Nr. 419/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 20. október 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 419/2022
í stjórnsýslumálum nr. KNU22090032 og KNU22090033
Beiðni um endurupptöku í málum [...]
-
Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 399/2021, dags. 26. ágúst 2021, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 20. apríl 2021, um að taka umsóknir einstaklinga er kveðast heita [...], vera fædd [...] (hér eftir A) og [...], vera fæddur [...] (hér eftir B) og vera ríkisborgarar Bangladess, um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum 30. ágúst 2021. Hinn 6. september 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og var þeirri beiðni hafnað með úrskurði kærunefndar 22. september 2021, nr. 476/2021. Hinn 4. október 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 547/2021, dags. 4. nóvember 2021, var beiðni kærenda um endurupptöku hafnað. Hinn 14. september 2022 barst kærunefnd önnur beiðni kærenda um endurupptöku. Hinn 14. október 2022 barst kærunefnd viðbótarrökstuðningur.
Beiðni kærenda um endurupptöku á máli þeirra er reist á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
-
Málsástæður og rök kæranda
Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. Andlát móður kærenda [...] breyti stöðu þeirra sem hafi umtalsverð áhrif á mál þeirra. Hinar nýju aðstæður hafi m.a. áhrif við mat á persónulegum aðstæðum þeirra, tengslum þeirra við landið, félagslegri stöðu þeirra og andlegri heilsu. Þau syrgi nú móður sína sem komi til viðbótar við fyrri áfallasögu. Með tilliti til þess um hve þýðingarmikinn atburð sé að ræða sem snerti kærendur djúpt bendi allt til þess að um verulegar breyttar aðstæður sé að ræða og fullt tilefni sé til að kanna nánar hvernig það hafi áhrif á mál kærenda.
Í ljósi framangreinds séu sterk rök fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli þessu. Hinar breyttu aðstæður feli í sér atriði sem ekki hafi legið fyrir þegar ákvarðanir voru teknar í málum kærenda á fyrri stigum. Kærendur vísa til þess að kærunefnd beri að endurupptaka mál þeirra og kanna hinar breyttu aðstæður. Með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, þeim hagsmunum sem séu undir og þýðingu hinna nýju upplýsinga telji kærendur að skilyrði endurupptöku séu uppfyllt.
Í viðbótarrökstuðningi er vísað til þess að með úrskurði kærunefndar nr. 547/2021 hafi B verið synjað um endurupptöku með vísan til þess að hann bæri ábyrgð á meintum töfum á afgreiðslu umsóknar hans um alþjóðlega vernd, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. B vísar til nýlegrar úrskurðarframkvæmdar kærunefndar útlendingamála en nefndin hafi slegið því föstu að athafnir foreldra umsækjanda geti ekki talist á ábyrgð viðkomandi umsækjanda í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. m.a. úrskurði nefndarinnar nr. 115/2022 og 151/2022. Sonur B sé einungis [...] ára gamall og geti því ekki með nokkru móti, hvorki með athöfnum eða athafnaleysi, borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsókna þeirra. Með vísan til breyttrar stjórnsýsluframkvæmdar kærunefndar og samfelldrar dvalar sonar B hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 3. október 2020, sé á því byggt að atvik hafi breyst verulega á þann hátt að B og sonur hans eigi rétt á endurupptöku á málum sínum, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Beri því að fella ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi og gera stofnuninni að taka umsóknir B og sonar hans til efnismeðferðar á grundvelli 2. máls. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
-
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kærenda 26. ágúst 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærendur hefðu slík tengsl við landið að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærendur reisa beiðni sína um endurupptöku á því að þau telji að aðstæður þeirra hafi nú breyst verulega eftir andlát móður þeirra. Hinar nýju aðstæður hafi m.a. áhrif við mat á persónulegum aðstæðum þeirra, tengslum þeirra við landið, félagslegri stöðu þeirra og andlegri heilsu.
Í úrskurði kærunefndar, dags. 26. ágúst 2021, í máli kærenda, var lagt einstaklingsbundið mat á aðstæður þeirra í viðtökuríki. Kærendur höfðu þá verið handhafar alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi í um sjö ár og bæði haft atvinnu í landinu að eigin sögn. Þá var í úrskurðinum fjallað um aðgang þeirra að heilbrigðisþjónustu í Ungverjalandi en kærendur hafi að lögum sambærilegan rétt á heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum og ríkisborgarar Ungverjalands og höfðu kærendur við meðferð málsins greint frá því að hafa haft aðgengi að heilbrigðiskerfi landsins. Er það mat kærunefndar að félagsleg staða þeirra í Ungverjalandi hafi ekki breyst frá því kærunefnd kvað upp úrskurð sinn í málinu. Þá hafa kærendur aðgang að heilbrigðisþjónustu í Ungverjalandi m.a. í því skyni að hlúa að andlegri heilsu sinni. Að mati kærunefndar hefur fráfall móður kærenda ekki þau áhrif á aðstæður þeirra að nefndin líti svo á að atvik þau sem úrskurður nefndarinnar byggði á hafi breyst svo verulega að forsendur séu til að endurupptaka málið á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Þá vísa kærendur til þess í greinargerð sinni að móðir þeirra sé grafin hér á landi. Má af greinargerð þeirra ráða að þau telji það hafa áhrif á tengsl þeirra við landið. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið litið svo á að réttur til að vera viðstaddur jarðarför ættingja og votta virðingu sína við gröf falli undir fjölskyldu- og einkalíf í skilningi 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dómur mannréttindadómstólsins í máli Solska og Rybicka gegn Póllandi (mál nr. 30491/17 og 31083/17), frá 20. september 2018. Kærunefnd bendir á að kærendur eru handhafar alþjóðlegrar verndar, með dvalarleyfi í Ungverjalandi og geta því komið hingað til lands án áritunar, skv. 49. sbr. 20. gr. laga um útlendinga, og heimsótt gröf móður sinnar, sbr. og úrskurð kærunefndar nr. 483/2019 og dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3205/2020. Þrátt fyrir að móðir kærenda sé grafin hér á landi telst það ekki til slíkra tengsla við landið að ástæða sé til að umsókn þeirra um alþjóðlega vernd verði tekin til efnislegrar meðferðar hér með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærandi B reisir beiðni sína um endurupptöku einnig á því að sonur hans geti ekki borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknar hans, sbr. úrskurði kærunefndar nr. 115/2022 og 151/2022. Beri því að endurupptaka málið, fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og gera stofnuninni að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í framangreindum úrskurðum taldi nefndin að ekki væri unnt að líta svo á að börn geti borið ábyrgð á mögulegum töfum sem hafi orðið á afgreiðslu máls í skilningi 2. máls. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, jafnvel þótt forsjáraðilar þeirra yrðu talin bera slíka ábyrgð. Þar sem meira en 12 mánuðir voru liðnir frá því umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd bárust fyrst íslenskum stjórnvöldum var fallist á endurupptöku mála þeirra og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir þeirra til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. B og sonur hans lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 3. október 2020 og var umsókn sonar hans tekin til efnismeðferðar. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á því ekki við í máli sonar B og því ekki tilefni til að endurupptaka mál hans á þeim grundvelli. Þá hefur kærunefnd þegar tekið afstöðu til þess hvort skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í mál B. Með úrskurði kærunefndar nr. 547/2021 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að B hafi tafið afgreiðslu umsóknar sinnar og að töf á afgreiðslu málsins hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Var skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga því ekki talið uppfyllt í máli B. Að teknu tilliti til gagna málsins er það því mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að atvik málsins hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar, dags. 26. ágúst 2021, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um endurupptöku málsins því hafnað.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.
The appellants’ request to re-examine the case is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Gunnar Páll Baldvinsson