Hoppa yfir valmynd
1. mars 2012

Aukið samráð um skuldavanda heimilanna

Nýbyggingar
Nýbyggingar

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hyggst fá tvo óháða lögfræðinga til þess að rýna í álit lögmannsstofunnar Lex um lögfræðileg álitaefni vegna dóms Hæstaréttar 15. febrúar síðastliðinn um gengislán. Sú álitsgerð var unnin að ósk Samtaka fjármálafyrirtækja.

Samráðshópi um eftirfylgni dóms Hæstaréttar var komið á fót 22. febrúar síðastliðinn. Í honum eiga sæti fulltrúar efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, sem leiðir starfið, forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands og Samtaka fjármálafyrirtækja.

Samráð verður haft við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, velferðarráðuneytið, embætti umboðsmanns skuldara og talsmann neytenda.

Helstu verkefni hópsins eru að greina dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar síðastliðnum og fara yfir spurningar sem kunna að vakna við greininguna og leggja fram tillögur að viðbrögðum. Einnig er hópnum ætlað að safna saman upplýsingum frá ráðuneytum og stofnunum sem varða meðal annars áhrif dómsins á ríkissjóð, innheimtuaðgerðir, meðferð mála fyrir dómi og fleira. Hópnum er ætlað að tryggja nauðsynlegt upplýsingaflæði milli stjórnsýslunnar og bankakerfisins og meta loks hvort þörf sé lagabreytinga.

Gert er ráð fyrir því að samráðshópurinn skili efnahags- og viðskiptaráðherra greinargerð eigi síðar en 1. apríl næstkomandi. Ráðherranefnd um efnahagsmál verður upplýst vikulega um stöðu vinnunnar. Hið sama á við um ríkisstjórnina sem upplýst verður reglulega um framvindu mála.

Fjármálaeftirlitið hefur einnig kallað eftir upplýsingum frá bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum til þess að geta lagt mat á áhrif dómsins á eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að svör fjármálafyrirtækjanna berist eigi síðar en 15. mars næstkomandi.

Þar sem enn er óljóst hvert fordæmisgildi dómsins verður þykir rétt að gera ráð fyrir mismunandi forsendum sem leiða ýmist til mikilla eða lítilla áhrifa á eiginfjárstöðu bankanna.

Málið rætt á Alþingi

Ætlun ríkisstjórnarinnar er að vanda til verka og leita eftir víðtæku samráði um lausn málsins. Sú afstaða kom skýrt fram í  svörum Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi í dag, 1. mars, við fyrirspurnum Bjarna Benediktssonar, Sjálfstæðisflokki,  og Eygló Harðardóttur, Framsóknarflokki, um gengislánadóm Hæstaréttar og úrvinnsluna í kjölfar hans.

Jóhanna sagði eðlilegt að flýta málinu og skoða yrði lagabreytingar þar að lútandi ef með þyrfti. Farið væri yfir málið á mörgum vígstöðvum meðal annars í ráðherranefnd. Hún taldi að allir væru af vilja gerðir til að flýta úrvinnslu málsins svo sem kostur er. Hún kvaðst hafa nokkrar áhyggjur af innheimtuaðgerðum og taldi rétt að grípa til aðgerða til að milda innheimtuna meðan ekki væri búið að vinna úr gengislánadóminum.

Jóhanna sagði að allir ynnu að sama marki; í ráðherrahópnum væru til skoðunar leiðir sem hægt væri að fara án þess að það bitnaði á skattgreiðendum eða lífeyrissjóðum. Lánsveðin væru til skoðunar en sú vinna hefði tekið lengri tíma en vænst hefði verið. Verðtrygging íbúðalána væri einnig til athugunar og aðrar aðgerðir sem bætt gætu stöðu þeirra sem verst eru settir.

Jóhanna undirstrikaði að allir ættu að setjast sameiginlega yfir vandann og skoða ætti allar hugmyndir, til dæmis þær sem lagðar hafa verið fram af Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar, eða þingmönnum Hreyfingarinnar. Auk þess væri verið að skoða hvernig ráðast megi gegn vandanum í gegn um skattkerfið. En málið yrði að vinna eftir þeirri grundvallarreglu að ekki megi setja allt á hvolf og senda reikninginn inn í framtíðina. Því væri lykilatriði að þeir sem leggja vildu fram hugmyndir að lausn skuldavanda heimilanna yrðu einnig að gera grein fyrir því hvernig standa megi straum af kostnaðinum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta