Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2012 Forsætisráðuneytið

A-425/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 18. júní 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-425/2012.

Kæruefni og málsatvik

Þann 12. apríl 2012 kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál afgreiðslu innanríkisráðuneytisins á beiðni hans, dags. 29. mars, um leiðbeinandi yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga flokkuð eftir því hvort verkefni eru skyldubundin eða ekki. Þeirri beiðni hefur ekki verið svarað.

Málsmeðferð

Kæran var send innanríkisráðuneytinu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. apríl 2012, þar sem vakin var athygli á því að skv. 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 beri stjórnvaldi að taka svo fljótt sem verða megi ákvörðun um hvort verða eigi við beiðni um aðgang að gögnum. Ennfremur skuli skýra þeim, sem fer fram á aðgang að gögnum, frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta, hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar. Þá beri að tilkynna skriflega synjun beiðni, sbr. 13. gr. s.l.
Í bréfinu var því beint til innanríkisráðuneytisins að taka ákvörðun um afgreiðslu á beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið, hefði það ekki þegar verið gert, eða ekki síðar en 25. apríl. Innan sama tímafrests skyldi birta ákvörðunina kæranda og nefndinni. Kom fram að kysi innanríkisráðuneytið að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum, skyldi nefndinni látin í té afrit þeirra innan sama frests. Þá kom fram að kæmi til synjunar yrði ráðuneytinu gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni innan sömu tímamarka, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Þann 30. apríl barst úrskurðarnefndinni afrit bréfs innanríkisráðuneytisins til kæranda, dags. sama dag. Í bréfinu segir að sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 hafi tekið gildi 1. janúar 2012. Samkvæmt 7. gr. sveitarstjórnarlaga sé sveitarstjórnum skylt að annast þau verkefni sem þeim séu falin í lögum. Þá segi í ákvæðinu að ráðuneytið gefi árlega út leiðbeinandi yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarstjórna, flokkuð eftir því hvort verkefnin séu skyldubundin eða ekki.

Segir svo orðrétt í bréfinu:

„Því er til að svara að ráðuneytið hefur ekki gefið út nefnt leiðbeinandi yfirlit samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Bent skal á að í athugasemdum um ákvæði 7. gr. sem fylgdu frumvarpi því sem varð að gildandi sveitarstjórnarlögum segir m.a. að þetta sé nýmæli sem lagt var til að lögfest væri. Skyldur sveitarfélaga ráðist af þeim lögum sem sett hafi verið um verkefni þeirra, en ekki af yfirliti samkvæmt ákvæði þessu. Yfirliti samkvæmt ákvæðinu sé ekki ætlað að hafa gildi sem sjálfstæð réttarheimild.

Ráðuneytið mun hins vegar vinna slíkt yfirlit við fyrsta hentugleika og auglýsa það með viðeigandi hætti.“

Þann 2. maí barst úrskurðarnefndinni bréf kæranda, dags. 30. apríl, þar sem nefndinni er tilkynnt að honum hafi ekki borist svar frá innanríkisráðuneytinu í samræmi við bréf úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. apríl.

Með bréfi, dags. 7. maí, var kæranda sent afrit umsagnar innanríkisráðuneytisins. Í bréfi úrskurðarnefndarinnar sagði að teldi kærandi afgreiðslu ráðuneytisins fullnægjandi miðað við beiðni hans væri þess óskað að nefndin yrði upplýst um það eigi síðar en mánudaginn 14. maí. Þá sagði að vildi kærandi koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar eða umsagnarinnar væri þess vinsamlegast óskað að þær bærust nefndinni  innan sama frests.

Með bréfi, dags. 9. maí, bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir kæranda. Í bréfinu segir að vakin sé athygli á því að svar ráðuneytisins sé ófullnægjandi. Sveitarstjórnarlög hafi tekið gildi fyrir einhverjum mánuðum, en ráðuneytið sé ekki byrjað að vinna eftir lögunum. Segir svo að kærandi geri þá kröfu að fá afhent sundurliðað þau verkefni sem sveitarfélögum eru falin að lögum. Þá er óskað eftir því að erindið verði framsent sé þess talin þörf.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.


Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu innanríkisráðuneytisins á beiðni kæranda um afhendingu sundurliðunar yfir þau verkefni sem sveitarfélögum eru falin að lögum. Með bréfi, dags. 30. apríl, kom fram af hálfu hins kærða ráðuneytis að það hefði ekki gefið út umbeðið yfirlit.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, segir svo:  „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“
Skýring úrskurðarnefndarinnar á þessu ákvæði er sú að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggi þegar um þau er beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki eru fyrirliggjandi þegar eftir þeim er leitað.
Á þeim tíma sem beiðni kæranda kom fram um leiðbeinandi yfirlit um lögmælt verkefni stjórnvalda, sbr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, hafði innanríkisráðuneytið ekki enn gefið yfirlitið út.
Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að kæra synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum, þ.e. fyrirliggjandi gögnum, undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Sama gildir um synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Þau gögn sem kærandi hefur óskað eftir liggja ekki fyrir hjá innanríkisráðuneytinu. Með vísan til þess ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Tekið er fram að í þessu felst ekki afstaða úrskurðarnefndarinnar til þess hvort ráðuneytið ætti þegar að hafa útbúið umrætt yfirlit samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.


Úrskurðarorð

Kæru [A] á hendur innanríkisráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

 

                         Sigurveig Jónsdóttir                                             Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta