Hoppa yfir valmynd
16. september 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 445/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 16. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 445/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060068

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. júní 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Alsír (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júní 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 31. ágúst 2016. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum kom í ljós að kærandi hafði áður sótt um vernd í Þýskalandi hinn 6. nóvember 2011. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. september 2016, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar og var sú ákvörðun staðfest af kærunefnd útlendingamála hinn 14. nóvember 2016. Er til stóð að flytja kæranda til Þýskalands lét hann sig hverfa og fór flutningur hans því ekki fram. Hinn 24. ágúst 2018 sótti kærandi aftur um alþjóðlega vernd hér á landi en greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 23. október 2018 að hann vildi draga umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka vegna áforma hans um að kvænast EES borgara. Kærandi dró umsókn sína um alþjóðlega vernd formlega til baka hinn 13. nóvember 2018. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar með EES borgara hjá Útlendingastofnun hinn 23. nóvember 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. október 2020, var umsókn kæranda synjað með vísan til 90. gr. laga um útlendinga, sbr. 80. gr. sömu laga.

Hinn 10. febrúar 2021 barst Útlendingastofnun endurviðtökubeiðni frá dönskum stjórnvöldum. Sú beiðni var samþykkt hinn 17. febrúar 2021. Kærandi var sendur hingað til lands hinn 31. mars 2021 og sótti hann um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 9. apríl 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. hinn 26. apríl 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 11. júní 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 29. júní 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 2. júlí 2021 ásamt fylgiskjölum. Kærunefnd bárust viðbótargögn hinn 31. ágúst og 2. september 2021. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna félagslegra aðstæðna sinna þar í landi og vegna heilsufarsvandamála.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda til kærunefndar er ekki fjallað um málsatvik eða landaupplýsingar heldur vísað til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar. Þar kemur fram að kærandi hafi greint frá því að vera fæddur og uppalinn í […] í Alsír en foreldrar hans hafi skilið áður en kærandi hafi fæðst. Þar sem faðir hans hafi afneitað honum hafi móðuramma og móðurafi kæranda ákveðið að hugsa um hann en þau hafi látist þegar kærandi hafi verið 17 ára. Frændi kæranda hafi erft hús þeirra og sagt kæranda að hann yrði að yfirgefa heimilið. Kærandi hafi neyðst til að hætta í skóla til að vinna fyrir sér og jafnframt sinnt herþjálfun. Hann hafi ekki verið meðvitaður um að hann væri með heilaæxli á þeim tíma. Þegar hann hafi komið til Evrópu árið 2010 hafi hann þróað með sér flogaveiki. Fyrsta flogakastið hafi hann fengið í Danmörku en í Þýskalandi hafi æxlið fundist og og talin vera ástæða flogakastanna. Hann hafi fengið fimm flogaköst á tveggja mánaða tímabili og hlotið meiðsli við hvert kast en hann detti yfirleitt á hægri öxl við flog. Hann hafi verið undir eftirliti lækna frá árinu 2017 til ársins 2018 en þá hafi honum verið greint frá því að hann þarfnist aðgerðar vegna æxlisins og axlarinnar. Þá hafi æxlið áhrif á sjón kæranda en sjón hans á hægra auga sé slæm. Kærandi hafi greint frá því að hafa ekkert bakland eða stuðning í heimaríki sínu og eigi engan stað til að búa á. Þá sé hann í engum samskiptum við föður sinn og telji að hann muni enda heimilislaus. Hann hafi mestar áhyggjur af heilsu sinni en hann hafi ekki hitt lækni í þrjú ár. Hann þurfi ávallt að hafa einhvern hjá sér þar sem hann geti fengið flogakast hvar og hvenær sem er og því geti hann ekki unnið. Jafnvel þó hann gæti unnið myndi hann ekki ná að afla nægjanlegra tekna í heimaríki til að eiga fyrir lyfjum og aðgerð vegna heilaæxlis. Þá geti hann ekki leitað aðstoðar yfirvalda í heimaríki því þar sé ekki unnt að fá fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.

Kærandi vísar til umfjöllunar í greinargerð hans til Útlendingastofnunar um aðstæður í Alsír. Þar kemur m.a. fram að meðal helstu mannréttindabrota í landinu árið 2020 hafi verið handahófskenndar handtökur og varðhald, skortur á sjálfstæði og óhlutdrægni dómstóla landsins, ólögmæt afskipti yfirvalda af friðhelgi einstaklingsins, takmörkun tjáningarfrelsis, skortur á frelsi fjölmiðla til að sinna störfum sínum, brot á félaga- og fundafrelsi borgara og opinber spilling. Þá hafi Alsír verið illa undirbúið til að takast á við Covid-19 heimsfaraldurinn en þrátt fyrir að heilbrigðiskerfi landsins sé hátt metið meðal Afríkuríkja sé talið að það eigi langt í land til að uppfylla staðla ríkari landa. Talið sé að skortur sé m.a. á sjúkrarúmum, lyfjum og hlífðarfatnaði. Samhliða veldisvexti sýkinga af völdum Covid-19 hafi heimsfaraldurinn haft neikvæð áhrif á alla þætti samfélagsins en almenningur hafi upplifað vaxandi fátækt, atvinnuleysi og einangrun ásamt versnandi geðheilsu.

Kærandi krefst þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í greinargerð kæranda kemur fram að þegar aðstæður kæranda séu metnar heildstætt sé ljóst að félagslegar aðstæður hans í heimaríki séu erfiðar. Horfa verði til þess að kærandi hafi ekkert stuðningsnet eða bakland í heimaríki þar sem foreldrar hans hafi ekki hugsað um hann síðan hann hafi verið barn. Þá séu afi hans og amma, sem hafi alið hann upp, látin og í kjölfar þess hafi frændi kæranda vísað honum út úr húsnæði þeirra. Kærandi hafi verið greindur með flogaveiki og kveðst hann jafnframt vera greindur með heilaæxli. Þá hafi kæranda verið tjáð af þýskum lækni að hann eigi ávallt að vera í fylgd einhvers þar sem hann geti fengið flog hvenær og hvar sem er. Þetta geri honum erfitt með vinnu sem hafi þau áhrif að hann hafi ekki efni á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimaríki.

Kærandi mótmælir því mati Útlendingastofnunar að honum standi til boða sú heilbrigðisþjónusta í heimaríki sem hann telji sig þurfa á að halda vegna þeirra heilsufarsvandamála sem hann hafi greint frá. Kærandi telur mikilvægt að skorið verði úr því af hálfu taugalæknis hér á landi hver heilsufarsleg staða kæranda sé svo unnt sé að meta hvort honum standi til boða fullnægjandi meðferð í heimaríki. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi m.a. til úrskurðar kærunefndar nr. 316/2017 frá 2. júní 2017 þar sem nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að Útlendingastofnun hafi ekki lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni með því m.a. að kalla ekki eftir skýrslum lækna um heilsufar umsækjanda. Kærandi telur að frásögn hans og fyrirliggjandi heilbrigðisgögn frá Þýskalandi hafi gefið tilefni til frekari rannsóknar og gagnaöflunar af hálfu Útlendingastofnunar, en stofnunin hafi ekki talið neitt benda til þess að kærandi sé með heilaæxli eftir að hafa farið yfir og þýtt innihald heilbrigðisgagna frá Þýskalandi. Kærandi telur nauðsynlegt að nýleg heilsufarsgögn liggi fyrir áður en ákvörðun sé tekin í máli hans, t.a.m. hvaða áhrif það hefði á heilsu hans að vera sendur aftur til heimaríkis, hvaða lyf séu honum nauðsynleg og hvort slík lyf séu aðgengileg í heimaríki ásamt fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Þá verði að líta til þess hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn hafi á stöðu kæranda. Í þessu samhengi vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 432/2020 frá 17. desember 2020 þar sem horft hafi verið til þess hvort aðgengi, framboð og gæði lyfja hafi verið fullnægjandi í heimaríki kæranda. Kærandi telur nauðsynlegt að fá úr því skorið hvað orsaki flogaveiki hans svo unnt sé að taka nægilega upplýsta ákvörðun í máli hans, m.a. til þess að geta með fullnægjandi hætti lagt mat á það hvort hann sé í áhættuhópi vegna Covid-19.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram alsírskt neyðarvegabréf þegar hann hafi sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sambúðar með EES borgara. Vegabréfið sé með gildistíma til 5. febrúar 2021 og hafi verið útgefið af alsírska sendiráðinu í Stokkhólmi. Vegabréfið hafi verið sent til rannsóknar á vegabréfarannsóknarstofu flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum og samkvæmt skýrslu þeirra hafi ekki verið neitt að sjá í vegabréfinu sem hafi gefið til kynna að búið væri að eiga við það á einn eða annan hátt. Þar sem gildistími vegabréfsins hafi verið útrunnin var það mat Útlendingastofnunar að umsækjandi hafi ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika og taldi Útlendingastofnun ekki tilefni til að draga í efa að hann væri ríkisborgari Alsír. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé alsírskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Alsír m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices: Algeria (U.S. Department of State, 30. mars 2021);
  • Algeria 2020 Crime and Safety Report (OSAC, 9. júní 2020);

  • Algeria Country Security Report (OSAC, 22. júlí 2021);
  • Algeria’s response to Covid-19: an ongoing journey (The Lancet Respiratory Medicine, 8. febrúar 2021);
  • Algerie: Sikkerhet og terrorisme (Landinfo, 9. desember 2015);
  • Algeriet: Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer: situationen per den 30 juni 2019 (Utrikesdepartementet, 11. júní 2019);
  • Amnesty International Report 2020/21 – Algeria (Amnesty International, 7. apríl 2021);

  • BTI 2020 Country Report Algeria (Bertelsmanns Stiftung, 29. apríl 2020);
  • Country Cooperation Strategy at a glance – Algeria (World Health Organization, 1. maí 2016);
  • Country Policy and Information Note – Algeria: Actors of protection (UK Home Office, ágúst 2020);
  • Country Policy and Information Note – Algeria: Internal relocation and background information (UK Home Office, september 2020);
  • Covid-19 and Epilepsy (https://www.epilepsy.com/learn/covid-19-and-epilepsy, sótt 8. September 2021).
  • Freedom in the World 2021 – Algeria (Freedom House, 2021);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 16. september 2021);
  • Stjórnarskrá Alsírs (Constitution of the people´s democratic public of Algeria 1989),
    http://confinder.richmond.edu/admin/docs/local_algeria.pdf.;
  • The World Factbook – Algeria (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 8. september 2021) og
  • World Report 2021 – Algeria: Events of 2020 (Human Rights Watch, janúar 2021).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Alsír fjölflokka lýðveldi með tæplega 44 milljónir íbúa. Alsír lýsti yfir sjálfstæði frá Frakklandi árið 1962 og gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum sama ár. Ríkið gerðist svo aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna árið 1963, mannréttindasáttmála Afríku árið 1987 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1989. Árið 1989 gerðist ríkið jafnframt aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Skýrsla bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2021 gefur til kynna að helstu mannréttindabrot í ríkinu snúi að takmörkunum á funda-, fjölmiðla- og félagafrelsi, skorti á sjálfstæði dómsvaldsins, óhóflegri valdbeitingu lögreglu, útbreiddri spillingu og refsileysi opinberra starfsmanna. Í skýrslunni kemur fram að þrátt fyrir að handahófskenndar handtökur séu refsiverðar samkvæmt lögum séu dæmi um að stjórnvöld noti óljós lagaákvæði til að þagga niður í eða handtaka einstaklinga sem gagnrýni stjórnvöld landsins opinberlega. Stjórnarskrá ríkisins kveði á um að allir eigi rétt á réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum og að gengið sé út frá því að einstaklingur sé talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð. Þó séu dómstólar ekki í öllum tilvikum hlutlausir og sumir eftirlitsaðilar telji að spilling viðgangist innan dómskerfisins. Forseti landsins hafi t.a.m. vald til að skipa saksóknara og dómara. Fram kemur í skýrslu Freedom House fyrir árið 2020 að dómstólaráð, sem leitt sé af forseta landsins, verði gjarnan fyrir þrýstingi frá stjórnvöldum. Samkvæmt framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins liggur allt að tíu ára fangelsisvist við spillingu í opinberu starfi en stjórnvöld fylgi lögunum ekki eftir með fullnægjandi hætti og refsileysi stjórnvalda sé vandamál í landinu. Fram kemur þó að framfarir hafi orðið árið 2019 í tengslum við rannsókn, saksókn og refsingu embættismanna fyrir brot í starfi, þ. á m. spillingu. Samkvæmt skýrslum OSAC (Overseas Security Advisory Council) frá 2019 og 2020 fer stjórnarsvið þjóðaröryggis (e. The Directorate General for National Security (DGSN)) með lögregluyfirvöld í Alsír og heyrir undir innanríkisráðuneytið. DGSN beri að mestu leyti ábyrgð á starfsemi lögregluyfirvalda í stærri borgum og á þéttbýlum svæðum í Alsír.

Samkvæmt skýrslunni Diabetes in Algeria and challenges for health policy skiptist heilbrigðiskerfi Alsír í opinberan geira og einkageira. Samkvæmt skýrslu breska utanríkisráðuneytisins frá 2020 er heilbrigðiskerfi Alsír skipt upp í fimm landssvæði. Á hverju og einu landsvæði séu m.a. svokölluð heilbrigðisráð og svæðisbundnar heilsugæslustöðvar. Miklar framfarir hafi átt sér stað innan heilbrigðiskerfisins frá árinu 2007 hvað varði gæði þjónustu, innviði, tækjabúnað og mannafla. Stjórnvöld hafi þá hafið umbætur innan kerfisins með það að markmiði að tryggja skilvirkni og jafnræði, óháð landshlutum. Heilbrigðiskerfið hafi verið endurskipulagt til að auka aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu. Meðal aðgerða stjórnvalda hafi verið stofnun 195 ríkisrekinna sjúkrahúsa, 271 heilsugæslu og 26 sjúkrahúsa eingöngu fyrir mæður og börn. Þá séu starfandi sérhæfð sjúkrahús í Alsír sem leggi sig fram við að veita tilteknum markhópum þá þjónustu sem þeir þurfa. Alsírskir ríkisborgarar eigi rétt á aðgengilegri og endurgjaldslausri heilbrigðisþjónustu. Þá sé kostnaður sem til komi m.a. vegna lyfja og rannsókna almennt niðurgreiddur af ríkinu um 80%. Einstaklingar sem glími hins vegar við langvinna sjúkdóma fái kostnað vegna lyfja og umönnunar endurgreiddan að fullu. Samkvæmt greininni Algeria‘s response to Covid-19: an ongoing journey er heilbrigðiskerfið í Alsír eitt það besta í Afríku. Þrátt fyrir það uppfylli það ekki staðla efnaðri ríkja heims. Áhrif Covid-19 heimsfaraldursins hafi lagst þungt á heilbrigðiskerfi ríkisins en meðal helstu vandamála hafi verið skortur á gjörgæslurúmum, öndunarvélum, hlífðargöllum og lyfjum. Alsír hafi verið fyrsta ríkið í Afríku sem fengið hafi afhent bóluefni frá Rússlandi.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir á því að hann eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til veikinda hans og viðkvæmrar stöðu.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda eða annarra aðila í Alsír sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Jafnframt hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í Alsír geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Líkt og fram kemur komið byggir kærandi á því að hann eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vegna veikinda hans og viðkvæmrar stöðu.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann væri greindur með flogaveiki og að árið 2016 hafi hann jafnframt greinst með heilaæxli. Þá kvaðst kærandi glíma við skerta sjón á öðru auga og vandamál í öxl sem sé ein afleiðing flogakasta sem hann fái. Við meðferð málsins lagði kærandi fram heilsufarsgögn frá Þýskalandi þar sem fram kemur m.a. að kærandi hafi byrjað að upplifa einkenni flogaveiki á áttunda aldursári. Þá greindi kærandi jafnframt frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 31. ágúst 2016, að hann hafi verið flogaveikur frá átta ára aldri en hann hafi aðeins komist að því sex mánuðum fyrr að hann væri flogaveikur. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 26. apríl 2021, kvaðst kærandi þó fyrst hafa fengið flog í Danmörku árið 2016. Í tölvubréfi, dags. 26. ágúst 2021, óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum um veikindi kæranda. Í svari sem kærunefnd barst, dags. 31. ágúst 2021, kom fram að kærandi hafi byrjað að fá nánar óútskýrð köst á áttunda aldursári sem hafi lýst sér á þann hátt að hann hafi misst máttinn og t.a.m. misst hluti sem hann hafi haldið á. Kærandi hafi fengið þessi köst á tveggja til þriggja mánaða fresti. Árið 2016 hafi umrædd köst tekið breytingum á þann veg að hann hafi misst meðvitund í fyrsta skipti. Í framhaldi af því hafi hann verið greindur með flogaveiki og fyrri köst frá barnsaldri tengd við flogaveikina. Kærandi hafi ekki fengið greiningu á umræddum köstum fyrr en þá. Þá kom fram í svari kæranda að Heilsugæslan hafi sent inn beiðni um rannsókn til taugalækningadeildar Landspítalans en álagið á deildinni sé mikið og biðlistinn langur.

Meðal framlagðra gagna eru niðurstöður úr myndgreiningum á Landspítala, dags. 1. nóvember 2019 og 9. apríl 2021, þar sem fram kemur m.a. að kærandi sé með eðlileg heilahólf og að engin merki séu um blæðingu, drep eða stíflu. Þá hafi ekki greinst brot eða fyrirferð. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að kærandi sé með heilaæxli. Niðurstöður úr myndgreiningum bera þó með sér að kærandi glími við vandamál í axlarlið og hafi margoft farið úr axlarlið. Að sögn kæranda sé orsökin sú að hann detti yfirleitt á hægri öxl þegar hann fái flogaköst. Samkvæmt göngudeildarnótum frá Landspítala, dags. 9. apríl 2021, virðist sem kærandi sé þó með eðlilega hreyfigetu í öxlinni.

Í tölvubréfi sem kærunefnd barst frá kæranda, dags. 2. september 2021, kemur m.a. fram að kærandi taki nú inn tvær tegundir lyfja við flogaveiki og hafi síðast fengið flog hinn 9. apríl 2021. Kærandi kvað þó lækna á Heilsugæslu hafa óskað eftir því að sérfræðingur á Landspítala stilli lyf kæranda. Því til stuðnings vísar kærandi til tilvísunarbréfa frá Heilsugæslu Efra-Breiðholti til taugalækningadeildar Landsspítalans Fossvogi, dags. 6. maí og 26. júlí 2021, þar sem m.a. kemur fram að kærandi hafi fengið krampaflog á þeim lyfjum sem hann hafi verið á í Þýskalandi og að meta þurfi það með tilliti til lyfjameðferðar og hugsanlegrar frekari meðferðar. Þá kemur fram í heilsufarsgögnum, dags. 2. nóvember 2019, að kærandi hafi ekki tekið lyfin sín við flogaveikinni í samræmi við ráðleggingar lækna og að það sé líkleg skýring á flogunum.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Það að kærandi sæki læknismeðferð hér á landi leiðir ekki sjálfkrafa til þess að hann teljist hafa ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilbrigðisástæðna. Ljóst er af fyrirliggjandi heilsufarsgögnum að kærandi glímir við flogaveiki. Ráða má af gögnunum að kæranda hafi verið ávísað tilteknum lyfjum við flogaveikinni sem hafi dregið talsvert úr einkennum, en líkt og áður greinir fékk kærandi síðast flog í apríl 2021. Fram kemur í gögnum frá Landspítala að kærandi hafi ekki ávallt tekið lyfin samkvæmt læknisráði og sé það mat lækna að það sé líkleg skýring á flogaköstum sem hann fái af og til. Greindi kærandi annars vegar frá því að hann hafi ekki efni á lyfi sem hann þurfi nauðsynlega á að halda og hins vegar hafi hann sleppt því að taka lyfin í eitt skipti þar sem Ramadan hátíðin hafi staðið yfir og hann verið að fasta í tilefni hennar. Í ljósi frásagnar kæranda um að hann hafi ekki efni á nauðsynlegum lyfjum bendir kærunefnd á að samkvæmt 26. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og þeim lyfjum sem þeim eru nauðsynleg samkvæmt læknisráði, en Útlendingastofnun stendur straum af slíkum kostnaði geti umsækjandi ekki staðið undir honum sjálfur.

Í ljósi þess sem fram hefur komið horfir kærunefnd til þess að líðan kæranda hafi tekið framförum að undanförnu vegna þeirrar heilbrigðisþjónustu sem honum hefur staðið til boða hér á landi. Kærandi hefur lagt fram gögn frá Landspítala, sem og frá læknum í Þýskalandi, þar sem fram kemur hvaða lyf hann skuli taka. Í dag tekur hann tvö lyf sem jafnframt voru ávísuð honum í Þýskalandi. Að mati kærunefndar liggur því nægilega skýrt fyrir hver veikindi kæranda eru og hvaða meðferð kærandi þarf á að halda að mati lækna. Af framangreindi umfjöllun um heilbrigðisþjónustu í heimaríki kæranda er ljóst að hún standi öllum ríkisborgurum til boða án endurgjalds og þá séu lyf niðurgreidd af ríkinu. Þá benda framangreindar heimildir til þess að aðgengi að lyfjum sé almennt gott og ekki sé ástæða til að ætla annað en að kærandi geti nálgast þau lyf sem hann þarf á að halda þar í landi. Með vísan til framangreinds verður sú meðferð sem kærandi þarfnast hvorki talin vera svo sérhæfð að hann geti einungis hlotið hana hérlendis né að honum standi hún ekki til boða í heimaríki. Þá kemur fram í ofangreindum athugasemdum með lagafrumvarpinu að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Verður því að mati kærunefndar ekki talið að heilsufar kæranda sé slíkt að rétt sé að veita honum dvalarleyfi hér á landi af þeim ástæðum.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu John Hopkins University um Covid-19 er núverandi bylgja í Alsír á niðurleið en hún náði hámarki í lok júlí þar sem tæplega tvö þúsund manns greindust á einum degi. Í dag er meðaltal greindra smita rúmlega 233 tilvik á dag. Með vísan til þess og vaxandi fjölda bólusettra einstaklinga í Alsír telur kærunefnd aðstæður ekki vera þess eðlis að þær leiði til þess, einar og sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerði í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Kærunefnd hefur að framan tekið afstöðu til þeirra að því leyti sem þær kunna að hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Að því er varðar vísun kæranda til úrskurða kærunefndar í málum nr. 316/2017 og 432/2020 sem hann telur sambærileg sínu máli þá er það mat kærunefnd að málsatvik og aðstæður aðila þessa mála séu ekki sambærileg þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda. Í fyrrnefndu máli var um ræða fylgdarlaust barn sem glímdi við andleg veikindi og var það mat kærunefndar að fyrirliggjandi gögn hefðu átt að kalla á frekari gagnaöflun af hálfu Útlendingastofnunar í ljósi þess að um fylgdarlaust barn hafi verið að ræða. Í síðarnefndu máli glímdi kærandi við hvítblæði og var í meðferð hér á landi. Þar horfði kærunefnd m.a. til þess að um lífshættulegan sjúkdóm væri að ræða og meðferð við honum, sem og framboð á þeim lyfjum sem kærandi þurfti nauðsynlega á að halda, væri ótryggt í heimaríki hennar.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 31. mars 2021 og sótti um alþjóðlega vernd 9. apríl 2021. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er greindur með flogaveiki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Komi til þvingaðs flutnings beinir kærunefnd þeim tilmælum til þess stjórnvalds sem annast flutning kæranda til heimaríkis að tryggt verði að kærandi fái nægilegt magn nauðsynlegra lyfja við brottför.

 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.

Athygli er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta