Hoppa yfir valmynd
19. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Viðbrögð við vá og þróun norrænna velferðarvísa

Norræn velferðarvakt
Norræn velferðarvakt

Í gær var haldinn kynningarfundur í velferðarráðuneytinu um norrænu velferðarvaktina. Kynntar voru rannsóknir verkefnisins og nýtt vefsvæði opnað. Verkefnið, sem nær til þriggja ára, má rekja til íslensku velferðarvaktarinnar og var því ýtt úr vör á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Markmið verkefnisins er að finna leiðir til að mæla og fylgjast með velferð borgaranna, að rannsaka áhrif fjármálaþrenginga á norrænu velferðarkerfin í samanburði við önnur evrópsk ríki og stuðla að upplýstri  stefnumótun í velferðarmálum. Á fundinum var þeirri spurningu meðal annars velt upp hvaða efnahagsaðgerðir væru best til þess fallnar að verja velferð borganna í kreppu.

Frummælendur á fundinum leiða verkefnin þrjú sem unnið er að innan Norrænu velferðarvaktarinnar. Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, greindi frá rannsóknaverkefninu Norræn velferðarvakt og viðbrögð við vá þar sem sérstök áhersla er lögð á hlutverk félagsþjónustu sveitarfélaga á tímum hamfara, hvernig megi samhæfa viðbrögð velferðarkerfa í kjölfar vár og efla viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga. Stefán Ólafsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, og Agnar Freyr Helgason, stjórnmála- og hagfræðingur, greindu frá verkefninu Kreppur og velferð; lærdómur fyrir framtíðina þar sem fjallað er um afleiðingar fjármálakreppa á Norðurlöndunum og öðrum Evrópulöndum, og árangur af mismunandi stefnu og aðgerðum stjórnvalda í kjölfar efnhagsþrenginga. Agnar greindi frá samanburðarrannsókn á viðbrögðum Íslands og Írlands við efnahagshruni árið 2008 en efnahagslegar aðstæður voru að mörgu leyti svipaðar í löndunum áður en fjármálakreppan reið yfir. Fram kom í máli Agnars að íslenskum stjórnvöldum hefði, þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir, tekist betur upp en Írlandi að halda atvinnuleysi í skefjum og verja þá verst settu í samfélaginu. Agnar telur að þetta stafi af því að Írar beittu flötum niðurskurði á meðan íslensk stjórnvöld leituðust við að forgangsraða velferðarkerfinu í hag.

Loks greindi Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, frá verkefninu Norrænir velferðarvísar. Verkefninu svipar til íslensku félagsvísanna og er ætlað að þróa velferðarvísa sem eru lýsandi fyrir stöðu velferðar íbúa á Norðurlöndunum á ólgutímum þar sem viðhorf, menning og samfélagsaðstæður taka miklum breytingum.

Kynningarfundinn sóttu aðilar sem tengjast verkefninu, svo sem starfsfólk ráðuneyta, einstaklingar úr háskólasamfélaginu og aðilar sem vinna að velferðarmálum og norrænum samstarfi. Stefnt er að því að halda opinn kynningarfund um norrænu velferðarvaktina næsta haust þegar verkefnin verða komin vel á veg og verður hann auglýstur þegar nær dregur.

Á vefsvæði norrænu velferðarvaktarinnar má nálgast nýja matsskýrslu á störfum íslensku velferðarvaktarinnar sem unnin var á vegum norræna verkefnisins. Í skýrslunni er gerð grein fyrir skipulagi, starfi og afdrifum tillagna sem lagðar voru fram á starfsárum fyrstu íslensku velferðarvaktarinnar, 2009-2013.

Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneyti Agnar Freyr Helgason, stjórnmála- og hagfræðingur
Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneyti Agnar Freyr Helgason, stjórnmála- og hagfræðingur
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands Siv Friðleifsdóttir, formaður stýrihóps Norrænu velferðarvaktarinnar
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands Siv Friðleifsdóttir, formaður stýrihóps Norrænu velferðarvaktarinnar
Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands  
Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta