Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2012 Dómsmálaráðuneytið

Íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis hugi að kosningarrétti sínum vegna kosninga á næsta ári

Innanríkisráðuneytið vill vekja athygli íslenskra ríkisborgara sem búið hafa erlendis um tiltekinn tíma á því að huga að því hvort þeir eru á kjörskrá. Þeir sem búið hafa erlendis og fluttu lögheimili sitt fyrir meira en átta árum falla af kjörskrá að þeim tíma liðnum nema þeir sæki sérstaklega um að fá að halda kosningarrétti.

Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eiga íslenskir ríkisborgarar sem flust hafa af landi brott og sest að erlendis kosningarrétt á Íslandi í átta ár frá því þeir fluttu lögheimili sitt, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag. Þeir eru því sjálfkrafa á kjörskrá þann tíma. Að þessum tíma liðnum falla menn af kjörskrá nema sérstaklega sé sótt um að fá að halda kosningarrétti.

Því þurfa þeir, sem vilja vera á kjörskrá, en fluttu af landi brott fyrir 1. desember 2004 og hafa verið búsettir erlendis síðan, að senda umsókn til Þjóðskrár Íslands fyrir 1. desember 2012, til þess að halda kosningarrétti. Kosningarrétturinn gildir þá til 1. desember 2016, en endurnýja þarf hann með nýrri umsókn til Þjóðskrár Íslands eftir 1. desember 2015.

Umsókn skal senda Þjóðskrá Íslands en finna má umsóknareyðublöð á vefsíðu hennar. Eyðublöð fást einnig í sendiráðum Íslands erlendis, sendiræðisskrifstofum, skrifstofum kjörræðismanna og hjá fastanefndum við alþjóðastofnanir.

Einungis þeir sem einhvern tíma hafa átt lögheimili á Íslandi geta átt kosningarrétt hér á landi. Kosningarréttur miðast við 18 ára aldur. Reglur þessar gilda með sama hætti um kjör forseta Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslur en ekki kosningar til sveitarstjórna.

Sé umsókn fullnægjandi verður umsækjandi tekinn á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem hann átti síðast lögheimili á Íslandi samkvæmt þjóðskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta