Félags- og barnamálaráðherra styður við starfsemi Stígamóta
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifaði í dag undir samning við Stígamót, en með honum styrkir ráðherra starfsemi Stígamóta um 20 milljónir króna næsta árið til þess að bregðast við auknu álagi í þjónustu samtakanna og draga þar með úr biðtíma eftir þjónustu.
Stígamót hafa undanfarið lagt mikla áherslu á að efla þjónustu og stytta biðtíma eftir viðtali, en eftirspurn eftir þjónustu samtakanna hefur aukist undanfarin misseri vegna mikillar opnunar í umræðu um kynferðisofbeldi. Jafnframt hefur Covid-19 faraldurinn sett strik í reikninginn og aukið enn á þörfina fyrir þjónustu. Styrkurinn gerir samtökunum kleift að ráða tvo nýja ráðgjafa til starfa og þar með stytta bið eftir viðtali.
Stígamót eru ráðgjafar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi. Meginmarkmið samtakanna er að vera staður þar sem konur og karlar, sem hafa upplifað kynferðisofbeldi, geti leitað til og fengið stuðning til að vinna úr afleiðingum ofbeldisins. Boðið er upp á bæði einstaklingsviðtöl og sjálfshjálparhópa. Aðstandendur, svo sem foreldrar, makar og vinir geta einnig fengið stuðning og ráðgjöf hjá Stígamótum. Öll þjónusta Stígamóta er ókeypis
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Ofbeldi eykst oft i samfélaginu í kjölfar erfiðra tímabila, líkt og Covid-19 faraldursins. Það er því mjög mikilvægt að við aukum úrræði fyrir einstaklinga sem verða fyrir hvers kyns ofbeldi og greiðum aðgengi þeirra að þjónustunni. Stígamót hafa um áratugaskeið unnið vandað og mikilvægt starf með þolendum kynferðisofbeldis og stuðningurinn við samtökin er hluti af félagslegum aðgerðapakka þar sem við ætlum að grípa þá hópa sem verða fyrir miklum áhrifum vegna faraldursins.“
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta: „Fólk sem beitt hefur verið kynferðisofbeldi bíður oft í mörg ár með að leita sér hjálpar en það er mikilvægt að geta tekið hratt og vel á móti því þegar það er loks tilbúið að taka skrefið. Við erum gríðarlega þakklát fyrir þennan styrk sem gerir okkur kleift að stytta biðina eftir fyrsta viðtali og mæta fólki þegar það leitar sér hjálpar vegna afleiðinga ofbeldis sem það hefur verið beitt.“