Hoppa yfir valmynd
9. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

28. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

Fundarheiti og nr. fundar: 28. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti.
Staður og stund:
Velferðarráðuneytið, 9. september 2015. Kl. 14.00–16.00.
Málsnúmer:
VEL12100264.

Mætt: Anna Kolbrún Árnadóttir formaður (AKÁ) (í síma), Ása Sigríður Þórisdóttir (ÁSÞ, BHM), Berglind Eva Ólafsdóttir (BEÓ, Svf), Guðný Einarsdóttir (GE, FJR), Hafdís Dögg Guðmundsdóttir (HDG, KÍ), Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Ísleifur Tómasson (ÍT, ASÍ), Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB) og Rósa G. Erlingsdóttir (RGE, VEL), starfsmaður aðgerðahóps.

Forföll boðaði: Stefán Stefánsson (SS, MNR).

Fundarritari: Rósa G. Erlingsdóttir.

Dagskrá:

1.    27. fundur

Ekki var skrifuð fundargerð fyrir 27. fund sem haldinn var 15. maí. Fundurinn var uppskerufundur og var rannsóknarskýrslum aðgerðahópsins dreift til fundarmanna.

2.    Tímasett verkefnaáætlun 2015–2016

Drög að tímasettri verkefnaáætlun var lögð fram til samþykkis. Samþykkt var að aðgerðahópurinn standi fyrir tveimur vinnudögum sitt hvoru megin við áramót þar sem lögð verði drög að tillögugerð til ráðherra. Aðgerðahópurinn á samkvæmt erindisbréfi að skila tillögum til ráðherra í desember 2016. Byggt verði á niðurstöðum rannsóknarverkefna aðgerðahópsins, nýlegum skýrslum og tölulegum gögnum er varða kynjajafnrétti á vinnumarkaði sem og fyrirmyndum frá hinum Norðurlöndunum. Einnig var samþykkt að starfsmaður aðgerðahópsins hefji undirbúning að jafnlaunadegi sem haldinn verði vorið 2016. Markmið dagsins verði að vekja athygli á verkefnum tengdum jafnlaunamálum og jafnrétti á vinnumarkaði.

3.    Eftirfylgni rannsóknarverkefna aðgerðahóps um launajafnrétti og kynning á viðauka við skýrslu um launamun karla og kvenna um launamyndun og kynbundinn launamun  á almennum markaði.

Rætt var um eftirfylgni rannsóknarverkefna aðgerðahópsins. Hópurinn leggur áherslu á að ráðist verði í verkefni til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali. Í samstarfi velferðar- og menntamálaráðuneytanna verði unnin verk- og tímaáætlun fyrir verkefnið.

HGS kynnti viðauka við skýrslu um launamun karla og kvenna um launamyndun og kynbundinn launamun á almennum markaði. Sigurður Snævarr vann viðaukann fyrir SA. Í viðaukanum er annars vegar farið yfir kynbundinn launamun á almennum vinnumarkaði og þá horft til tímabilsins 2000–2013 þar sem einnig er leitað fanga í fyrri rannsókn Hagstofunnar sem náði frá 2000–2007. Hins vegar er litið nánar á launamyndun á almennum markaði á árunum 2008–2013 og hún skoðuð með tilliti til einstakra atvinnugreina. Starfsmaður aðgerðahópsins mun í samstarfi við Sigurð Snævarr bæta viðaukanum við skýrsluna og búa hana aftur til birtingar á vef velferðarráðuneytisins. Einnig verður unnin fréttatilkynning til birtingar á vef ráðuneytisins um niðurstöður viðaukans.

4.    Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals, námskeið hjá Starfsmennt og námskeið um vottun jafnlaunakerfa.

GE fór yfir stöðu tilraunaverkefnis um innleiðingu jafnlaunastaðals.

Námskeið hjá Starfsmennt: Haldin voru námskeið hjá Starfsmennt á vordögum og voru þau vel sótt. Ný röð námskeiða verður haldin í september og október.

Nítján luku prófi í námskeiði um vottun jafnlaunakerfa. Rætt var um hvernig auka mætti eftirspurn meðal fyrirtækja og stofnana eftir innleiðingu jafnlaunastaðalsins og vottunarferli. Starfsmaður mun skrifa minnisblað um þær hugmyndir sem fram komu og leggja fyrir aðgerðahópinn.

Uppi eru hugmyndir um að þróa enn frekar þau verkfæri sem orðið hafa til í tilraunaverkefninu og hafa verið nýtt í kennslu á námskeiðum Starfsmenntar og útbúa heimasíðu með upplýsingum og leiðbeiningum um jafnlaunastaðalinn. GE og RGE munu skoða möguleika um hýsingu slíks vefjar innan Stjórnarráðsins og gera verkáætlun um jafnlaunavef.

5.    Vinnudagur aðgerðahóps um launajafnrétti.

Samþykkt var að aðgerðahópurinn haldi tvo vinnudaga sitt hvoru megin við áramót. Verður fyrsti vinnudagurinn haldinn þann 3. desember næstkomandi. Fundarboð verður sent fulltrúum í aðgerðahópnum.

6.    Önnur mál.

  • Kynning hjá BHM á jafnlaunastaðli þann 15. september. GE tók verkefnið að sér.
  • Fundir aðgerðahópsins verða haldnir annan miðvikudag í mánuði kl. 14.00 í velferðarráðuneytinu. Starfsmaður sendir fundarboð.

Rósa Guðrún Erlingsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta