Hoppa yfir valmynd
22. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 135/2022- Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 135/2022

Miðvikudaginn 22. júní 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. febrúar 2022, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur á grundvelli 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 9. janúar 2022. Með bréfi, dags. 4. febrúar 2022, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hann væri staddur erlendis. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Skýringar bárust frá kæranda þann 8. febrúar 2022. Afrit af flugfarseðli og frekari skýringar bárust frá kæranda þann 11. febrúar 2022. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. febrúar 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hans væri synjað á þeirri forsendu að hann væri ekki í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. mars 2022. Með bréfi, dags. 24. mars 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 6. maí 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé ósammála 14. gr. laga nr. 54/2006 þar sem hann sé í virkri atvinnuleit. Í nokkrar vikur hafi kærandi verið að senda ferilskrá sína í gegnum Alfreð og vefsíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi snúið til baka til Íslands þann 11. mars 2022. Hann hafi enn ekki fengið vinnu en sé ekki hættur í atvinnuleit. Ástæða fyrir dvöl kæranda á Spáni hafi verið að hitta 11 ára dóttur sína sem hafi saknað hans mikið og þurft á honum að halda. Það hafi haft mikil áhrif á hann þar sem fjölskylduaðstæður hans séu flóknar og hann hafi varla efni á að ferðast. Af þeim ástæðum óski kærandi eftir því að tekið verði mark á orðum hans þar sem ætlun hans sé einungis sú að setjast að á Íslandi og hefja störf hér á landi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 9. janúar 2022. Kærandi hafi starfað hjá B áður en hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Á vottorði vinnuveitanda frá B hafi komið fram að kærandi hafi þurft „að fara heim“ og starfslok hafi komið til vegna þess.

Í byrjun febrúar 2022 hafi verið óskað eftir frekari skýringum kæranda á starfslokum. Þá hafi verið óskað eftir afritum af farseðlum kæranda til að kanna hvort hann væri staddur á Íslandi. Kæranda hafi verið send tvö erindi, bæði dagsett 4. febrúar 2022, þar sem óskað hafi verið eftir umbeðnum upplýsingum. Svar hafi borist frá kæranda þann 8. febrúar 2022. Þar hafi komið fram að kærandi væri staddur á Spáni að annast persónuleg málefni og verja tíma með fjölskyldu sinni. Kærandi hafi sagst koma aftur til Íslands í mars. Þann 11. febrúar 2022 hafi borist tilkynning frá kæranda þar sem hann hafi sagst koma aftur til starfa á Íslandi þegar orlofi hans með fjölskyldu sinni væri lokið. Samhliða tilkynningu frá kæranda hafi kærandi sent flugfarseðil þar sem fram hafi komið að hann ætti flug aftur til Íslands þann 11. mars 2022.

Með erindi, dags. 17. febrúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið synjað þar sem hann teldist ekki í virkri atvinnuleit á meðan hann væri staddur erlendis. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. 

Þann 23. mars 2022 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda þar sem hann hafi upplýst stofnunina um að hann væri byrjaður að vinna. Kæranda hafi í kjölfarið verið leiðbeint um að skrá sig af atvinnuleysisskrá. Samkvæmt afskráningu kæranda á „Mínum síðum“ stofnunarinnar hafi hann hafið störf þann 14. mars 2022.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Í 13. gr. laganna séu talin upp almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Meðal skilyrða sem atvinnuleitendur þurfi að uppfylla sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. ákvæðisins. Þá segi í c-lið 1. mgr. 13. gr. að það sé skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Á vef Vinnumálastofnunar séu veittar ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda, meðal annars að ekki sé heimilt að dvelja erlendis á sama tíma og umsækjandi þiggi atvinnuleysisbætur. Einnig sé vakin athygli á þessu í umsóknarferli á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar.

Óumdeilt sé að kærandi hafi verið staddur erlendis á sama tíma og hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun í janúar 2022. Í málsgögnum komi fram að kærandi hafi snúið aftur til Íslands þann 11. mars 2022. Líkt og áður hafi komið fram sé eitt af almennum skilyrðum 13. gr. laga nr. 54/2006 fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit og að hann sé staddur hér á landi. Kærandi eigi því ekki rétt á atvinnuleysisbótum á meðan hann sé staddur erlendis.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi, sbr. c-lið ákvæðisins.

Óumdeilt er að kærandi var staddur erlendis þegar hann sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta. Kærandi uppfyllti því ekki almenn skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera tryggður samkvæmt lögunum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. febrúar 2022, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta