Ósýnilegar konur í Afganistan segja frá
„Eftir ágúst“ er yfirskrift á vefsvæði UN Women í þeim tilgangi að skrásetja og deila reynslu og lífi kvenna og stúlkna í Afagnistan með heiminum. Titillinn undirstrikar þann breytta veruleika sem blasir við konum eftir valdatöku talíbana í landinu 15.ágúst 2021. Vefsvæðið er andsvar við tilraunum talíbana að gera afganskar konur ósýnilegar og byggist á því „sjónarmiði að þegar óréttlæti er orðið að daglegu brauði er þögnin óafsakanleg,“ eins og segir á vef UN Women.
Þar segir enn fremur: „Tvö ár eru frá því að talíbanar tóku völd í Afganistan í annað sinn. Síðan þá hefur veruleiki kvenna og stúlkna í ríkinu umturnast og búa þær við kúgun, áreiti og ofbeldi. Konur og stúlkur í Afganistan hafa misst öll helstu grundvallarmannréttindi sín, þær mega ekki stunda nám, hafa verið hraktar af vinnumarkaðnum og ferða- og tjáningarfrelsi þeirra hefur verið skert verulega. Öll sú vinna sem hefur verið unnin í átt að jafnrétti kynjanna þar síðastliðna áratugi er orðin að engu og misréttið hefur áhrif á allt þeirra líf.“
UN Women segir að þrátt fyrir mótlætið mæti afganskar konur og stúlkur ógnarstjórn og kúgunaraðferðum talíbana með óttalausri seiglu og baráttuhug og að þær haldi áfram að mótmæla, veita viðnám og tjá sig.