Hoppa yfir valmynd
28. júní 2012 Forsætisráðuneytið

A-432/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

 ÚRSKURÐUR

Hinn 28. júní 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-432/2012.

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 8. júlí 2011, kærði [A], drátt á svörum frá Landlækni vegna erindis til embættisins þann 30. júní sama ár, þar sem farið var fram á aðgang að kaupsamningum og öllum tengdum gögnum yfir veirulyfin Tamiflu og Relenza frá árinu 2006 til þess dags er beiðnin var sett fram. Kæruna setti [A] fram á ný með bréfi, dags. 19. september 2011.

Málsmeðferð

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 2. nóvember 2011, var Landlækni sent yfirlit yfir allmargar kærur sem borist höfðu frá kæranda, og tengdust m.a. beiðnum um aðgang að kaupsamningum og tengdum gögnum um bóluefni. Þar á meðal var tilgreind ofangreind kæra frá 8. júlí 2011.

Í bréfinu var því beint til Landlæknis að hefðu einhverjar af beiðnum kæranda um aðgang að gögnum ekki verið afgreiddar yrði það gert svo fljótt sem auðið væri í samræmi við ákvæði 11. gr. upplýsinglaga. Óskað var eftir því að ákvarðanir embættisins af því tilefni yrðu birtar úrskurðarnefndinni og kæranda eigi síðar en kl. 16.00 þann 11. nóvember. Kysi Landlæknir að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin í té afrit þeirra, auk þess sem embættinu var þá gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæru málsins og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sömu tímamarka. Kæranda var sent afrit þessa bréfs.

Þann 7. desember 2011 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál svar Landlæknis við ofangreindu bréfi. Þar kemur fram að ástæðan fyrir því að umræddu erindi kæranda hafi ekki verið svarað fyrr hafi verið að erindið hafi ekki komið inn á borð sóttvarnarlæknis. Er nefnd sú skýring að ástæða þess kunni að vera sú að erindið hafi misfarist innan landlæknisembættisins vegna sumarleyfis starfsmanna. Síðan segir svo í bréfinu um umrædda beiðni:

„[A] hefur verið sent bréf dags. 8.12.2011 þar sem beðist er afsökunar á því [töfum á  svörum]. Í sama bréfi synjar sóttvarnarlæknir erindi [A] á þeim forsendum að þessi kaup snertu öryggisbirgðahald íslenska ríkisins.“

Bréfi Landlæknis fylgdi jafnframt afrit af ákvörðun Landlæknis í tilefni af umræddri beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Í ákvörðun Landlæknis segir m.a. svo:

„Kaup á umræddum lyfjum var hluti af opinberu öryggisbirgðahaldi sem tengjast sóttvörnum. Með vísan til þessa er beiðni yðar hafnað.“

Bréfi Landlæknis fylgdi einnig afrit af gögnum málsins, þ.e. samningar um kaup og um birgðahald vegna lyfjanna Tamiflu annars vegar og Relenza hins vegar. Einnig fylgdu nánari upplýsingar um umrædd lyf og samningar um geymslu lyfjanna hér á landi.

Með bréfi, dags. 12. desember, voru kæranda kynntar skýringar landlæknis. Athugasemdir hans af því tilefni bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 19. sama mánaðar.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Tekið skal fram að sóttvarnarlæknir starfar á vegum landlæknisembættisins, sbr. 4. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997. Í úrskurði þessum er því vísað til landlæknis eða landlæknisembættisins þótt þau erindi og bréf sem lýst er kunni að vera undirrituð af sóttvarnarlækni.

Niðurstaða

Landlæknir hefur byggt synjun á aðgangi að þeim gögnum sem kæra málsins beinist að á því að þau geymi upplýsingar um öryggisbirgðahald sem tengist sóttvörnum.

Í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er mælt fyrir um það að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Af gagnályktun frá þessu ákvæði leiðir hins vegar að sérstök þagnarskylduákvæði í lögum geta, ein og sér, komið í veg fyrir að veittur verði aðgangur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga.

Um sóttvarnir gilda lög nr. 19/1997, auk annarra almennra og sérstakra laga um heilbrigðisþjónustu hér á landi. Í sóttvarnarlögum er ekki að finna sérstök ákvæði um trúnað um þær opinberu ráðstafanir sem sóttvarnarlæknir eða önnur stjórnvöld ráðast í til að bregðast við mögulegum eða yfirstandandi smitsjúkdómum. Af hálfu landlæknis hefur ekki verið vísað til slíkra lagaákvæða undir meðferð málsins eða í svörum embættisins til kæranda. Með vísan til þessa fer um aðgang að umræddum upplýsingum eftir ákvæðum upplýsingalaga.

Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr.

Samkvæmt ákvæði 6. gr. upplýsingalaga er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um:

„1. öryggi ríkisins eða varnarmál;
2. samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir;
3. viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra;
4. fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum ríkis eða sveitarfélaga ef þau yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði,
5. umhverfismál, enda geti birting þeirra haft alvarleg áhrif á vernd þess hluta umhverfisins sem slíkar upplýsingar varða, t.d. heimkynni fágætra tegunda lífvera, steinda, steingervinga og bergmyndana.“

Samkvæmt beinu orðalagi sínu verður ákvæðum 2., 3. eða 5. töluliðar ekki beitt til takmörkunar á aðgangi að þeim gögnum sem mál þetta lýtur að. Þá liggja ekki fyrir í gögnum málsins eða skýringum Landlæknis vísbendingar um þá afstöðu stjórnvalda að yrðu upplýsingar um umrædd lyfjakaup eða upplýsingar um birgðahald á umræddum lyfjum gerðar opinberar myndi það leiða til þess að þær varnir gegn smitsjúkdómum sem kaupin eru byggð á yrðu þar af leiðandi þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri samkvæmt 4. tölul. 6. gr. Úrskurðarnefndin telur að skilja verði afstöðu Landlæknis svo að hann telji að það varði almannahagsmuni að upplýsingar um birgðastöðu umræddra lyfja hér á landi séu ekki á almannavitorði, m.a. vegna öryggis þeirra lyfjabirgða sem um ræðir. Af þessu leiðir að við mat á réttmæti synjunar Landlæknis á afhendingu umbeðinna gagna ber að líta til ákvæðis 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaganna.

Í skýringum við ákvæði 1. tölul. 6. gr. í frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum segir m.a. svo: „Með upplýsingum um öryggi ríkisins er eingöngu vísað til hinna veigamestu hagsmuna sem tengjast því hlutverki ríkisvaldsins að tryggja öryggi ríkisins inn á við og út á við. Upplýsingar um skipulag löggæslu, landhelgisgæslu, almannavarna og útlendingaeftirlits geta fallið hér undir. Í þessu sambandi skal og áréttað að samkvæmt niðurlagi 1. mgr. 2. gr. er gert ráð fyrir því að lögin gildi ekki um rannsókn eða saksókn í opinberu máli. Við túlkun á ákvæðinu verður að hafa í huga að því er ætlað að vernda mjög þýðingarmikla hagsmuni. Ef upplýsingar, þeim tengdar, berast út getur það haft afdrifaríkar afleiðingar. Þess vegna verður að skýra ákvæðið tiltölulega rúmt.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ljóst að það varði öryggi ríkisins inn á við miklu að hér séu til staðar úrræði til að bregðast við alvarlegum smitsjúkdómum eða öðrum sambærilegum aðstæðum. Það varðar öryggi ríkisins í þessum skilningi einnig miklu að stjórnvöld geti tryggt öryggi þeirra lyfja og lyfjabirgða sem aflað er í þessu skyni. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að staðfesta beri synjun Landlæknis á því að afhenda upplýsingar um umbeðin gögn, með vísan til 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 
Úrskurðarorð

Staðfest er synjun Landlæknis, dags. 8. desember 2011, á beiðni kæranda [A] um aðgang að kaupsamningum og öllum tengdum gögnum yfir veirulyfin Tamiflu og Relenza, dags. 30. júní 2011.

 

 

Trausti Fannar Valsson
Formaður

 

 

                      Sigurveig Jónsdóttir                                                      Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta