Styrkveiting til verkefnisins Virkjum hæfileikana
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur veitt Vinnumálastofnun tveggja milljóna króna styrk til verkefnisins Virkjum hæfileikana. Verkefninu var ýtt úr vör haustið 2014 og hefur það markmið að afla atvinnutækifæra fyrir fólk með skerta starfsorku.
Vinnumálastofnun, Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp hófu samstarf í nóvember á síðasta ári um aðgerðir til að skapa störf fyrir atvinnuleitendur með skerta starfsgetu. Verkefnið fékk heitið; Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana. Í verkefninu felst að opinberar stofnanir og sveitarfélög sem taka þátt í því geta ráðið til sín einstaklinga með skerta starfsgetu með með stuðningi frá ráðgjöfum Vinnumálatofnundar og í samræmi við vinnusamning öryrkja sem Tryggingastofnun ríkisins gerir. Með gerð slíkra samninga fá launagreiðendur endurgreiðslu að hluta af launum og launatengdum gjöldum.
Styrkur félags- og húsnæðismálaráðherra til verkefnisins er ætlaður til að veita atvinnurekendum á almennum vinnumarkaði fræðslu um hvaða stuðningur stendur til boða af hálfu hins opinbera þegar fatlað fólk er ráðið til starfa. Verkefnið er liður í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.