Hoppa yfir valmynd
13. október 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 234/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 234/2016

Fimmtudaginn 13. október 2016

A

gegn

Dalvíkurbyggð

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 22. júní 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Dalvíkurbyggðar, dags. 18. apríl 2016, um synjun á umsókn hennar um námsstyrk.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Dalvíkurbyggð með hléum frá maí 2014. Á tímabilinu september 2015 til febrúar 2016 fékk kærandi greiddan námsstyrk á grundvelli 22. gr. reglna um fjárhagsaðstoð á vegum Dalvíkurbyggðar. Með bréfi sveitarfélagsins, dags. 18. apríl 2016, var kæranda synjað um áframhaldandi námsstyrk á þeirri forsendu að hún hafi ekki staðið við fyrirliggjandi samkomulag um skólasókn.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. júní 2016. Með bréfi, dags. 27. júní 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð sveitarfélagsins þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð barst með bréfi, dags. 1. júlí 2016, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. júlí 2016, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá aðstæðum sínum. Kærandi tekur fram að hún geti ekki stundað vinnu vegna veikinda og Dalvíkurbyggð hafi ætlað að aðstoða hana á meðan hún væri í námi. Kærandi hafi þurft að skila inn mætingarlista en í mars 2016 hafi sveitarfélagið ákveðið að hún fengi ekki frekari aðstoð vegna slæmrar skólasóknar. Kærandi bendir á að hún geti ekki mætt alla daga í skólann vegna sjúkdóms og skólinn hafi tekið tillit til þess. Þá gerir kærandi athugasemd við vinnubrögð sveitarfélagsins.

III. Sjónarmið Dalvíkurbyggðar

Í greinargerð Dalvíkurbyggðar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að félagsmálaráð hafi samþykkt að veita kæranda fjárhagsaðstoð vegna náms í nóvember og desember 2015 gegn því að hún myndi sýna fram á viðunandi skólasókn með umsögn frá skólanum. Í janúar 2016 hafi kærandi átt að mæta í viðtal hjá félagsþjónustu sveitarfélagsins til að fara yfir stöðu mála en móðir hennar hafi mætt fyrir hana. Í viðtalinu hafi verið rætt um slæma skólasókn kæranda í nóvember og desember 2015 en móðir hennar hafi tekið fram að það væri vegna sjúkdóms sem kærandi væri með. Einnig hafi verið rætt um mikilvægi þess að kærandi kæmi sér upp rútínu, myndi horfa á skólagönguna sem vinnu og stunda skólann betur en hún hafi gert. Það væri ekki ásættanlegt að mæta minna en meira. Niðurstaða þessa fundar hafi verið sú að leggja fyrir félagsmálaráð umsókn um áframhaldandi greiðslur til kæranda vegna skólasóknar og mikil áhersla hafi verið lögð á að hún myndi mæta meira í skólann. Að öðrum kosti yrði mál hennar ekki lagt aftur fyrir félagsmálaráð.

Sveitarfélagið tekur fram að félagsmálaráð hafi samþykkt að veita kæranda fjárhagsaðstoð fram í maí 2016 ef hún myndi mæta í skólann og sinna þeirri viðveru eins og um vinnu væri að ræða. Þá bar kæranda að skila inn mætingarlista fyrir hvern mánuð. Í janúar og febrúar 2016 hafi kærandi ekki mætt vel í skólann og í mars hafi hún verið meira fjarverandi en í skólanum. Vegna þessa hafi kærandi ekki fengið greidda fjárhagsaðstoð fyrir marsmánuð. Í apríl 2016 hafi kærandi sótt aftur um fjárhagsaðstoð en fengið synjun á sömu forsendum og áður, þ.e. að hún hafi hvorki verið að stunda námið né nýta þær lausnir sem félagsþjónustan hafi boðið fjölskyldunni. Í maí 2016 hafi kærandi sent inn umsókn um fjárhagsaðstoð ásamt mætingarlista, einkunum úr skólanum og vottorði frá heilsugæslulækni á Dalvík. Í vottorðinu komi fram að kærandi hafi verið greind með vefjagigt á árinu 2015 en hvorki sé tekið fram að hún sé óvinnufær né geti ekki sinnt námi. Kærandi hafi því ekki fengið greidda fjárhagsaðstoð þann mánuð. Í júní 2016 hafi kærandi hins vegar fengið greidda fjárhagsaðstoð þar sem hún hafi skilað inn vottorði um að hún væri að bíða eftir viðtali og aðstoð frá VIRK starfsendurhæfingu en hún hafi hvorki fengið greiddar atvinnuleysisbætur á meðan né getað unnið hlutastarf vegna veikinda.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Dalvíkurbyggð hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um námsstyrk.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 22. gr. reglna um fjárhagsaðstoð á vegum Dalvíkurbyggðar kemur meðal annars fram að heimilt sé að veita námsstyrki til einstæðra foreldra á aldrinum 18 til 24 ára sem hafi ekki lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafi haft atvinnutekjur undir grunnfjárhæð undanfarna 12 mánuði. Starfsmaður skuli meta námsframvindu í hverju tilviki miðað við aðstæður hvers og eins og nemandi skuli leggja fram yfirlit yfir skólasókn mánaðarlega og einkunnir í annarlok. Miðað skuli við að námið leiði til starfsréttinda eða þess að nemandi geti síðar hafið nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þá kemur fram að ákvarðanir um námskostnað skuli teknar fyrir hverja önn og sé heimilt að halda námsaðstoð áfram með hliðsjón af námsframvindu.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddan námsstyrk vegna framhaldsskólagöngu frá nóvember 2015 til og með febrúar 2016. Áframhaldandi námsaðstoð við kæranda var synjað á þeirri forsendu að hún hafi ekki staðið við fyrirliggjandi samkomulag um skólasókn. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi ekki getað mætt í skólann alla daga vegna síns sjúkdóms og skólinn hafi tekið tillit til þess. Sveitarfélagið hefur vísað til þess að kærandi hafi skilað læknisvottorði en þar komi hvorki fram að hún sé óvinnufær né ófær um að sinna námi.

Líkt og áður greinir kemur fram í 22. gr. reglna Dalvíkurbyggðar um fjárhagsaðstoð að starfsmaður skuli meta námsframvindu í hverju tilviki miðað við aðstæður hvers og eins. Tekið er fram að nemandi skuli leggja fram yfirlit yfir skólasókn mánaðarlega, en í reglunum er ekki að finna ákvæði um áhrif þess ef skólasókn er ekki fullnægjandi að mati sveitarfélagsins. Þar er eingöngu tekið fram að ákvarðanir um áframhald á greiðslum skuli teknar með hliðsjón af námsframvindu. Af gögnum málsins má ráða að sveitarfélagið hafi eingöngu lagt mat á skólasókn kæranda en ekki námsframvindu eins og gert er ráð fyrir í reglum sveitarfélagsins. Þá hafi sveitarfélagið ekki tekið tillit til veikinda kæranda og aðstæðna en eðli málsins samkvæmt geta veikindi haft áhrif á mætingu í skóla.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð að sveitarfélagið hafi lagt mat á hvort veikindi kæranda væru þess eðlis að hún gæti ekki mætt alla daga í skólann. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið upplýst nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðun um synjun var tekin. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Dalvíkurbyggðar, dags. 18. apríl 2016, um synjun á umsókn A, um námsstyrk er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta