Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2012 Forsætisráðuneytið

B-442/2012. Úrskurður frá 10. ágúst 2012.

ÚRSKURÐUR


Hinn 10. ágúst 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. B-442/2012: 

Málsatvik

Þann 20. apríl 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð í máli nr. A-418/2012 í tilefni af kæru [A] hdl., f.h. [B] ehf., vegna þeirrar ákvörðunar Landspítala að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum.

Með ákvörðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem tekin var hinn 5. júlí 2012 var tilgreindur úrskurður frá 20. apríl 2012 í máli nr. A-418/2012 afturkallaður á grundvelli 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sama dag kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál því upp nýjan úrskurð í tilefni af umræddri kæru, úrskurð nr. A-442/2012.

Í úrskurðarorði úrskurðar nr. A-442/2012 segir svo: „Staðfesta ber synjun Landspítala á því að afhenda kæranda, [A] héraðsdómslögmanni, fyrir hönd [B] ehf., eftirtalin gögn:

(1) Tölvupóstur frá [...], starfsmanni [C] ehf., til [...], starfsmanns Landspítala, dags. 14. október 2011, tímasettan 17.58, og tveimur fylgigögnum hans.
(2) Tölvupóstur frá [...], starfsmanni Landspítala, til [...], starfsmanns [D] hf., dags. 6. ágúst 2010, tímasettur 15.54.
(3) Tölvupóstur frá [...] til [...], dags. 9. ágúst 2010, tímasettur 14.58.
(4) Tölvupóstur frá [...] til [...], dags. 14. október 2010, tímasettur 16.03.
(5) Tölvupóstur frá [...], til annarra starfsmanna Landspítala, dags. 13. október 2010, tímasettur 08.44.
(6) Ttölvupóstur frá [...], dags. 15. október 2010, tímasettur 12.40
(7) Tölvupóstur frá [...], dags. 19. október 2010, tímasettur 2.39.

Landspítala ber að afhenda kæranda tölvupóst frá [...], starfsmanni [C] ehf., til [...], starfsmanns Landspítala, dags. 20. október 2011, tímasettan 14.54, að því undanskildu að afmá ber að fullu fyrsta dálkinn í töflu sem fylgir póstinum og inniheldur upplýsingar  um vörunúmer umræddra vara hjá viðskiptaaðila [C] ehf., sbr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Jafnframt ber að afhenda kæranda tölvupóst frá [...], starfsmanni [D] hf. til [...] starfsmanns Landspítala, dags. 6. júlí 2010, tímasettan 16.39, að því undanskildu að ekki skal afhenda fylgiskjal (viðhengi) sem fylgdi þeim tölvupósti. Þá ber að afhenda kæranda tölvupóst frá [...] til [...], dags. 9. ágúst 2010, tímasettan 16.12, að því undanskildu að ekki skal afhenda fylgiskjal (viðhengi) sem fylgdi tölvupóstinum.

Að öðru leyti ber Landspítala að afhenda kæranda, [A], fyrir hönd [B] ehf., afrit af þeim gögnum sem tilgreind eru í töluliðum 1. til og með 3 í undirkafla 4 í niðurstöðum úrskurðar þessa.“

Með bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 9. júlí, krafðist Rúnar Þór Jónsson  þess fyrir hönd Landspítala að nefndin frestaði réttaráhrifum úrskurðar nr. A-442/2012 svo unnt væri að höfða mál til ógildingar á úrskurðinum. Í bréfinu eru færð eftirfarandi rök fyrir beiðninni: Í fyrsta lagi er í erindinu vísað til þess að [C] ehf. og [D] hf. hafi ekki fengið fullnægjandi tækifæri til þess að gæta réttar síns og koma fram sínum sjónarmiðum áður en nýr úrskurður var kveðinn upp. Bent er á að rökstuðningur aðilanna vegna kröfu um frestun réttaráhrifa fyrri úrskurðar feli ekki í sér öll þau sjónarmið sem fyrirtækin vildu koma á framfæri vegna nýs úrskurðar.

Í öðru lagi kemur fram að Landspítalinn líti svo á að hluti af þeim gögnum sem veittur sé aðgangur að með úrskurði nr. A-442/2012 séu vinnugögn sem falli undir undanþáguákvæði í 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Landspítalinn telur jafnframt að meðal þeirra gagna sem afhent voru úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi verið gögn sem voru umfram það sem krefjast mátti af  spítalanum vegna málsins. Landspítalinn telur það verulegt umhugsunarefni að spítalanum sé síðan með úrskurði nefndarinnar gert að afhenda gögn sem e.t.v. áttu aldrei erindi inn í málið sjálft.

Í þriðja lagi er bent á að í úrskurðinum sé að finna innbyrðis ósamræmi í ákvörðun nefndarinnar um aðgang að gögnum. Landspítalanum sé gert að afmá vörunúmer sem þó komi fram í öðrum tölvupóstum sem spítalanum sé gert að afhenda án yfirstrikunar. Að lokum bendir Landspítalinn á að yfirstrikun vörunúmera hafi litla þýðingu. Upplýsingar sem varði viðskiptasambönd og viðskiptahagsmuni sem leynt eigi að fara megi finna annars staðar í hinum umdeildu gögnum. Þetta hefðu aðilar sem hlut eigi að máli getað upplýst nefndina nánar um hefðu þeir fengið tækifæri til.

Með bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 9. júlí, krafðist [F] lögfræðingur þess fyrir hönd [C] ehf., að fallist yrði á kröfu Landspítala um frestun á réttaráhrifum úrskurðar nr. A-442/2012. Þá er einnig sett fram sú krafa að verði ekki fallist á frestun réttaráhrifa, verði umræddur úrskurður afturkallaður að eigin frumkvæði nefndarinnar.

Í erindinu kemur fram að ekki sé talið að úrskurðarnefndin hafi gengið nægilega langt í að vernda viðkvæmar upplýsingar sem geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni [C] ehf. Miðað við eðli gagnanna sé ljóst að hagsmunir [C] ehf. af því að gögnunum sé haldið leyndum vegi þyngra en hagsmunir [B] ehf. af því að fá gögnin afhent. Þá er í þessu sambandi vísað til 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Krafan um frestun réttaráhrifa á grundvelli 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er rökstudd með vísan til þess að hér sé um að ræða mikilvæga hagsmuni einkaaðila sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti ef veittur yrði aðgangur að umræddum upplýsingum, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum.

Verði krafa um frestun réttaráhrifa á grundvelli 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 ekki tekin til greina krefst umboðsmaður [C] ehf. þess að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar, sbr. 3. mgr. 11. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.


Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 10. júlí 2012, var [A], f.h. [B] ehf., sem aðila að úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. A-442/2012, kynntar framkomnar kröfur Landspítala um frestun réttaráhrifa. Einnig voru honum kynnt sjónarmið [C] ehf.

Með bréfi, dags. 10. júlí 2012, var [E], lögmanni [D] hf., einnig kynnt framkomin krafa um frestun á réttaráhrifum. Með tölvupósti til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 11. júlí, krafðist [E] þess fyrir hönd [D] hf. að fallist yrði á framkomna kröfu Landspítalans um frestun réttaráhrifa úrskurðar nr. A-442/2012.

Svör [A], f.h. [B] ehf., í tilefni af kröfu Landspítalans bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 26. júlí 2012. Er þar m.a. bent á að þau sjónarmið sem Landspítalinn byggi kröfu sína um frestun réttaráhrifa á hefði hann getað reifað áður við meðferð málsins. Telur hann að þetta tómlæti af hálfu kæranda ætti að koma í veg fyrir beitingu undanþágureglu 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

[B] ehf. mótmælir kröfunni enn fremur með þeim röksemdum að bæði fyrirtækin er málið varði hafi haft tækifæri til þess að útskýra sín sjónarmið og málsástæður fyrir úrskurðarnefndinni. Þá telur kærandi að þar sem kærði hafi ekki vísað til þess að um vinnuskjöl væri að ræða í athugasemdum sínum við kæruna, sé ótækt að byggja á því nú.

Varðandi bréf [F], f.h. [C] ehf., vísar kærandi til þess að skv. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 séu það eingöngu stjórnvöld sem geti gert kröfu um frestun réttaráhrifa úrskurða nefndarinnar. Þá telur kærandi jafnframt að krafa um frestun réttaráhrifa í þessu tilviki verði heldur ekki byggð á 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem 18. gr. upplýsingalaga sé sérregla sem gangi framar hinni almennu heimild í stjórnsýslulögum. Þar að auki eigi reglan ekki við þar sem efnisúrskurður hafi verið kveðinn upp í málinu.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið gögn málsins og þau rök sem fram hafa verið færð undir meðferð þess. Nefndin telur að í málinu liggi fyrir nægar upplýsingar til þess að hún geti tekið afstöðu til þess hvort lagaskilyrði séu til frestunar réttaráhrifa úrskurðar nr. A-442/2012.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti, að kröfu stjórnvalds, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa sú sem hér er til úrskurðar barst innan þessa frests. 

Í athugasemdum við umrædda grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. svo: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðum A-78/1999C, A-117/2001B, A-233/2006B, A-277/2008B, A-328B/2010 og B-438/2012 lagt til grundvallar að með 18. gr. upplýsingalaga hafi fyrst og fremst verið höfð í huga tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum.

Í úrskurði nefndarinnar í máli A-442/2012 var komist að þeirri niðurstöðu að Landspítali hafi ekki sýnt fram á að ef kæranda yrði veittur aðgangur að gögnum sem hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, geti það eitt og sér skaðað samkeppnisstöðu Landspítala eða hagsmuni viðskiptamanna spítalans, í samkeppni við kæranda.  Í umræddum úrskurði nefndarinnar var þó að hluta fallist á takmörkun á aðgangi að gögnum sem varða [C] ehf. og [D] hf., með vísan til 5. gr. upplýsingalaga. Að öðru leyti taldi nefndin að ekki væri um að ræða upplýsingar sem varði atvinnu, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál, viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu fyrirtækjanna sem valdi þar með samningsaðilum tjóni.

Í bréfi Landspítala var bent á að vörunúmer sem spítalanum var gert að afmá í einum tölvupósti kæmi fram í öðrum tölvupóstum sem bar að veita kæranda aðgang að. Landspítalinn taldi því að í ákvörðun nefndarinnar væri að finna innbyrðis ósamræmi.

Úrskurðarnefndan komst að þeirri efnislegu niðurstöðu í úrskurði í máli nr. A-442/2012, að ekki skyldi afhenda upplýsingar sem teldust nógu nákvæmar til að vitneskja um þær gæti mögulega skaðað viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja. Því var hafnað beiðni um aðgang að þeim tölvupóstsamskiptum, eða hlutum þeirra, sem innihaldi beinar tilvísanir til þess fyrirtækis sem [C] ehf. kaupir vörur sínar af, eða lýsi viðskiptum eða viðskiptaskilmálum með beinum hætti.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar frá 5. júlí sl. Ber því að hafna kröfu Landspítala þar að lútandi.

Nefndin sér ekki ástæðu til þess að afturkalla úrskurðinn að eigin frumkvæði, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda bendi ekkert til þess að úrskurðurinn sé haldinn svo verulegum annmarka að hann sé ógildanlegur að lögum.

Þá verður réttaráhrifum úrskurðar í máli nr. 442/2012 ekki frestað með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem reglan á einungis við um ákvörðun lægra setts stjórnvalds sem hefur verið kærð til æðra stjórnvalds.

Úrskurðarorð

Kröfu Landspítala, um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar, sbr. 18. gr. upplýsingalaga, í máli nr. A-442/2012, frá 5. júlí 2012, er hafnað.

Kröfu [C] ehf. um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, í máli nr. A-442/2012, frá 5. júlí 2012, er hafnað.

 


Trausti Fannar Valsson
formaður

 


Sigurveig Jónsdóttir                                                                                       Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta