Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2012

Laun forsætisráðherra skert um 5,2 milljónir króna frá hruni

Fyrir viku sló Fréttatíminn upp launahækkunum forsætisráðherra og þingmanna. Tilefnið virtist vera ákvörðun kjararáðs snemma vetrar um að fella úr gildi þá launalækkun sem gilt hafði frá því þremur mánuðum eftir bankahrunið haustið 2008.

Vert er að halda nokkrum staðreyndum til haga í þessu sambandi. Með lagabreytingum í árslok 2008, sem m.a. Jóhanna Sigurðardóttir stóð að lækkaði kjararáð laun ráðherra og þingmanna um allt að 15 prósent.  Þetta þótti eðlilegt og sjálfsagt eins og á stóð eftir bankahrunið, enda tóku allir landsmenn á sig kjaraskerðingu. Í ljósi þróunar á vinnumarkaði og fjárhagsvanda ríkissjóðs vildi ríkisstjórnin taka á sig hluta byrðanna af hruninu enda rétt og skylt að hátt launaðir hópar hjá ríkinu tækju á sig launalækkun líkt og sambærilegir hópar hjá einkafyrirtækjum höfðu gert.

Tilmælum var beint til kjararáðs strax í nóvember 2008 um lækkun launanna. Niðurstaðan varð þó að  Alþingi samþykkti lagabreytingu að tillögu ríkisstjórnarinnar til að ná fram launalækkuninni og skyldi hún vara til ársloka 2009. Þessi launalækkun ráðherra og þingmanna var síðar framlengd að tilhlutan ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og var látin ná til fleiri hópa svo sem forstöðumanna ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana.  Lækkunin var loks afturkölluð 1. október 2011 með nýrri ákvörðun kjararáðs.

Þegar allt tímabilið frá 1. janúar 2009 til 30. september 2011 er skoðað nemur launalækkun forsætisráðherra samtals kr. 5.176.940 á 33 mánuðum.  Nær allt tímabilið nam mánaðarleg skerðing kr. 163.209  eins og rétt var farið með í úttekt Fréttatímans.

Í tvö ár og og fjóra mánuði voru mánaðarlaun forsætisráðherra kr. 935.000 eftir lækkunina sem samþykkt var. Ef lækkunin hefði hins vegar aldrei tekið gildi hefðu mánaðarlaunin verið kr. 1.098.209 allan þann tíma eða frá 1. febrúar 2009 þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra. Með afnámi lækkunarinnar  1. október síðastliðinn og þeim kjarabreytingum sem orðið hafa í samræmi við aðra kjarasamninga eru laun hennar í reynd liðlega 53 þúsund krónum hærri en þau laun sem hún hefði fengið án lækkunarinnar. Hækkunin nemur því um 5 prósentum frá þeirri upphæð.

Ástæða er einnig til að minna á að lögbundin forréttindi alþingismanna og ráðherra til lífeyrisréttinda hafa verið afnumin að undirlagi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Með sanngirni verður því varla annað sagt en að núverandi forsætisráðherra hafi lagt sitt af mörkum til þess að deila áfalli hrunsins á herðar sem flestra. Það er enda í anda jöfnuðar sem er sérstakt leiðarljós núverandi ríkisstjórnar.

Greinin var birt í Fréttatímanum 17. febrúar 2012

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta