Hoppa yfir valmynd
12. maí 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grænar lausnir í forgrunni á fundi norrænna umhverfis- og loftslagsráðherra í Borgarfirði

F.v: Ane Wraae Nielsen, f.h. Grænlands; Hilmar Høgenni f.h Færeyja, Bertel Dons Christensen f.h. Danmerkur, Christian Wikström, innanríkisráðherra Álandseyjar, Karen Ellemann framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Romina Pourmokhtari loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar, Juhani Damski f.h. Finnlands og Espen Barth Eide loftslags- og umhverfisráðherra Noregs. - myndGolli

Aðlögun að loftslagsbreytingum, sjálfbær orka, grænar siglingaleiðir og alþjóðlegar plastviðræður voru meðal umræðuefna á fundi norrænna umhverfis- og loftslagsráðherra í Borgarfirði í gær.

Fyrri hluti fundarins var helgaður baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ræddu ráðherrarnir m.a. norrænar áherslur í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28 sem haldin verður í Dubai síðar á árinu. Kynntar voru niðurstöður norrænnar ráðstefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum (NOCCA23) sem haldin var í Reykjavík í apríl sl. og lögð var fram ný norræn skýrsla um mögulegar leiðir fyrir losunarlausar skipaferðir á norðlægum slóðum. Þá var íslenska Carbfix verkefnið kynnt og ræddu ráðherrarnir í kjölfarið um nýtingu ólíkra aðferða við geymslu og föngun kolefnis (Carbon Capture and Storage). Einnig ræddu ráðherrarnir mikilvægi þess að liðka fyrir framboði á sjálfbærri orku í þeirri orkukreppu sem nú er uppi á alþjóðavísu.

„Samstarf Norðurlandanna á sviði loftslagsmála er mikilvægt og áhrifaríkt,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem stýrði fundinum. „Við getum boðið grænar lausnir, allt frá vindorku til jarðvarma, frá kolefnisföngun til grænna skipaleiða – og það er hlustað á okkur á alþjóðlegum vettvangi.“

Seinni hluti fundarins var helgaður alþjóðlegum ferlum og viðræðum. Framundan er annar samningafundur nýsalþjóðlegs plastsamnings sem áformað er að koma á laggirnar í lok árs 2024 og fengu ráðherrarnir upplýsingar um stöðu viðræðnanna. Þá var lagapakki ESB á sviði loftslagsmála, „Fit for 55“ til umræðu og þær ólíku áskoranir sem hann hefur í för með sér fyrir Norðurlöndin. Loks ræddu ráðherrarnir umhverfis- og loftslagsmál á Norðurslóðum.

Fundur norrænu umhverfisráðherranna fór fram í Borgarfirðinum. Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2023.

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

 

  • Karen Ellemann framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - mynd
  • Grænar lausnir í forgrunni á fundi norrænna umhverfis- og loftslagsráðherra í Borgarfirði - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta