Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2012

Skuldir færðar til en ekki færðar niður

„Því miður er það svo að allar tillögur um flatar niðurfærslur, færa ekki skuldir niður heldur færa þær til,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, þegar hún flutti Alþingi skýrslu í dag um mat Hagfræðistofnunar HÍ á tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna um frekari leiðréttingar á skuldum heimilanna.   

„Það þarf svo sem ekki að koma á óvart, enda gufa skuldir ekki upp. Ýmist er verið að færa skuldir yfir  á skattgreiðendur eða á börnin okkar og komandi kynslóðir. Það er skylda þeirra sem vilja fara leið flatrar niðurfærslu lána að sýna svart á hvítu hver á að borga brúsann.  Það er óboðlegt að svara til: við prentum bara peninga.“  

Jóhanna sagði að engu skipti í þessu máli að búa til peningahringekjur í hátt við útrásarvíkinga, svo sem með því  að fela rýrnun eiginfjár Seðlabanka í  eignarhaldsfélagi.  „Sama hversu margar hringferðir um hagkerfið við sendum peningana þá þarf einhver að borga og á endanum eru það yfirleitt skattgreiðendur.“

Jóhanna sagði að þrátt fyrir þetta færi því fjarri að hún eða ríkisstjórnin væru komin á leiðarenda í þessum efnum: „Skuldamál heimilanna verða áfram eitt af stóru málunum á borðum stjórnvalda.“ Fram kom meðal annars að verið er að skoða hvort unnt sé að stíga enn frekari skref í að minnka umfang verðtryggðra lána í fasteignaviðskiptum. Vandi þeirra sem ekki gátu nýtt sér 110 prósenta leiðinna vegna lánsveða er einnig til meðferðar.

„Ef raunhæfar og réttlátar aðgerðir til að létta skuldir heimila standa til boða sem ekki íþyngja skattgreiðendum, skerða ekki kjör lífeyrisþega í nútíð og framtíð og hamla ekki hagvexti í bráð og lengd hljótum við að skoða þær af mikilli alvöru,“ sagði Jóhanna í lok ræðunnar.      

Ræðu forsætisráðherra má finna hér í heild sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta