Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2013

Þriðjudaginn 4. febrúar 2014

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 15. október 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 20. september 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 16. ágúst 2012, þar sem fram kom að mánaðarleg greiðsla til kæranda miðað við 100% orlof yrði X kr. á mánuði.  

Með bréfi, dags. 16. október 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 24. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. október 2013, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi eignaðist barn þann Y. apríl 2012 og Y. september 2013. Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði með umsókn, dags. 30. júlí 2012, vegna fæðingar síðara barnsins. Með bréfi, dags. 16. ágúst 2012, var umsókn kæranda samþykkt og henni tilkynnt að mánaðarleg greiðsla til kæranda miðað við 100% orlof yrði X kr. á mánuði. Kærandi telur að henni hafi verið mismunað vegna þess að hún hafi eignast börn með stuttu millibili og henni þannig ákvarðaðar of lágar greiðslur.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi eignast tvö börn með skömmu millibili. Fyrra barn hafi fæðst þann Y. apríl 2012 og það síðara þann Y. september 2013. Kærandi hafi verið í fæðingarorlofi með eldra barni frá 1. maí 2012 til 30. apríl 2013. Þá hafi kærandi verið gengin fimm mánuði með yngra barn sitt. Bæði vegna slæmrar grindargliðnunar og vegna ómöguleika við að fá daggæslu yfir sumarið hafi kærandi orðið að vera í launalausu leyfi þá mánuði sem hafi verið eftir þar til að yngra barn kæranda hafi fæðst. Fæðingarorlof með yngra barni hafi hafist þann 1. september 2013.

Vegna reglna Fæðingarorlofssjóðs að miða greiðslur úr sjóðnum við laun síðustu sex mánaða fyrir fæðingu barns eigi kærandi ekki rétt á nema litlum hluta af þeirri fjárhæð sem hún hafi haft í fyrra fæðingarorlofi.

Ljóst sé að reglur Fæðingarorlofssjóðs mismuni kæranda fyrir það eitt að hafa eignast börn með skömmu millibili. Hefði kærandi eignast seinna barnið ári seinna hefði þessi staða ekki komið upp. Kærandi telji að í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar beri að veita kæranda sömu úrlausn og hverjum öðrum sem eignist barn með lengra millibili. Kærandi leggi jafn mikið til samfélagsins hvort sem hún eignist börn með löngu eða skömmu millibili. Þar af leiðandi leggi hún jafn mikið til í Fæðingarorlofssjóð og eigi þar af leiðandi að fá jafn mikið úr honum.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 30. júlí 2013, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns þann Y. september 2013.

Auk umsóknar kæranda hafi borist tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 30. júlí 2013, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 29. júlí 2013, og bréf frá S ehf., dags. 8. júlí 2013. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar um fæðingarorlofstöku með eldra barni, sbr. greiðsluáætlun, dags. 8. maí 2012, og upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands.

Kæranda hafi verið send greiðsluáætlun, dags. 16. ágúst 2013, þar sem fram hafi komið að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, 3. gr. laga nr. 136/2011 og 2. gr. laga nr. 143/2012, sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, greiðslur skv. a- og b- liðum 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a-e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um sé að ræða 100% greiðslur á viðmiðunartímabili úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði eða sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem foreldri hafi átt rétt á skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við. Hafi foreldri hins vegar kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við í sama hlutfalli og greiðslurnar hafi verið inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræði. Sama eigi við hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma enda þótt foreldri hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Aldrei skuli taka mið af hærri fjárhæð en sem hafi numið viðmiðunartekjum sem miða skuli við samkvæmt framangreindu enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli greiðslna skv. 3. málsl. og meðaltals heildarlauna bættan samhliða greiðslunum. Þegar greiðslur skv. a- og b- liðum 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa komi til á viðmiðunartímabili skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er orðið hafi að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við almanaksmánuði.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann Y. september 2013 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið frá mars 2012 til febrúar 2013.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram hafi komið í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í mars og apríl 2012 hafi kærandi þegið greiðslur frá vinnuveitanda sínum sem hafðar séu með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar. Kærandi hafi auk þess verið í 50% fæðingarorlofi á tímabilinu frá maí 2012 til febrúar 2013 en hún hafi dreift greiðslum með eldra barni fæddu þann Y. apríl 2012 á tólf mánaða tímabil frá maí 2012 til apríl 2013 og hafi þannig þegið 50% greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á þeim tíma. Á sama tímabili hafi kærandi verið í launalausu leyfi frá vinnuveitanda sínum, sbr. bréf þess efnis, dags. 8. júlí 2013.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. komi skýrt fram að hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við í sama hlutfalli og greiðslurnar hafi verið inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræði. Það hafi verið gert í tilfelli kæranda og hafi þannig greiðslur til hennar frá Fæðingarorlofssjóði verið uppreiknaðar um X kr. á mánuði tímabilið frá maí 2012 til febrúar 2013, eða í X kr. á mánuði úr X. kr., sem séu þeir mánuðir sem lendi innan tólf mánaða viðmiðunartímabilsins.

Í ffl. og í reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sé ekki að finna neina heimild til að víkja frá 2. mgr. 13. gr. ffl. við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 16. ágúst 2013, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hennar.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að greiðslur til kæranda í 100% fæðingarorlofi nemi X kr. á mánuði.  

Kærandi byggir á því að henni hafi verið ákvarðaðar svo lágar greiðslur vegna þess eins að hún hafi eignast börn með stuttu millibili og að óheimilt sé að mismuna henni vegna þess. Þá byggir kærandi á því að hún eigi rétt á að fá sömu afgreiðslu og þeir sem eignist börn með lengra millibili.   

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt hvergi sé heimild til að víkja frá viðmiðunartímabili og reiknireglum 2. mgr. 13. gr. ffl. við útreikning á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi.

Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Barn kæranda fæddist í september 2013 og er því framangreint tímabil frá mars 2012 til febrúar 2013.

Fyrstu tvo mánuði viðmiðunartímabilsins, þ.e. mars og apríl 2012, starfaði kærandi hjá vinnuveitanda sínum. Þann 1. maí 2012 fór kærandi í fæðingarorlof með eldra barni og var í fæðingarorlofi út viðmiðunartímabilið.

Í 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að meðal annars teljist greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til launa í skilningi laganna. Það er því ljóst að í ffl. er gert ráð fyrir því að við útreikning á meðaltali heildarlauna geti komið upp þær aðstæður að líta þurfi til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, til dæmis greiðslna í fæðingarorlofi með eldra barni.

Samkvæmt 4. og 5. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi hafi þeim verið dreift hlutfallslega á lengri tíma, óháð því hvort foreldri var í ráðningarsambandi á sama tíma eða ekki.

Það er því ljóst að þá mánuði sem kærandi fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs með eldra barni, þ.e. maí 2012 til febrúar 2013, ber að miða við þær viðmiðunartekjur sem greiðslur í fyrra fæðingarorlofi miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi.

Kærandi var í 50% fæðingarorlofi með eldra barni á tímabilinu frá maí 2012 til febrúar 2013. Viðmiðunartekjur kæranda vegna fyrra fæðingarorlofs voru X kr. Þær tekjur sem leggja ber til grundvallar fyrir mánuðina frá maí 2012 til febrúar 2013 eru því 50% af viðmiðunarlaunum kæranda vegna fyrra fæðingarorlofs, þ.e. X kr., líkt og gert er í hinni kærðu ákvörðun.

Í raun virðist hvorki tölulegur ágreiningur uppi í máli þessu né ágreiningur um að hin kærða ákvörðun byggir á réttri beitingu laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Hvergi í ffl. er að finna undanþágur frá framangreindum ákvæðum. Í kærunni er á hinn bóginn á því byggt að í þessu regluverki felist brot á jafnræðisreglu í garð kæranda.

Það er ekki á valdi úrskurðanefnda í stjórnsýslunni að víkja settum lögum til hliðar. Verður hinni kærðu ákvörðun því ekki hnekkt af nefndinni á þessum grunni.

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að greiðslur til kæranda, A í 100% fæðingarorlofi verði X kr. á mánuði er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta