Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2012 Forsætisráðuneytið

A-438/2012. Úrskurður frá 5. júlí 2012.

ÚRSKURÐUR

Hinn 5. júlí 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-438/2012.


Kæruefni

Með tölvupósti 19. febrúar 2012 kærði [A], til heimilis að [...] í Hafnarfirði, til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun Hafnarfjarðarbæjar um að veita honum aðgang að 1) skilmálaskjali, dags. 5. desember 2011, milli Hafnarfjarðarbæjar og DEPFA ACS Bank og FMS Wertmanagement, sem samþykkt var í bæjarstjórn 7. desember 2011 og 2) yfirliti gagna varðandi endurfjármögnun lána Hafnarfjarðarbæjar hjá DEPFA ACS Bank.


Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi eftir umbeðnum upplýsingum 9. desember 2011 með beiðni á vef Hafnarfjarðarbæjar. Með tölvupósti 16. desember var honum tilkynnt um móttöku erindisins, að rétt þætti að hafa samráð við viðkomandi lánardrottna Hafnarfjarðarbæjar um meðferð beiðni hans og að tafir yrðu á afgreiðslu erindisins.

Erindi kæranda var svarað með tölvupósti 10. janúar 2012 sem var sendur honum á ný þann 20. janúar í kjölfar ítrekunar hans á erindinu. Í svarinu segir varðandi lánasamning, dags. 15. desember 2012, sem gerður var á grundvelli umrædds skilmálaskjals, að ákvæði samningsins komi í veg fyrir að Hafnarfjarðarbær upplýsi einhliða um innihald hans. Vísað er til 34. gr. samningsins, og ákvæðið rakið, en þar er kveðið á um trúnað lántaka.

Þá segir í svarinu:

„2.  Varðandi eldri samninga.
Vísað er til hjálagðs bréfs DEPFA banka dags. 6. þ.m. þar sem beiðni Hafnarfjarðarbæjar um heimild til að upplýsa um efni þriggja eldri samninga er hafnað. Í tilefni af beiðni þinni var haft samband við fyrirsvarsmann DEPFA og grein gerð fyrir framkominni ósk um aðgang að þessum upplýsingum. Sjá [hjálagðan] tölvupóst frá 3. janúar s.l.

Erlendu viðsemjendurnir gera kröfu um algjöran og frávikalausan trúnað um viðskiptakjör og bera fyrir sig þá hagsmuni sem þeir eigi undir vegna samninga og samningsumleitana við aðra aðila. Með vísan til framangreinds og 5. gr. upplýsingalaga er beiðni um aðgang að framangreindum gögnum synjað.“

Í bréfi DEPFA banka, dags. 6. janúar 2012, sem vísað er til í synjuninni, kemur m.a. fram að í lánaskjölunum sé að finna viðkvæmar fjármálaupplýsingar varðandi DEPFA og að bankinn telji að slík skjöl séu undanþegin upplýsingarétti almennings nema sá samþykki sem í hlut á. Vísað er til upplýsingalaganna í því sambandi. Skýrt er tekið fram að bankinn krefjist þess að trúnaður verði haldinn og muni bankinn ekki samþykkja birtingu umræddra upplýsinga nema því aðeins að þar til bær yfirvöld ákveði annað.

Samkvæmt því sem að framan er rakið virðist Hafnarfjarðarbær hafa skilið beiðni kæranda með þeim hætti að hann færi fram á að fá aðgang að lánssamningi frá 15. desember 2011, en ekki skilmálaskjalinu frá 7. desember s.á. sem sá lánssamningur er byggður á. Í bréfi DEPFA BANK frá 6. janúar 2012, sem sýnist ritað f.h. FMS Wertmanagement, er því andmælt að  veittur sé aðgangur að þremur lánasamningum Hafnarfjarðarbæjar og DEPFA BANK sem gerðir voru á árunum 2003, 2007 og 2008. Þrátt fyrir að svo sýnist sem ákveðinn misskilningur sé hér uppi telur úrskurðarnefndin óhætt að byggja á því að synjun Hafnarfjarðarbæjar á afhendingu lánssamningsins frá 15. desember nái jafnframt til skilmálaskjalsins og eins eigi mótmæli lánveitandans við því að aðgangur verði veittur við það skjal. Það er enda svo að í umsögn kærða um kæru þessa máls, dags. 6. mars, er einvörðungu fjallað um skilmálaskjalið og það sent úrskurðarnefndinni sem gagn í málinu.


Málsmeðferð

Eins og fram er komið barst kæra í máli þessu úrskurðarnefnd um upplýsingamál með tölvupósti 19. febrúar 2012. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2012, gaf úrskurðarnefndin Hafnarfjarðarbæ kost á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Frestur til þess var veittur til 28. febrúar. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrðu látin í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Svarbréf lögmanns Hafnarfjarðarbæjar er dags. 6. mars 2012. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Fram kemur í gögnum kæranda, sbr. skeyti hans frá 19. desember að með yfirliti gagna á hann við lista skv. 3. tl. 3. gr. upplýsingalaga. Honum er ekki til að dreifa en skilmálaskjalið fylgir hjálagt. Það greinir meginniðurstöður viðræðna sem stóðu í 3 ársfjórðunga, en lyktaði á fundi í London þann 24. nóvember 2011, sem fulltrúar samningsaðila sammæltust þá um að bera undir hvorn ákvörðunartökuaðila fyrir sig. Var skjalið í samræmi við það, tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar þann 7. desember. Af hálfu viðsemjanda bæjarins var mikill þrýstingur lagður á fyrirsvarsmenn bæjarins um trúnað um efni þess, sem var þvert gegn vilja og ætlan þeirra. Eindreginn vilji fyrirsvarsmanna Hafnarfjarðarbæjar stóð til þess að gera niðurstöður viðræðnanna heyrinkunnar. Við það var ekki komandi og þess krafist að trúnaðarloforð yrði undirritað og haldið sbr. niðurlagsákvæði skilmálaskjalsins og þau samningsákvæði sem vísað er til í svarskeyti bæjarins til kæranda þann 10. janúar. Til samræmis við þetta var greindur fundur bæjarstjórnar haldinn fyrir luktum dyrum og ekki útvarpað svo sem venja er.

Hafnarfjarðarbær á skv. framanröktu ekki annarra hagsmuna að gæta í þessum tiltekna þætti málsins, en að leitast við að standa við loforð um trúnað sem fyrirsvarsmönnum hans var gert að gefa að kröfu viðsemjanda, sem ber fyrir sig að hann eigi ríka viðskiptahagsmuni í húfi af því að trúnaður verði haldinn, vegna samskipta við aðra viðsemjendur sína.

Miklir hagsmunir Hafnarfjarðarbæjar eru á hinn bóginn undir í samskiptum við þennan lánardrottinn, sem á 13 milljarða kröfu á bæinn. Hún gjaldféll 7. apríl 2011 og var í þeirri stöðu fram til þess að samningar tókust í desember. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu alvarleg sú staða var, að svo stór hluti íslensks samfélags sem Hafnarfjörður er, skyldi hafa verið með óumsamda 13 milljarða skuld í útlöndum. Með samningnum í desember tókst að forða Hafnfirðingum frá vanskilaafleiðingum sem hefðu getað orðið geigvænlegar. Lausnin var hins vegar því verði keypt að fyrirsvarsmenn bæjarins urðu að gefa greind trúnaðarloforð og horfðu í því efni til undanþáguheimildar 5. gr. upplýsingalaga. Til þess er að líta að trúnaðarloforð um viðskiptaskilmála eru tíðkanleg og viðtekin á vissum sviðum viðskiptalífsins. Þessa gætir á viðskiptasviðum sem opinberir aðilar komast ekki hjá að taka þátt í, svo sem í bankaviðskiptum og í samningum um raforkusölu svo dæmi sé tekið af öðrum vettvangi en hér er til umfjöllunar. Til þessara viðskiptavenja má telja að auk annars sé vísað til með tilvitnuðum ákvæðum laganna.

Öðrum þræði eru það jafnframt almannahagsmunir að fyrirsvarsaðilar opinbers valds geti haldið trúnaðarloforð gefin til framgangs björgunaraðgerða úr alvarlegum fjárhagslegum erfiðleikum. Viðsemjandi Hafnarfjarðar FMS Wertmanagement er í eigu og starfar á vegum þýska ríkisins, sem ráðstafaði til hans eignum úr bönkum sem þýska ríkið yfirtók við greiðsluþrot. En þannig fór fyrir þýsku móðurfélagi hins írska DEPFA BANK og því lentu skuldir Hafnarfjarðar þar. En þar munu jafnframt til úrlausnar langtum stærri vandamál svo sem skuldir Suður Evrópuríkja, auk skulda annarra opinberra íslenskra aðila. Þessar staðreyndir varpa nokkru ljósi á þá áherslu um trúnað sem lögð er. Vísað er til 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna í þessu sambandi. Á heimasíðu þessa þýska aðila www.fms-wm.de gefur að finna staðfestingu á uppruna hans og eðli, þ.m.t. lagagrunnur og stofnskrá.

Sakir þeirrar áherslu sem viðsemjandinn leggur á trúnað og þess hve mikilsverða hagsmuni hann telur málið varða fyrir DEPFA BANK og FMS Wertmanagement, hlýtur að teljast nauðsynlegt að þessum aðilum verði gefið sérstakt færi á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við úrskurðarnefnd um upplýsingamál. [...]

Verði ekki fallist á kröfur Hafnarfjarðarbæjar er með vísan til ákvæða 18. gr. upplýsingalaga sett fram krafa um frestun réttaráhrifa slíks úrskurðar, með þeim skilmálum sem ákvæði hennar greina.“

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. mars 2012, var kæranda gefinn kostur á því að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í tilefni af umsögn Hafnarfjarðarbæjar og frestur til þess til 16. mars. Athugasemdir kæranda bárust 13. mars og segir þar m.a.:

„Hafnarfjarðarbær ber við að endurfjármögnun þriggja lána við þrotabú Depfa hafi verið mjög mikilvæg fyrir fjárhag og afkomu bæjarins. Í svarbréfinu kemur fram að lánsupphæðin sé 13 milljarðar, en það er líklega ekki rétt, því upprunalegu lánin voru í þremur erlendum myntum. Hafnarfjarðarbær hefur engar tekjur í þeim myntum, og gengi íslensku krónunnar hefur óljósa framtíð. Því er lánsupphæðin óljós og gæti breyst með flökti krónunnar. [...]

Samkvæmt ársreikningi Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2011 voru rekstrartekjur A og B hluta 13.623 milljónir, þar af útsvar og fasteignaskattur 10.306 milljónir. Skuldir A og B hluta voru 32.316 milljónir í ársbyrjun 2011. Bærinn á vissulega við miklar skuldir að etja, og það er vandséð hvernig hann getur tekist á við afborganir af lánum við þrotabú Depfa. Bæjarfélagið er eitt það skuldsettasta á landinu og er búið að fullnýta útsvarsprósentu sína. Að auki á það fáar eignir sem hægt er að selja, fyrir utan lóðir. Þær hafa líklega verið lagðar að veði fyrir endurfjármögnun lánanna. Því er erfitt að sjá hvernig búið sé að forða bænum frá vanskilaafleiðingum, þar sem bærinn getur varla aflað sér auka fjármuna til afborgana, og því er enn ríkari ástæða til að upplýsa bæjarbúa um framtíð bæjarsjóðs. [...]

Hafnarfjarðarbær ber við 5. grein upplýsingalaga, enda hafi bærinn viljað upplýsa efni samningsins. Hér takast á hagsmunir íbúa Hafnarfjarðar, sem eiga rétt á að vita hver framtíð sveitarfélags síns er, og hagsmunir þrotabús Depfa um að ná hagstæðum samningum við önnur íslensk sveitarfélög, eins og fram kemur í svarbréfi Hafnarfjarðar. Hagsmunir íbúa Hafnarfjarðar eru mun meiri en þrotabús Depfa banka. Lóðir bæjarfélagsins hafa verið veðsettar, og hugsanlega eign þess í HS Veitum, vaxtakjör og afborganir eru á huldu, sem og lánstími. [...]

Í svarbréfi bæjarins kemur t.d. fram að þrotabú Depfa banka hafi „jafnframt til úrlausnar langtum stærri vandamál svo sem skuldir Suður Evrópuríkja auk skulda annarra opinberra íslenskra aðila“, án þess að tekið sé fram hverjir þeir aðilar séu, neinar upplýsingar gefnar um lán þeirra. [...] Hér verður að hafa upphæðir í samhengi. [...] Skuldir Hafnarfjarðarbæjar við FMS Wertmanagement eru 0.04% af lánasafni þess. Ég hafna því að 13 milljarða lán til Hafnarfjarðarbæjar séu slíkir viðskiptahagsmunir fyrir FMS Wertmanagement, að þeir muni hljóta tjón af ef skilmálasamningur við Hafnarfjarðarbæ verði gerður opinber. Ekki hefur komið fram við hvaða aðra íslenska aðila þrotabúið á eftir að ná samningum við.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.


Niðurstaða

1.
Í máli þessu er kærð synjun Hafnarfjarðarbæjar um aðgang að eftirtöldum upplýsingum:

1.  Skilmálaskjali, dags. 5. desember 2011, milli Hafnarfjarðarbæjar og DEPFA ACS Bank og FMS Wertmanagement, sem samþykkt var í bæjarstjórn 7. desember 2011, og
2.  yfirliti gagna varðandi endurfjármögnun lána Hafnarfjarðar hjá DEPFA ACS Bank.

Í 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að mál skv. 1. mgr. 14. gr. laganna skuli borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun. Samkvæmt gögnum málsins ber að miða við að hin kærða synjun Hafnarfjarðarbæjar hafi borist kæranda 20. janúar 2012 og kæran teljist því fram komin innan kærufrests.

2.
Í gögnum málsins liggja fyrir tölvupóstur frá 3. janúar 2012 frá Michael Byrne, Director, Depfa, og bréf, dags. 6. janúar 2012, undirritað fyrir hönd DEPFA BANK plc og DEPFA BANK plc as service provider for FMS Wertmanagement. Í tilvitnuðu bréfi kemur skýrt fram sú afstaða bankans að ekki verði fallist á að veita aðgang að þremur tilgreindum lánssamningum en því er fyrr lýst í úrskurðinum að úrskurðarnefndin telji að svo megi líta á að þau mótmæli eigi einnig við  um skilmálaskjalið. Úrskurðarnefndin taldi þannig ekki þörf á að leita sérstaklega eftir umsögn DEPFA Bank eða Wert Management um efni kærunnar.

3.
Eins og fyrr greinir hefur annars vegar verið kærð synjun Hafnarfjarðabæjar á að veita kæranda aðgang að svonefndu skilmálaskjali, dags. 5. desember 2011, milli Hafnarfjarðarbæjar og DEPFA ACS Bank og FMS Wertmanagement, sem samþykkt var í bæjarstjórn 7. desember 2011. Hins vegar hefur verið kærð synjun Hafnarfjarðarbæjar á að afhenda kæranda yfirlit gagna varðandi endurfjármögnun lána Hafnarfjarðar hjá DEPFA ACS Bank.

Í skýringum Hafnarfjarðarbæjar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. mars 2012, kemur fram að síðarnefnda gagnið, yfirlit gagna varðandi endurfjármögnun lána, sé ekki fyrirliggjandi hjá bænum.

Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga ber stjórnvöldum, þar á meðal sveitarfélögum, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekin mál, sé þess óskað. Vísast hér einnig til hliðsjónar í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006. Svo að þessi skylda sé virk er ennfremur mælt fyrir um það í 22. gr. sömu laga að stjórnvöldum sé skylt að skrá mál sem koma til meðferðar hjá þeim á kerfisbundinn hátt og varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg, sbr. einnig 6. gr. laga nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands. Úrskurðarnefndin lítur svo á að með umræddu yfirliti, sem kærandi hefur óskað aðgangs að, sé átt við lista yfir málsgögn skv. 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Réttur til aðgangs að slíkum lista er bundinn því að hann hafi verið gerður, sbr. athugasemdir við 3. gr. frumvarps til upplýsingalaga. Í athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að slíkum lista sé ekki til að dreifa og hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendur til að draga það í efa. Getur kærandi því ekki átt rétt til aðgangs að slíkum lista á grundvelli upplýsingalaga, enda leggja þau lög ekki þá skyldu á herðar stjórnvöldum að taka saman upplýsingar sem ekki liggja fyrir þegar beiðni um aðgang berst. Af þessu leiðir, varðandi þennan þátt málsins, að ekki liggur fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 14. gr. Ber því að vísa þessum þætti kærunnar frá úrskurðarnefndinni.

Af framangreindu leiðir að til úrlausnar í úrskurði þessum er aðeins réttur kæranda til aðgangs að skilmálaskjali, dags. 5. desember 2011, milli Hafnarfjarðarbæjar og og DEPFA ACS Bank og FMS Wertmanagement, sem samþykkt var í bæjarstjórn 7. desember 2011.

4.
Til rökstuðnings þeirrar ákvörðunar að synja kæranda um aðgang að framangreindu skilmálaskjali, dags. 5. desember 2011, hefur Hafnarfjarðarbær vísað til ákvæðis 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Í því ákvæði kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um „samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir.“ Bendir Hafnarfjarðarbær á, í þessu sambandi, að viðsemjandi Hafnarfjarðarbæjar FMS Wertmanagement sé í eigu og starfi á vegum þýska ríkisins, sem hafi ráðstafað til hans eignum úr bönkum sem þýska ríkið hafi yfirtekið við greiðsluþrot.

Í athugasemdum við ákvæði 2. tölul. 6. gr.  í frumvarpi sem síðan varð að upplýsingalögum segir m.a. að ákvæðið eigi við um: „samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða annars konar toga. Þeir hagsmunir, sem hér er verið að vernda, eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að.“

Úrskurðarnefndin telur ekki að með öllu verði útilokað að sveitarfélag geti talist aðili á vegum íslenska ríkisins, í skilningi 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Sveitarfélög eru stjórnvöld og starfsemi þeirra lögbundin líkt og annarra stjórnvalda. Í þessu sambandi ber þó jafnframt að líta til 1. gr. upplýsingalaga, en þar er hvort um sig tilgreint, ríki annars vegar og sveitarfélög hins vegar.

Það sem hér ræður hins vegar úrslitum, að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál, er að óskað er upplýsinga um tiltekin lánakjör og samninga sem grundvallast meðal annars á ákvörðunum aðila sem starfa á markaði. Nánar tiltekið er óskað upplýsinga frá Hafnarfjarðarbæ sem til hafa orðið vegna lántöku sveitarfélagsins á almennum lánamarkaði, og tiltekinnar endurnýjunar eða endurskoðunar þeirra samninga og skilmála í þeim. Breytir í því sambandi engu þótt lögaðilinn FMS Wertmanagement sé í eigu og starfi á vegum þýska ríkisins samkvæmt upplýsingum sem fram koma í skýringum Hafnarfjarðarbæjar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. mars 2012, enda er hér um markaðsviðskipti að ræða en ekki lántöku af þýska ríkinu eða fjölþjóðastofnun í skilningi 2. tölul. 6. gr. uppýsingalaga.. Úrskurðarnefndin telur að aðgangur að gögnum um þessi tilteknu viðskipti geti ekki, eins og hér stendur á, fallið undir 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

5.
Í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar hefur Hafnarfjarðarbær stutt synjun sína um að veita kæranda aðgang að skilmálaskjali, dags. 5. desember 2011, þeim rökum að slíkt geti skaðað hagsmuni viðsemjanda hans, DEPFA Bank, og að bankinn hafi krafist trúnaðar. Hafnarfjarðarbær eigi ekki annarra hagsmuna að gæta en að leitast við að standa við loforð um trúnað sem fyrirsvarsmönnum hans var gert að gefa að kröfu viðsemjanda, sem beri fyrir sig að hann eigi ríka viðskiptahagsmuni af því að trúnaður verði haldinn, vegna samskipta við aðra viðsemjendur sína. Vísar Hafnarfjarðarbær um þetta til 5. gr. upplýsingalaga.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er að finna meginreglu laganna um upplýsingarétt almennings. Sætir hún undantekningum samkvæmt 4.-6. gr. sömu laga. Samkvæmt hefðbundnum viðhorfum um túlkun laga verða þær undantekningar ekki skýrðar rúmt. Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“ Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að jafnvel þótt upplýsingar sem fram koma í gögnum máls geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera lögin ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni, verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra: hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344).

Vissulega má við því búast að almenn vitneskja um kjör í viðskiptum fyrirtækja við hið opinbera geti skaðað samkeppnisstöðu þeirra og kunni jafnvel að skaða samkeppnisstöðu hins opinbera, hvort sem er ríki eða sveitarfélög. Það sjónarmið verður þó að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Í því sambandi er m.a. rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verða hverju sinni að vera undir það búnir að mæta samkeppni frá öðrum aðilum, sbr. meginreglu þá sem fram kemur í 1. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið ítarlega yfir skilmálaskjal milli Hafnarfjarðarbæjar og DEPFA ACS Bank og FMS Wertmanagement, dags. 5. desember 2011, sem samþykkt var í bæjarstjórn 7. desember 2011.  Í skjalinu er m.a. að finna upplýsingar um samningsskilmála endurfjármögnunar tiltekinna lána, þar með talið upplýsingar um afborganir og vaxtafót.

Sé skilmálaskjalið sem kærandi hefur óskað eftir að fá aðgang að virt í heild sinni í ljósi þess sem að framan segir, er það álit úrskurðarnefndar að kærandi eigi rétt á að fá aðgang að því að undanskildum ákvæðum um umsamda vexti og áætlaðar afborganir í þeim viðskiptum sem um er að ræða. Nefndin lítur svo á að slíkar upplýsingar séu það viðkvæmar, með tilliti til samkeppnisstöðu DEPFA Bank, að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær skuli fara leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga, sbr. einnig m.a. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A-177/2004. Á hinn bóginn skal tekið fram að ákvæði samnings um að efni hans skuli vera trúnaðarmál á milli aðila getur ekki, eitt og sér, komið í veg fyrir aðgang kæranda að samningnum á grundvelli upplýsingalaga, eins og skýrt er tekið fram í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til þeirra.

Með vísan til framangreinds og meginreglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings ber Hafnarfjarðarbæ að afhenda kæranda afrit af umræddu skilmálaskjali, en þó með eftirtöldum útstrikunum, sbr. 7. gr. laganna:

1) Afmá skal hlutfall áætlaðra afborgana undir liðnum „Scheduled amortisation payments“ á bls. 2.
2) Afmá skal hlutfall vaxta undir liðnum „Tranche A Margin“ á bls. 2.
3) Afmá skal hlutfall áætlaðrar afborgunar í neðanmálsgrein 2 á bls. 2.
4) Afmá skal hlutfall vaxta undir liðnum „Tranche B Margin“ á bls. 3.
5) Afmá skal hlutfall vaxta undir liðnum „Default Interest“ á bls. 3.

Þar sem ákvæði 5. gr. upplýsingalaga á aðeins við um hluta umrædds skjals skal veita kæranda aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. ákvæði 7. gr. upplýsingalaga.

Áréttað skal að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um þá hluta skjalsins sem veita ber aðgang að byggist á því annars vegar að þar komi fram upplýsingar sem ekki verði séð að muni valda samningsaðilum tjóni verði þær gerðar opinberar og hins vegar að um sé að ræða upplýsingar sem lúti með svo beinum hætti að ráðstöfun opinberra fjárhagslegra hagsmuna að þær beri af þeim sökum að gera opinberar með vísan til 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, þrátt fyrir að viðsemjendur Hafnarfjarðarbæjar teldu það æskilegt að þeim yrði haldið leyndum af tilliti til fjárhagslegra hagsmuna sinna.

 
6.
Í 18. gr. upplýsingalaga er mælt fyrir um frestun á réttaráhrifum úrskurðar. Samkvæmt ákvæðinu getur úrskurðarnefnd um upplýsingamál, að kröfu stjórnvalds, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að stjórnvald beri málið undir dómstóla innan sjö daga frá birtingu úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð.

Hafnarfjarðarbær hefur engar forsendur til að óska frestunar á réttaráhrifum þessa úrskurðar fyrr en hann hefur verið birtur sveitarfélaginu, enda liggja ekki fyrr fyrir hjá því þau rök og tilvísun til þeirra lagareglna sem úrskurðurinn byggist á. Eðli máls samkvæmt og í samræmi við orðalag 18. gr. upplýsingalaga skal stjórnvald gera kröfu um frestun á réttaráhrifum úrskurðar þegar úrskurður hefur verið birtur. Kröfu Hafnarfjarðarbæjar um frestun á réttaráhrifum úrskurðar þessa, sem borin var upp í athugasemdum bæjarins við kæruna, ber því að vísa frá úrskurðarnefndinni að svo stöddu.

Úrskurðarorð

Hafnarfjarðarbæ ber að afhenda kæranda afrit af skilmálaskjali, dags. 5. desember 2011, milli Hafnarfjarðarbæjar, DEPFA ACS Bank og FMS Wertmanagement, sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 7. desember 2011, með eftirtöldum útstrikunum:

1) Afmá skal hlutfall áætlaðra afborgana undir liðnum „Scheduled amortisation payments“ á bls. 2
2) Afmá skal hlutfall vaxta undir liðnum „Tranche A Margin“ á bls. 2.
3) Afmá skal hlutfall áætlaðrar afborgunar í neðanmálsgrein 2 á bls. 2.
4) Afmá skal hlutfall vaxta undir liðnum „Tranche B Margin“ á bls. 3.
5) Afmá skal hlutfall vaxta undir liðnum „Default Interest“ á bls. 3.

Þeim þætti kærunnar er lýtur að aðgangi að lista yfir gögn varðandi endurfjármögnun tiltekinni lána Hafnarfjarðarbæjar er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kröfu Hafnarfjarðarbæjar um frestun á réttaráhrifum úrskurðar þessa er vísað frá úrskurðarnefndinni að svo stöddu.

 


Trausti Fannar Valsson
formaður

 


Sigurveig Jónsdóttir                                                                                    Friðgeir Björnsson
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta