Hoppa yfir valmynd
2. mars 2012

Jafnandi áhrif fjármagnstekjuskatts

5 krónur
5 krónur

Skatttekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjum hafa dregist verulega saman miðað við það sem var þegar söluhagnaður af hlutabréfum náði mestum hæðum fyrir bankahrunið haustið 2008. Almennt drógust fjármagnstekjur í landinu mjög saman eftir hrunið og tekjur ríkissjóðs af þeim minnkuðu að sama skapi.

Páll Kolbeins, sérfræðingur hjá embætti Ríkisskattstjóra, ritaði grein um niðurstöðu álagningar  í októberhefti Tíundar, fréttablaðs Ríkisskattstjóra, árið 2011. Þar segir Páll að þótt söluhagnaður hafi lækkað umtalsvert milli ára muni enn meira um hversu mjög arður og vextir hafi lækkað. „Tekjur af arði voru nú 70,5% minni og tekjur af vöxtum 48,6% minni en á framtali í fyrra. Samtals lækkuðu þessar tekjur um 67,3 milljarða, arður um rúma 29 og vextir um tæpa 38,3 milljarða. Hér munar helst um vexti og verðbætur af innstæðum sem voru rúmum 39 milljörðum lægri en í fyrra.“

Ýmislegt fleira fróðlegt má lesa úr gögnum RSK um fjármagnstekjur og fjármagnstekjuskatt. Til dæmis vekur athygli að greiðendur fjármagnstekjuskatts voru yfir 180 þúsund árin 2009 og 2010. Lokaniðurstaða framtals árið 2011 leiddi í ljós að greiðendur voru aðeins tæp 47 þúsund og hafði fækkað um tæp 136 þúsund eða hartnær 75 prósent.  Ástæðan er fyrst og fremst sú að núverandi ríkisstjórn innleiddi 100 þúsund króna frítekjumark fyrir einstaklinga og 200 þúsund krónur fyrir hjón á þessum tíma. Breytingin varð til þess að allur almennur en óverulegur sparnaður í formi vaxtatekna bar engan 20 prósenta fjármagnstekjuskatt.  Nærtækt er því að ætla að frítekjumarkið hafi reynst mjög jafnandi aðgerð eftir að það kom til sögunnar, einkum ef engar aðrar fjármagnstekjur koma við sögu hjá einstaklingum eða fjölskyldum, svo sem leigutekjur, söluhagnaður eða arður.

Í opinberri umræðu hefur verið minnst á skattlagningu fjármagnstekna barna. Þar er fyrst og fremst átt við vaxtatekjur barna af innstæðum í bönkum þar sem sparireikningar geta verið mismunandi og sömuleiðis vextir. Í tölfræðilegum gögnum Ríkisskattstjóra kemur fram að vaxtatekjur barna hafi verið liðlega 2,2 milljarðar króna álagningarárið 2009. Þessar tekjur lækkuðu niður í 1,9 milljarða árið 2010 og voru aðeins um 865 milljónir króna þegar niðurstaða álagningar lá fyrir í fyrra. Fjármagnstekjur barna höfðu með öðrum orðum fallið um rúm 54 prósent milli ára.
Frítekjumarkið, lækkandi vaxtatekjur barna (sem og reyndar annarra) og loks stórfelld fækkun greiðenda fjármagnstekjuskatts benda eindregið í þá átt að æ fleiri einstaklingar og heimili séu með öllu laus við fjármagnstekjuskatt. Af því leiðir að hlutfall efnafólks hefur hækkað verulega í hópi þeirra sem enn greiða fjármagnstekjuskatt.

Í lok greinarinnar, sem vitnað var til í upphafi, segir Páll ennfremur: „Fjármagnstekjur halda enn áfram að lækka. Menn geta þó spurt sig hversu eðlilegt ástandið var á þeim tíma þegar þúsundir flykktust til landsins og verðbréf voru seld með ofsagróða eða keypt fyrir lánsfé. Nú eru laun aftur farin að hækka, félagslegar bætur hafa lækkað lítillega og skuldir lækkað. Það er því ekki loku fyrir það skotið að vænta megi gjöfulli ára í náinni framtíð.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta