Fréttapistill vikunnar 8. - 14. janúar
Óvenju mikið álag vegna inflúensu og annarra pesta raskar starfsemi LSH
Mikið álag hefur verið á Landspítala – háskólasjúkrahúsi (LSH) síðustu daga vegna þess hve veikindi, inflúensa og aðrar pestir herja á landsmenn af miklum þunga. Á heimasíðu sjúkrahússins kemur fram að í gær, 13. jan. hafi þurft að leggja 50 sjúklinga á bráðadeildir umfram skráð rúm og þurft hafi að fresta skurðaðgerðum vegna þessa. Framkvæmdastjórn LSH ákvað í gær að grípa til ráðstafana með því að bæta við 24 aukarúmum á sjúkrahúsinu. Þá var gæsludeild A-2 í Fossvogi stækkuð og herbergjum sem eru til annarra nota var breytt í sjúkrastofur. Einnig var dagdeild 13E við Hringbraut breytt í legudeild. Þessar ráðstafanir gilda til mánudags 17. janúar en þá verður ástandið endurmetið.
LSH...
Sértekjur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri jukust um 19%
Jafnvægi er í rekstri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri samkvæmt rekstraruppgjöri sjúkrahúsins fyrir tímabilið janúar – nóvember 2004. Í samantekt fjármálastjóra á heimasíðu FSA kemur m.a. fram að almenn rekstrargjöld hafi hækkað um 5,8% frá fyrra ári. Hækkun hafi orðið á aðkeyptri sérfræðiþjónustu en lyf hafi lækkað um 15 milljónir króna eða sem svarar 13%. Auknar sértekjur eru sagðar eiga stóran þátt í góðri afkomu sjúkrahússins, þær hafi aukist um 19% milli ára og verið 20% umfram það sem áætlað var.
Nánar...
Fíkniefni og forvarnarstarf lögreglunnar
Um 62% ungs fólks á aldrinum 18 – 20 ára hafa einhvern tímann verið boðin fíkniefni samkvæmt könnun á viðhorfum ungs fólks til forvarnarstarfs lögreglu sem ríkislögreglustjóri lét gera. Um 13% ungmenna höfðu neytt fíkniefna síðustu 12 mánuði fyrir gerð könnunarinnar. Meðal þess sem könnunin leiddi í ljós var að skólaganga hefur forvarnargildi og eins benda niðurstöðurnar til þess að með því að bjóða ungu fólki áhugaverð verkefni í frítíma sínum geti það dregið úr líkum á að því séu boðin fíkniefni. Fjallað er um könnunina á Lögregluvefnum.
http://www.logreglan.is...
Minnt á umsóknarfrest vegna styrkja til gæðaverkefna
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið minnir á að frestur til að sækja um styrki til gæðaverkefna í samræmi við gæðaáætlun ráðuneytisins rennur út 31. janúar nk. Veittir verða styrkir sem nema á bilinu 100 – 500 þúsund krónum. Nánari upplýsingar ásamt umsóknareyðublöðum eru á gæðavef ráðuneytisins.
Nánar...