Hoppa yfir valmynd
15. mars 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 46/2000

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 46/2000

 

Sameign: Loftnet.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 19. desember 2000, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 28, hér eftir nefnt gagnaðili.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 29. janúar 2001. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Athugasemdir gagnaðila hafa ekki borist en frestur var veittur til 14. febrúar 2001. Á fundi nefndarinnar 15. mars 2001 var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 28. Eignaskiptayfirlýsing hefur ekki verið gerð fyrir húsið. Álitsbeiðandi er eigandi einstaklingsíbúðar í suðvesturhorni í kjallara hússins, íbúð 402, merkt 0002 í þinglýsingabókum. Eignarhlutfall íbúðarinnar er 2,7%. Ágreiningur er um rétt álitsbeiðanda til þess að fá aðgang að sameiginlegu loftnetskerfi hússins.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi hafi sama rétt og aðrir eigendur hússins til hagnýtingar á sameiginlegu loftnetskerfi hússins og að gagnaðila sé skylt að tengja íbúð álitsbeiðanda við sameiginlegt loftnetskerfi í húsinu.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi ekki fengið aðgang að sameiginlegu loftnetskerfi hússins þrátt fyrir ítrekaða beiðni þess efnis. Myndgæði í sjónvarpi séu óásættanleg, þ.e. flöktandi mynd úr grófkornóttum lit í svart hvítri mynd og miklar truflanir. Álitsbeiðandi greiði í hússjóð og í því felist m.a. framkvæmdagjald, húsgjald, tryggingar, hiti, jafnskipt húsgjald, jafnskiptjafnsskipt framkvæmdagjald og viðgerð á þaki, samtals 5.767 kr., en eignarhlutfall íbúðarinnar sé 2,7% í öllu húsinu.

Álitsbeiðandi styður kröfur sínar aðallega við 6. gr., 7. tl. 8. gr., 2.-4. mgr. 10. gr., 3. og 4. tl. 12. gr., 1. mgr. 20. gr., 1. mgr. 21. gr., 1.-3. mgr. 34. gr., 39. gr., 2. mgr. 56. gr. og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

 

III. Forsendur

Gagnaðili hefur hvorki sent kærunefnd athugasemdir sínar né komið á framfæri sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, þrátt fyrir að honum hafi verið gefinn kostur á því. Er því í úrlausn málsins alfarið stuðst við sjónarmið álitsbeiðanda eftir því sem þau fá stuðning í gögnum málsins.

Samkvæmt 7. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús falla allar lagnir, svo sem fyrir heitt vatn, kalt vatn, skolp, rafmagn, síma, dyrasíma, sjónvarpsloftnet og útvarpsloftnet, sem þjóna sameiginlegum þörfum og þörfum heildarinnar, án tillits til þess hvar þær liggja í húsinu, undir sameign fjöleignarhúss. Samkvæmt 8. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 fellur allur búnaður, kerfi og þess háttar, án tillits til staðsetningar, bæði innan húss og utan, svo sem lyftur, rafkerfi, hitakerfi, vatnskerfi, símakerfi, dyrasímakerfi, sjónvarpsloftnet og útvarpsloftnet, leiktæki o.fl., sem þjóna þörfum heildarinnar, en þó að undanskildum tækjum og búnaði, sem tengd eru við kerfin inni í hverjum séreignarhluta, undir sameign fjöleignarhúss. Kostnaður vegna kaupverðs og viðhalds dyrasíma, sjónvarps- og útvarpskerfa, loftneta, póstkassa, nafnskilta og annars búnaðar sem eigendur hafa jöfn afnot og gagn af með líkum hætti, skiptist og greiðist af jöfnu, sbr. 4. tl. B-liðar 45. gr. laga nr. 26/1994.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 26/1994 fylgir hverri séreign hlutdeild í sameign skv. 2. og 3. tl. 1. mgr. sömu greinar eftir ákveðinni hlutfallstölu, sbr. 14. gr. laganna. Séreignarhlutunum fylgja eftir hlutfallstölum réttindi og skyldur til að taka þátt í félagsskap allra eigenda um húsið, húsfélagi þar sem öllum sameiginlegum málefnum skal til lykta ráðið, sbr. 3. mgr. 10. gr. laganna. Í 4. mgr. 10. gr. kemur síðan fram að réttindi þau og skyldur, sem um ræðir í 2. og 3. mgr., séu órjúfanlega tengd séreignum og verða ekki frá þeim skilin.

Það er álit kærunefndar, með vísan til ofangreinds, að álitsbeiðandi hafi sama rétt og aðrir eigendur hússins til hagnýtingar á sameiginlegu loftnetskerfi hússins og að húsfélaginu sé skylt að tengja íbúð álitsbeiðanda við sameiginlegt loftnetskerfi hússins.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi hafi sama rétt og aðrir eigendur hússins til hagnýtingar á sameiginlegu loftnetskerfi hússins og að húsfélaginu sé skylt að tengja íbúð álitsbeiðanda við sameiginlegt loftnetskerfi hússins

 

 

Reykjavík, 15. mars 2001

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta