlof og því beri henni að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði X kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærandi, A skal endurgreiða Fæðingarorlofssjóði X kr. vegna ofgreidds fæðingarorlofs.

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta