Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2012 Forsætisráðuneytið

A-433/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

ÚRSKURÐUR

Hinn 28. júní 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-433/2012.

Kæruefni og málsatvik
Með bréfi, dags. 8. júlí 2011, kærði [A] drátt á svörum frá Landlækni vegna erindis til embættisins þann 30. júní sama ár, þar sem farið var fram á aðgang að kaupsamningi og öllum tengdum gögnum yfir Cervarix-bóluefnið. Kæruna setti [A] fram á ný með bréfi, dags. 19. september 2011.

Málsmeðferð

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 2. nóvember 2011, var Landlækni sent yfirlit yfir allmargar kærur sem borist höfðu frá kæranda og tengdust m.a. beiðnum um aðgang að kaupsamningum og tengdum gögnum um bóluefni. Þar á meðal var tilgreind ofangreind kæra frá 8. júlí 2011.

Í bréfinu var því beint til Landlæknis að hefðu einhverjar af beiðnum kæranda um aðgang að gögnum ekki verið afgreiddar yrði það gert svo fljótt sem auðið væri í samræmi við ákvæði 11. gr. upplýsinglaga. Óskuðust ákvarðanir embættisins af því tilefni birtar úrskurðarnefndinni og kæranda eigi síðar en kl. 16.00 þann 11. nóvember. Kysi Landlæknir að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin í té afrit þeirra, auk þess sem embættinu var þá gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæru málsins og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sömu tímamarka. Kæranda var sent afrit þessa bréfs.

Þann 7. desember 2011 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál svar Landlæknis við ofangreindu bréfi. Þar segir m.a. svo um það kæruefni sem hér er til umfjöllunar:

„Þessu erindi [A] hefur því miður ekki verið svarað fyrr því erindið hafði ekki komið inn á borð sóttvarnarlæknir. Ástæða þess kann að vera sú að erindið hafi misfarist innan landlæknisembættisins vegna sumarleyfis starfsmanna.“

Bréfi Landlæknis fylgdi jafnframt afrit af ákvörðun Landlæknis í tilefni af umræddri beiðni kæranda um aðgang að kaupsamningi og öllum tengdum gögnum yfir Cervarix-bóluefnið. Í ákvörðun Landlæknis segir svo:

„Meðfylgjandi er afrit af rammasamningi nr. 2870 er varðar opinber kaup á Cervarix bóluefninu nema þau atriði er varða viðskiptahagsmuni. Beiðni yðar um afrit af öðrum gögnum varðandi þessi kaup er hafnað á grunni 5. gr. upplýsingalaga er kveða á um að almenningur eigi ekki rétt á aðgangi að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Að mati sóttvarnarlæknis þá geta innsend gögn lyfjafyrirtækja vegna útboðs bóluefna innihaldið slíkar viðkvæmar upplýsingar.“

Landlæknir hefur afhent úrskurðarnefndinni eftirtalin gögn sem tengjast kæruefni máls þessa: Rammasamningur um kaup á bóluefni gegn HPV sýkingum til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi nr. 2870, dags. 24. júní 2011, við fyrirtækið GlaxoSmithKleine ehf. og afrit af tilboði GlaxoSmithKleine ehf., dags. 25. maí 2011, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 15054, útboð á bóluefni gegn HPV (Human Papilloma Veiru) til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi. Landlæknir hefur á hinn bóginn ekki afhent úrskurðarnefndinni þá útboðslýsingu vegna útboðs nr. 15054 sem umrætt tilboð og samningur grundvallast á.

Með bréfi, dags. 12. desember, voru kæranda kynntar skýringar landlæknis. Athugasemdir hans af því tilefni bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 19. sama mánaðar.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Tekið skal fram að að sóttvarnarlæknir starfar á vegum landlæknisembættisins, sbr. 4. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997. Í úrskurði þessum er því vísað til landlæknis eða landlæknisembættisins þrátt fyrir að þau erindi og bréf sem lýst er kunni að vera undirrituð af sóttvarnarlækni.

Niðurstaða

1.
Kærandi hefur þegar fengið afhent afrit af rammasamningi nr. 2870, dags. 24. júní 2011, um kaup á bóluefni gegn HPV sýkingum, að því undanskildu að í því eintaki sem kærandi fékk afhent hafði verið strikað yfir upplýsingar um samningsverð. Þá liggur fyrir að kæranda hefur verið synjað um aðgang að tilboði GlaxoSmithKleine ehf., dags. 25. maí 2011, en nefndur samningur grundvallast á því tilboði. Kærandi hefur heldur ekki, samkvæmt gögnum málsins, fengið afhenta útboðslýsingu vegna útboðs nr. 15045 sem umrætt tilboð grundvallast á.

2.
Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr.

Landlæknir hefur byggt synjun á aðgangi að þeim gögnum sem kæra málsins beinist að á 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, nánar tiltekið á því að í umræddum gögnum komi fram upplýsingar sem varði mikilvæg fjárhags- eða viðskiptamálefni þess fyrirtækis sem stóð að umræddu tilboði og er aðili að umræddum rammasamningi, þ.e. GlaxoSmithKleine ehf. og eftir atvikum framleiðanda þess lyfs sem um ræðir.

Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“
Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að jafnvel þótt upplýsingar sem fram koma í gögnum málsins geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera lögin ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Ber ennfremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra: hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344).
Í máli þessu ber því að leysa úr því hvort viðskiptahagsmunir þeirra fyrirtækja sem fjallað er um í umbeðnum gögnum standi í vegi fyrir afhendingu þeirra, sbr. 5. gr. upplýsingalaga.
3.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fengið afhent afrit af umræddum rammasamningi nr. 2870, að því undanskildu að strikað hefur verið yfir einingaverð í samningnum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að umræddar upplýsingar varða með beinum hætti ráðstöfun opinberra hagsmuna. Í ljósi meginreglu upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 3. gr., geta hagsmunir almennings af því að fá aðgang að slíkum upplýsingunum rutt til hliðar viðskiptalegum hagsmunum viðsemjenda ríkisins, enda hafi ekki verið sýnt fram á að það valdi viðkomandi beinu tjóni verði upplýsingarnar gerðar opinberar. Hefur úrskurðarnefndin m.a. byggt á því í úrskurðum sínum að það sjónarmið að upplýsingar um umsamið endurgjald hins opinbera til einkaaðila fyrir veitta þjónustu eða vörur skuli fara leynt verði að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Hefur í því sambandi einnig verið litið til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum, sbr. m.a. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum A-74/1999, A-133/2001 og A-229/2006, svo dæmi séu tekin.

Í þessu ljósi telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að rammasamningur nr. 2870 hafi ekki að geyma upplýsingar af því tagi að þær falli undir undantekningarákvæði 5. gr. upplýsingalaga og því eigi kærandi  rétt á aðgangi að samningnum í heild sinni, án útstrikana.

4.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið ítarlega tilboð seljandans GlaxoSmithKleine ehf., dags. 25. maí 2011, sem liggur til grundvallar umræddum rammasamningi nr. 2870. Í efnisyfirliti er tilgreint að tilboðið innihaldi:

1) Tilboð GlaxoSmithKleine ehf. (GSK)
2) Upplýsingar um GSK
3) Nánari upplýsingar um Cervarix
a. Leiðbeiningar um notkun Cervarix
b. Samantekt á eiginleikum lyfs
c. Cervarix and HPV tendere in Iceland; clinical and pharmaceutical information
4) Upplýsingar um Distica, dreifingaraðila GSK
5) Upplýsingar um markaðsleyfi

Upplýsingar sem fram koma í köflum 1), 2) og 3) a og b teljast að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál ekki viðkvæmar né heldur að þær yrðu GlaxoSmithKleine ehf. eða framleiðendum þess lyfs sem um ræðir, eða öðrum viðkomandi lögaðilum eða fyrirtækjum til tjóns yrðu þær gerðar opinberar. Hér er aðeins um að ræða upplýsingar um tilboðið sjálft, þar á meðal tilboðsverð, upplýsingar um bjóðanda, þar á meðal staðfestingar þess að hann sé í skilum með opinber gjöld. Þá eru upplýsingar sem fram koma í lið 3) b samhljóða upplýsingum um það lyf sem um ræðir og birtar eru opinberlega í sérlyfjaskrá. Upplýsingar í kafla 4) og 5) eru almennar upplýsingar um starfsemi, gæðastefnu og opinber vottorð og leyfi dreifingaraðilans Distica. Þær upplýsingar eru ekki viðkvæmar í skilningi 5. gr. upplýsingalaga.

Hins vegar er í kafla 3c að finna upplýsingar sem teknar hafa verið saman um fyrirtækið GlaxoSmithKleine og rannsóknir á því lyfi sem boðið er samkvæmt tilboðinu. Þrátt fyrir að í þessari samantekt sé m.a. vísað til birtra rannsókna á lyfinu verður ekki fram hjá því litið að hér er um að ræða sérfræðilega umfjöllun um lyfið sem bjóðandi sjálfur hefur tekið saman og lagt í vinnu og rannsóknir. Verður ekki annað séð en að þessar upplýsingar hafi verið teknar saman í þeim tilgangi að lýsa umræddum þáttum vegna tilboðsins. Um er að ræða sérfræðilegar upplýsingar sem umfangsmikil vinna hefur verið lögð í. Verður ekki útilokað að það kunni að valda bjóðanda fjárhagslegu tjóni verði þær gerðar opinberar. Kærða, landlækni, var því heimilt að synja kæranda um aðgang að þeim á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þessar upplýsingar mynda langstærstan hluta útboðsgagnanna. Er því ekki tilefni til þess að leggja fyrir kærða, landlækni, að afhenda kæranda hluta útboðsins á grundvelli 7. gr. upplýsingalaga.

5.
Landlæknir hefur undir meðferð málsins ekki afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 15054, útboð á bóluefni gegn HPV (Human Papilloma Veiru) til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi. Ekki liggur annað fyrir en að umrætt útboð hafi verið opið útboð í þeim skilningi að allir er þess óskuðu áttu þess kost að afla sér útboðslýsingarinnar og gera tilboð á grundvelli hennar. Með vísan til þessa er það afstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Landlækni beri að afhenda kæranda útboðslýsingu í umræddu útboði Ríkiskaupa sé hún fyrirliggjandi hjá embættinu.


 
Úrskurðarorð

Landlækni ber að afhenda kæranda rammasamningur nr. 2870, dags. 24. júní 2011, um kaup á bóluefni gegn HPV sýkingum til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi í heild sinni.

Jafnframt ber Landlækni að afhenda kæranda útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr.  15054, útboð á bóluefni gegn HPV (Human Papilloma Veiru) til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi, sé hún fyrirliggjandi hjá embættinu

Staðfest er ákvörðun landlæknis, dags. 29. júní 2011, að synja kæranda um afhendingu afrits af tilboði GlaxoSmithKleine ehf., dags. 14. apríl 2011, vegna rammasamningsútboðs nr. 15036 á próteintengdum bóluefnum gegn pneumókokkum til notkunar í almennum bólusetningum.

 

 

Trausti Fannar Valsson
Formaður

 

 

                   Sigurveig Jónsdóttir                                                    Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta