Greining tækifæra og ávinnings af friðlýsingu svæða á Austurlandi
Verkefnið er ein aðgerða í Byggðaáætlun 2018-2024 en er einnig hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak í friðlýsingum og að skoðaðir verði möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum en nú er. Verkefnið byggir á greiningu á hagrænum áhrifum friðlýstra svæða sem Hagfræðistofnun Háskólans hefur unnið fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Veitt er 7 milljónum til verkefnisins. Sambærileg verkefni verða unnin í öðrum landshlutum.
Samband sveitarfélaga á Austurlandi leitaði eftir tillögum sveitarfélaga í landshlutanum að svæðum og er næsta skref í verkefninu að velja hvaða svæði verða könnuð. Meðal tillagna sem bárust frá sveitarfélögunum eru Gerpissvæðið, svæði á Úthéraði og svæði í jaðri byggðarinnar á Djúpavogi. Greindar verða mögulegar sviðsmyndir fyrir svæðin til að leggja mat á möguleg hagræn áhrif ef svæðin yrðu friðlýst eða verndun þeirra aukin. Loks verða mótaðar hugmyndir í víðtæku samráði við heimafólk, fyrirtæki og stjórnvöld, um þróun svæðanna og greind tækifæri og mögulegar áskoranir.
„Við bindum miklar vonir við þetta verkefni, bæði á Austurlandi og annars staðar – að það verði lyftistöng fyrir sveitarfélög, fjölgi tækifærum þeirra og möguleikum og efli náttúruvernd í landinu. Þetta er í fyrsta skipti sem fjármagn kemur úr Byggðaáætlun til verkefna af þessum toga og undirstrikar aukna áherslu stjórnvalda á umhverfismál og náttúruvernd,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.