Mál nr. 63/2013
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 63/2013
Ákvörðunartaka: Gervihnattadiskur.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 3. september 2013, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 10. september 2013, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 23. september 2013, og athugasemdir gagnaðila, ódagsettar, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 6. janúar 2014.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið B, alls 17 eignarhlutar. Álitsbeiðandi er eigandi einnar íbúðar. Ágreiningur er um kostnað vegna uppsetningar gervihnattadisks.
Krafa álitsbeiðanda er:
Að viðurkennt verði að uppsetning gervihnattadisks og áskrift að sjónvarpsefni í gegnum hann sé ráðstöfun sem þurfi samþykki allra eigenda, sbr. 11. tölul. A-liðar 41. gr. fjöleignarhúsalaga.
Í álitsbeiðni kemur fram að ágreiningur sé um ákvörðun húsfundar frá 6. júní 2013 þar sem samþykkt hafi verið með einföldum meirihluta heimild gagnaðila að kosta kaup og uppsetningu á gervihnattasjónvarpsbúnaði. Þess sé krafist að ákvörðun húsfundar verði lýst ólögmæt og ógild á grundvelli þess að gervihnattadiskur sé ekki venjulegur og áskilinn búnaður í fjölbýlishúsum og þurfi samþykki allra íbúðareigenda, sbr. 11. tölul. A-liðar 41. gr. fjöleignarhúsalaga. Þessu til stuðnings sé vísað til álits kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 2/2001.
Gervihnattabúnaður geti ekki talist loftnet og falli því ekki undir 4. tölul. B-liðar 45. gr. laganna og því dugi ekki samþykki einfalds meirihluta, sbr. 4. tölul. C-liðar 41. gr. fjöleignarhúsalaga. Uppsetning gervihnattadisks og áskrift að sjónvarpsefni í gegnum hann sé ráðstöfun sem þurfi samþykki allra íbúðareigenda enda falli það undir 11. tölul. A-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús, um óvenjulegan og dýran búnað og annað sem almennt tíðkist ekki í sambærilegum húsum. Auk þess sé vísað til 12. tölul. A-liðar 41. gr. þessu til stuðnings, þ.e. ráðstafanir og ákvarðanir sem ekki varði sameignina og sameiginleg málefni, en eigendur telji æskilegt að þeir standi saman að og ráði í félagi.
Álitsbeiðandi mótmæli því ekki að óski einstaklingur/íbúðareigandi eftir því að setja upp slíkan búnað og reka á sinn kostnað sé slíkt leyfilegt enda hafi húsfélagið heimilað slíkt en til þess þurfi samþykki 2/3 hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, sbr. 3. tölul. B-liðar 41. gr. laganna.
Í greinargerð gagnaðila kemur fram að ágreiningurinn standi um hvort ákvörðun um að kostnaður vegna gervihnattasjónvarpsbúnaðar verði greiddur úr hússjóði falli undir 11. tölul. A-liðar 41. gr. fjöleignarhúsalaga þar sem áskilið sé samþykki allra forráðamanna íbúða á þeirri forsendu að um mjög óvenjulegan og dýran búnað eða annað sem almennt tíðkist ekki í sambærilegum húsum sé að ræða og þá sé vísað til álits kærunefndar húsamála nr. 2/2001 eða hvort í ljósi tækni- og verðþróunar á liðlega áratug megi líta á að búnaður sem þessi falli undir B-lið 45. gr. laganna um kaupverð og viðhald á dyrasíma, sjónvarps- og útvarskerfa, loftneta, póstkassa, nafnskilta og annars búnaðar sem eigendur hafi jöfn afnot og gagn af með líkum hætti og þar með að samþykki einfalds meirihluta nægi. Sé þá haft í huga álit kærunefndar í máli nr. 10/2010 um uppsetningu örbylgjuloftnes.
Um málavexti megi lesa í fundarboðsítrekun um sérstakan húsfund til að ræða og greiða atkvæði um að koma upp gervihnattasjónvarpsbúnaði en þar hafi komið fram að minnt sé á húsfund gagnaðila þann 23. apríl 2013 og að á dagskrá fundarins sé umræða og atkvæðagreiðsla um heimild gagnaðila til að kosta og setja upp gervihnattabúnað fyrir húsin. Ákvörðunin hafi verið samþykkt með einföldum meirihluta þeirra fulltrúa sem mætt hafi á fundinn. Í lögum um fjöleignarhús séu í 41. gr. tilgreindar reglur um töku ákvarðana í húsfélagi, í A-lið sé fjallað um hvenær þurfi samþykki allra, í B-lið sé fjalla um hvenær þurfi samþykki 2/3 hluta eigenda og í C-lið hvenær þurfi einfaldan meirihluta. Þar segi í 4. mgr. að einfaldan meirihluta þurfi um framkvæmdir sem greiðist að jöfnu og rekstrar- og stjórnunarmálefni, sbr. B-lið 45. gr. Í tilgreindum B-lið 45. gr. segi í 4. mgr. að kaupverð og viðhald dyrasíma, sjónvarps- og útvarpskerfa, loftneta, póstkassa, nafnskilta og annars búnaðar sem eigndur hafi jöfn afnot og gagn af með líkum hætti. Í 42. gr. laganna séu tilgreindar kröfur um fundarsókn og þar segi að húsfundur geti tekið ákvarðanir skv. C-, D- og E-liðum 41. gr. án tillits til fundarsóknar enda sé hann löglega boðaður og haldinn. Fyrir liggi fordæmisgefandi álit kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 10/2010 um uppsetningu örbylgjuloftnets.
Í rökstuðningi stjórnar gagnaðila á fundinum sjálfum hafi komið fram að ástæður þess að boðað hafi verið til sérstaks húsfundar um heimild húsfélagsins til að koma upp gervihnattabúnaði séu aðallega þrenns konar. Í fyrsta lagi hátti þannig til að magnari fyrir sjónvarpsmerkið í húsi nr. 21 sé úr sér genginn og skipta þurfi honum út. Gervihnattasjónarvarpsbúnaðinum fyirhugaða fylgi hins vegar magnari sem leysi þennan vanda. Gagnaðili þurfi að minnsta kosti að fjármagna þann hluta búnaðarins sem hljóði upp á um 30.000 kr. Þar með væri gagnaðili komið í eitthver félag við einkaframtak nokkurra íbúðareigenda innan húsanna og spyrja megi hvort slíkt sé heppilegt. Auðvitað eigi gagnaðili að hafa fullt forræði yfir öllum helsta sjónvarps- og fjarskiptabúnaði hússins. Viðbótarkostnaður fyrir húsfélagið vegna þessa sé óverulegur, einhversstðar í kringum 200.000 kr. eða um 14.000-15.000 kr. á íbúð, svipað og húsgjald eins mánaðar. Hússjóður standi vel og geti vel greitt þessa framkvæmd án þess að til þurfi að koma nokkur auka gjaldtaka hjá eigendum. Í öðru lagi telji stjórn gagnaðila eðlilegt að kanna almenna afstöðu íbúa fyrir þátttöku húsfélagsins í að kosta búnaðinn og hafa þá yfir honum fullt forræði þegar svo fjölmennur hópur hafi lýst áhuga á tengingu við gervihnattasjónvarp eða alls 7 íbúðareigendur af 17. Að lokum yrði húsfélagið með þessu komið með fullkomnasta sjónvarps- og fjarskiptabúnað sem völ sé á á sinni hendi og slíkt geri ekkert annað en að auka söluhæfni íbúða innan hússins. Hverjum og einum sé auðvitað í sjálfsvald sett hvort eða hvenær menn vilji tengjast gervihnattasjónvarpinu.
Á umræddum húsfundi hafi verið lagt fram lögfræðiálit sem einn íbúanna hafi aflað og fylgi álitsbeiðni til kærunefndar. Fremur en að ganga til atkvæða í miklum ágreiningi og í ljósi þess að í nefndu lögfræðiáliti hafi falist ótvírætt sjónarmið sem hafi gengið þvert á rökstuðning stjórnar gagnaðila hafi það orðið að samkomulagi að fresta atkvæðagreiðslu á húsfundinum og leita eftir nýju áliti kærunefndar um hvort álit nr. 2/2001 standi óhaggað eða hvort tækni- og verðþróun á rúmum áratug geri álit kærunefndar nr. 10/2010 fordæmisgefandi eins og haldið hafi verið fram í fundarboði stjórnar. Kærunefnd hafi vísað þeirri álitsbeiðni frá þar sem hún hafi talið sig skorta lagaheimild til að veita slíka álitsgerð. Nú hafi verið bætt úr annmörkum og álitsbeiðandi sent inn nýja álitsbeiðni.
Fyrir liggi samþykki fulltrúa allra íbúðareigenda um að leyfa að settur yrði upp gervihnattadiskur á þak annars hvors hússins og einstakir eigendur mættu setja upp þar til gerðan búnað til að tengjast gervihnattadisknum. Hverjum og einum sé frjálst hvort eða hvenær hann tengist og hvaða áskriftarpakka viðkomandi velji. Áskrift að sjónvarpsefni sé því ekki hluti af kostnaðinum eins og hafi verið í máli nr. 2/2001. Ágreiningurinn sé einungis um heimild gagnaðila sem slíks til að líta á gervihnattabúnaðinn sem hluta af sjónvarps- og fjarskiptakerfi húsanna og kosta kaup og uppsetningu hans þar af leiðandi.
Í athugasemdum álitsbeiðanda kemur fram að í greinargerð gagnaðila segi að fyrir liggi samþykki fulltrúa allra íbúðareigenda fyrir að leyfa að settur yrði upp gervihnattadiskur á þak annars hvors hússins og að einstaka eigendur mættu setja upp þar til gerðan búnað til að tengjast gervihnattadisknum. Í ljósi þessa vilji álitsbeiðandi benda á að slíkt samþykki hafi verið gefið með þeim forsendum að aðilar bæru kostnað við slíka uppsetningu sjálfir en ekki hafi verið óskað eftir samþykki fyrir því að hússjóður stæði undir þeim kostnaði þegar slíkt samþykki hafi verið veitt. Eins og síðar hafi komið fram í greinargerð gagnaðila að ágreiningurinn sé einungis um heimild gagnaðila sem slíks til að líta á gervihnattabúnaðinn sem hluta af sjónvarps- og fjarskiptakerfi húsanna og kosta kaup og uppsetningu hans þar af leiðandi.
Í athugasemdum gagnaðila kemur fram að álitsbeiðandi hafi áréttað í athugasemdum sínum að hann hafi veitt samþykki sitt fyrir uppsetningu gervihnattadisks á þaki annars hvors húsanna með þeim fyrirvara að hann bæri engan kostnað af uppsetningu búnaðarins.
Vegna þessa skuli tekið fram að þegar ósk hafi borist frá nokkrum íbúa um uppsetningu gervihnattadisks hafi stjórn gagnaðila talið að ef til vill mætti líta á slíkan búnað sem útlitsbreytingu á húsinu og talið rétt að leita samþykkis allra íbúðareigenda fyrir slíkri uppsetningu. Þetta hafi verið gert bæði bréflega og með tölvupósti. Svörin hafi hins vegar mörg hver verið veitt munnlega í síma, þar á meðal hafi álitsbeiðandi rætt við fulltrúa gagnaðila í síma og veitt samþykki sitt eins og aðrir íbúðareigendur. Hafi álitsbeiðandi sett þann fyrirvara sem hann nefni þá muni viðmælandi hans ekki eftir því en muni ekki bera brigður á að svo hafi verið. Í öðrum tilfellum hafi íbúðareigendur veitt samþykki sitt með tölvupósti og hafi einhverjir þeirra lýst vilja sínum að vera þátttakendur í framtakinu. Framangreind beiðni hafi því fyrst og fremst snúið að samþykki fyrir uppsetningu gervihnattadisks.
Framkomin sjónarmið eru ítrekuð.
III. Forsendur
Deilt er um hvort uppsetning gervihnattabúnaðar geti fallið undir kaupverð og viðhald sjónvarpskerfa og loftneta skv. 4. tölul. B-liðar 45. gr. fjöleignarhúsalaga og að þar með dugi samþykki einfalds meiri hluta eigenda bæði miðað við fjölda og eignarhluta á húsfundi, sbr. 4. tölul. C-liðar 41. gr. fjöleignarhúsalaga.
Samkvæmt 7. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús falla allar lagnir, svo sem fyrir heitt vatn, kalt vatn, skolp, rafmagn, síma, dyrasíma, sjónvarpsloftnet og útvarpsloftnet, sem þjóna sameiginlegum þörfum og þörfum heildarinnar, án tillits til þess hvar þær liggja í húsinu, undir sameign fjöleignarhúss. Samkvæmt 8. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 fellur allur búnaður, kerfi og þess háttar, án tillits til staðsetningar, bæði innan húss og utan, svo sem lyftur, rafkerfi, hitakerfi, vatnskerfi, símakerfi, dyrasímakerfi, sjónvarpsloftnet og útvarpsloftnet, leiktæki o.fl., sem þjóna þörfum heildarinnar, en þó að undanskildum tækjum og búnaði, sem tengd eru við kerfin inni í hverjum séreignarhluta, undir sameign fjöleignarhúss. Kostnaður vegna kaupverðs og viðhalds dyrasíma, sjónvarps- og útvarpskerfa, loftneta, póstkassa, nafnskilta og annars búnaðar sem eigendur hafa jöfn afnot og gagn af með líkum hætti, skiptist og greiðist af jöfnu, sbr. 4. tl. B-liðar 45. gr. laga nr. 26/1994.
Kærunefnd telur að uppsetning gervihnattadisks sé slík ráðstöfun að samþykki allra íbúðareigenda þurfi til þar sem ekki sé um hefðbundinn eða nauðsynlegan búnað til móttöku sjónvarps- eða útvarpssendinga að ræða, sbr. 11. tl. A-liðar 41. gr. Einnig ber að vísa til 12. tl. A-liðar 41. gr. þessu til stuðnings. Er álitsbeiðanda því ekki skylt að taka þátt í kostnaði af stofnframkvæmdum vegna gervihnattadisks. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að þeir íbúðareigendur sem það kjósa, setji upp slíkan búnað og reki, enda hafi húsfélag heimilað slíkt. Til slíkrar ákvörðunar telur kærunefnd að öllu jöfnu þurfi samþykki 2/3 hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, sbr. 3. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að uppsetning gervihnattadisks og áskrift að sjónvarpsefni í gegnum hann sé ráðstöfun sem þurfi samþykki allra eigenda, sbr. 11. tölul. A-liðar 41. gr. fjöleignarhúsalaga.
Reykjavík, 6. janúar 2014
Auður Björg Jónsdóttir
Karl Axelsson
Eyþór Rafn Þórhallsson