Ráðherra sveitarstjórnarmála Eistlands heimsækir innanríkisráðherra
Sendinefnd frá innanríkisráðuneyti Eistlands og sveitarstjórnaryfirvöldum landsins er nú í heimsókn á Íslandi en fyrir henni fer innanríkisráðherra Eistlands, Siim Kiisler, ráðherra sveitarstjórnarmála landsins. Auk heimsóknar í innanríkisráðuneytið hefur hópurinn heimsótt Samband íslenskra sveitarfélaga, Alþingi og nokkur sveitarfélög.
Í sendinefndinni eru auk ráðherrans nokkrir sérfræðingar innanríkisráðuneytis Eistlands sem fer með málefni sveitarstjórnarstigsins á sama hátt og hérlendis. Einnig fulltrúar frá fjármálaráðuneyti landsins og frá samtökum sveitarstjórna í landinu. Hópurinn heimsótti innanríkisráðuneytið í gær, mánudag, og ræddi þá við sérfræðinga á sviði sveitarstjórnarmála og síðan aftur í dag og átti þá fund með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra og Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra.
Þá hefur hópurinn átt viðræður við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og á morgun heldur hann í heimsókn til Hveragerðis og Árborgar.