Eftirtektarverður viðsnúningur
„Útreikningar Hagstofunnar staðfesta þann undraverða viðsnúning sem hér varð á síðasta ári í efnahagslífi Íslands. Þjóðarkakan sem heimilin í landinu og hið opinbera hefur úr að spila stækkaði um 3,1 prósent. Það er rakið til aukinnar fjárfestingar en einnig aukinnar einkaneyslu. Þetta er ríflega 60 prósentum yfir meðalhagvexti OECD-ríkjanna á síðasta ári. Fáar þjóðir innan OECD státa af meiri hagvexti en Ísland,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, um nýjar þjóðhagstölur Hagstofunnar.
„Þetta gerist á sama tíma og öll okkar helstu viðskiptalönd og raunar megnið af þróuðum löndum heims búa við verulega efnahagserfiðleika og jafnvel samdrátt í þjóðarframleiðslu. Sannarlega hefur þetta alþjóðlega ástand haft áhrif hér á landi til hins verra líka og í því ljósi verður árangurinn enn merkilegri. Ísland er sannarlega á réttri leið,“ bætir Jóhanna við.
Samanburðurinn er æði skýr þegar litið er til síðasta ársfjórðungsins í fyrra. Þá var árstíðaleiðréttur hagvöxturinn tæp 2 prósent hér á landi. Á sama tíma var hann að jafnaði tæpt 1 prósent í ESB-löndunum, 0,7 prósent í evruríkjunum, 1,6 prósent í Bandaríkjunum og í Japan var 1 prósents samdráttur síðustu þrjá mánuði ársins. Nefna má að á þessu sama tímabili var hagvöxturinn 1,8 prósent í Noregi, 1,4 prósent í Finnlandi en aðeins 0,7 prósent í Danmörku, eins og fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka.
Svo sem kunnugt er hefur fjárfesting verið í lágmarki undanfarin misseri og ár hér á landi. Hið opinbera hefur neyðst til að draga úr verklegum framkvæmdum meðal annars til þess að geta varið velferðarkerfið gegn áföllum áranna eftir hrun. Samneyslan dróst enn saman, um 0,6% á liðnu ári, og hefur nú dregist saman þrjú ár samfellt. Fjárfesting hins opinbera dróst saman um 17,6 prósent í fyrra.
Þrátt fyrir þetta örlar á aukinni fjárfestingu á almenna markaðnum. Fjárfesting jókst samanlagt um 13,4 prósent á síðasta ári. Aukna fjárfestingu má fyrst og fremst rekja til einkaaðila, aukning á þeirra vegum nam 21 prósenti.
Atvinnuvegafjárfesting jókst um fjórðung í fyrra og fjárfesting í íbúðarhúsnæði jókst um 8,6 prósent. Aukningin í atvinnulífinu er einkum rakin til fjárfestinga í stóriðju- og orkuverum en einnig var fest fé í skipum og flugvélum. Þrátt fyrir þetta hefur fjárfestingin í landinu ekki náð sama stigi og fyrir hrun fjármálakerfisins 2008. Í heildina var fjárfestingin í landinu engu að síður meiri á síðasta ári en ráð var fyrir gert. Það er fyrst og fremst rakið til liðlega 43 prósenta aukningar atvinnuvegafjárfestinga á síðasta ársfjórðungi í fyrra.
Samkvæmt gögnum Hagstofunnar jókst útflutningur í fyrra um 3,2 prósent, en það er lítillega umfram spár. Aukningin er einkum rakin til aukinna tekna af ferðaþjónustu en þær hafa aldrei verið meiri og nam aukningin liðlega 7 prósentum á útfluttri þjónustu.
Innflutningurinn jókst þó enn meira á síðasta ársfjórðungi í fyrra eða um tæp 10 prósent og nam vöxturinn því 6,4 prósentum á öllu árinu.