Hoppa yfir valmynd
30. október 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fréttatilkynning frá félagsmálaráðuneytinu um skýrslu kostnaðarnefndar vegna tilflutnings þjónustu við fatlaða til sveitarfélaga

Kostnaðarnefnd

Með frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem lagt var fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000 og verður endurflutt á yfirstandandi þingi er gert ráð fyrir því að ábyrgð á þjónustu við fatlaða verði færð frá ríki til sveitarfélaga frá og með 1. janúar 2002. Í tengslum við gerð frumvarpsins skipaði félagsmálaráðherra nefnd til að meta fjárhagsleg áhrif yfirtöku sveitarfélaga á þjónustu við fatlaða og gera tillögu um hvernig sveitarfélögum verði bætt þau útgjöld. Í nefndinni áttu sæti Hallgrímur Guðmundsson stjórnsýslufræðingur, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Karl Björnsson, bæjarstjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Sturlaugur Tómasson, deildarstjóri, félagsmálaráðuneyti, formaður Með nefndinni störfuðu einnig Björn Arnar Magnússon og Hermann Sæmundsson, deildarstjórar, félagsmálaráðuneyti, og Sigurður Helgason, stjórnsýsluráðgjafi.

Nefndin hefur lokið störfum og skilað skýrslu sinni til félagsmálaráðherra. Nefndarmenn voru sammála um niðurstöður nefndarinnar. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga tók þó fram að hinu nýja frumvarpi fylgja óhjákvæmilega óvissuþættir sem ekki er unnt að leggja beint fjárhagslegt mat á.

Forsendur kostnaðarmats

Kostnaðarmat nefndarinnar byggir fyrst og fremst á því að reikna kostnað á grundvelli þarfar fatlaðra fyrir þjónustu, óháð því hvers konar þjónustu þeir fá í dag. Þannig er að fullu tekið tillit til kostnaðar við að veita þeim einstaklingum sem nú eru á biðlistum þjónustu í samræmi við þarfir þeirra. Reikna má með að um 0,5% af íbúum landsins þurfi á sérhæfðri þjónustu, að halda vegna fötlunar t.d. búsetu á sambýli, frekari liðveislu til sjálfstæðrar búsetu, skammtímavistun eða dagþjónustu.

Mat á kostnaði

Það er mat nefndarinnar að árlegur kostnaður vegna þjónustu við fatlaða og húsnæðismála verði tæpir 4,1 milljarðar kr. Þetta er hækkun um 565 m.kr. frá núverandi fjárveitingum til málaflokksins. Auk þess eru önnur kostnaðaráhrif frumvarps til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, m.a. vegna þjónustu við langveik börn metin á tæpar 300 m.kr. Samtals áætlar nefndin því að útgjöld sveitarfélaga muni aukast um tæplega 4,4 milljarða króna vegna þessara verkefna. Fjárhæðin svarar til 1,16% af áætluðum álagningarstofni útsvars á árinu 2000.

Skipting fjármuna milli sveitarfélaga

Þó mat á heildarkostnaði feli í sér nokkra óvissu, er skipting fjármuna milli sveitarfélaga mun vandasamara viðfangsefni. Útgjaldaþörf sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða er mjög ólík, m.a. vegna þess að skipting þeirra milli sveitarfélaga getur verið tilviljunum háð. Búseta fatlaðra endurspeglar núverandi þjónustumynstur og smæð sveitarfélaga veldur því að hætt er við sveiflum í útgjöldum einstakra smærri sveitarfélaga.

Nefndin telur að best sé að skipta fjármunum milli sveitarfélaga með sem almennustum hætti, t.d. með því að hækka útsvarshlutfall sveitarfélaga. Ójöfn dreifing fatlaðra milli sveitarfélaga hefur hins vegar þau áhrif að útgjaldaþörf þeirra er mjög mismunandi og því er svigrúm til almennrar tekjutilfærslu með auknum hlut sveitarfélaga í staðgreiðslunni takmarkað. Með almennri tekjutilfærslu er að hámarki unnt að skila til sveitarfélaga um 20% fjárhæðarinnar en a.m.k 80% hennar þarf að renna í jöfnunarsjóð svo unnt verði að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaganna. Um tilfærslu tekna til sveitarfélaga leggur nefndin til að þrjár leiðir verði einkum skoðaðar:

1. Sjóður og útsvarssvigrúm.
Þessi leið gerir ráð fyrir því að rúmir 3,4 milljarðar kr. renni í jöfnunarsjóð. Auk þess fái sveitarfélög svigrúm til að hækka útsvarshlutfall sitt um allt að 0,26%. Fjármunum úr sjóðnum verði skipt milli sveitarfélaga á grundvelli fjölda mikið og miðlungs fatlaðra einstaklinga.

2. Tvískiptur sjóður.
Þessi leið felst í því að allir fjármunir renni í jöfnunarsjóð. Sveitarfélög með 2.000 íbúa eða fleiri fái greitt beint sem svarar 0,26% útsvarshlutfalli og einnig greiðslur á grundvelli fjölda mikið og miðlungs fatlaðra einstaklinga. Sveitarfélög með færri en 2.000 íbúa fái greitt úr sjóðnum á grundvelli fjölda og þjónustuþarfar allra fatlaðra.

3. Sjóður.
Þessi leið felst í því að allir fjármunir renni í jöfnunarsjóð. Öll sveitarfélög fái greitt úr sjóðnum á grundvelli fjölda og þjónustuþarfar allra fatlaðra.

Ofangreindar leiðir hafa allar ákveðna kosti og galla sem nefndin gerir nánari grein fyrir í skýrslu sinni.

Tilhögun húsnæðismála

Nefndin leggur til að stofnað verði hlutafélag til að eiga og reka fasteignir í málaflokknum. Sveitarfélög greiði fulla leigu vegna húsnæðis enda tekur kostnaðarmat tillit til slíkra leigugreiðslna. Með stofnun slíks fasteignafélags er stefnt að hagkvæmni og sveigjanleika í byggingu og rekstri fasteigna. Nefndin leggur áherslu á að fötluðum verði sjálfum gert kleift að greiða húsnæðiskostnað vegna íbúðarhúsnæðis í þeim mæli sem unnt er. Þannig verði réttur þeirra til húsaleigubóta rýmkaður frá því sem nú er og fötluðum í sjálfstæðri búsetu verði áfram tryggður sá hlutfallslegi stuðningur sem þeir fá nú í formi niðurgreiðslu á vaxtakostnaði leiguhúsnæðis.

Aðrar tillögur og ábendingar

Nefndin leggur til að sjóður í eigu sveitarfélaga greiði fyrir þjónustu endurhæfingardeildar Landspítala Kópavogi og sjálfseignarstofnana samkvæmt þjónustusamningi, enda hefur verið tekið tillit til þess kostnaðar við kostnaðarmat. Sveitarfélögin hafi þannig sjálf svigrúm til að efla aðra þjónustu eftir því sem íbúum á vistheimilum fækkar. Gert er ráð fyrir því að biðlistar eftir þjónustu verði úr sögunni á þremur árum eftir tilfærslu þjónustunnar til sveitarfélaga.

Meðal annarra tillagana nefndarinnar má nefna tillögu um að þjónustuþörf fatlaðra verði metin af óháðum aðila þannig að fjárframlög til sveitarfélaga geti verið á grundvelli þarfar fatlaðra fyrir þjónustu. Þá bendir nefndin á að í ljósi þeirrar auknu jöfnunarþarfar sem skapast í kjölfar tilfærslu þjónustu við fatlaða verði hugað að heildarendurskoðun á jöfnunaraðgerðum milli sveitarfélaga. Bent er á mikilvægi þess að stuðlað verði að því að smærri sveitarfélög taki sig saman um þjónustu við fatlaða, t.d. með byggðasamlögum. Að lokum má nefna að nefndin gerði sérstaka athugun á möguleikum á að teknar verði upp þjónustuávísanir í málaflokknum og telur rétt að áfram verði hugað að kostum þess.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta