Allra tjón ef krónan veikist
„Frekari veiking krónunnar yrði til tjóns fyrir fyrir efnahagslífið í landinu, ekki síst heimilin og neytendur,“ segir Steingrímur J. Sigfússon efnahags- og viðskitparáðherra um hert gjaldeyrishöft, sem Alþingi lögfesti síðastliðið mánudagskvöld. „Enn fremur er mikilvægt að tryggja að gjaldeyrir, sem er erlendis, skili sér hingað heim í samræmi við skilaskylduna. Góður gangur er í útflutningsgreinum landsins og því ætti að vera mögulegt að koma í veg fyrir frekari veikingu krónunnar.“
„Gjaldeyrishöftin eru verulega slæm fyrir alla þjóðina og við þurfum að finna leið til að komast út úr þeim. Ein leið er að taka upp annan gjaldmiðil,“ segir Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, um hert gjaldeyrishöft.
Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segir að verði glufum í gjaldeyrishöftunum leyft að grafa um sig geti það leitt til mikils gjaldeyrisútstreymis og gengi krónunar geti lækkað. Hann lítur ekki svo á að lögin, sem Alþingi hefur nú samþykkt, seinki afnámi gjaldeyrishaftanna.
Mikið útstreymi gjaldeyris ógnar ekki síst hag heimilanna. Gengislækkun af þeim sökum gæti aukið tímbundið greiðslubyrði verðtryggða lána þar sem laun fylgja ekki hækkun verðlags. „Líklegt er að greiðslugeta sé sérstaklega viðkvæm fyrir hækkun verðlags þegar eigið fé er lítið eða neikvætt og skuldir verðtryggðar. Skert greiðslugeta skuldara, bæði fyrirtækja og heimila, rýrir mögulega verðmæti eignasafna bankanna og Íbúðalánasjóðs og eykur á almenna óvissu og fjármálaóstöðugleika. Því er mikilvægt að hafa stjórn á því með hvaða hætti útgreiðslur til kröfuhafa úr búum föllnu fjármálafyrirtækjanna fara fram,“ segir í greinargerð með lagafrumvarpinu sem samþykkt var.
Ógnun við stöðugleika
Með umræddum lagabreytingum voru takmarkaðar undanþágur til að greiða út verðbætur eða greiða niður höfuðstól skuldabréfa í gjaldeyri. Frá því gjaldeyrishöftin komu til sögunnar hefur erlendum aðilum verið heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir krónur sem til falla vegna vaxta, verðbóta, arðs og samningsbundinna afborgana og flytja úr landi. Upplýsingar liggja fyrir um að erlendir aðilar hafi stóraukið kaup á jafngreiðslubréfum Íbúðalánasjóðs í þeim tilgangi að nýta sér þessa heimild til að taka út gjaldeyri í krafti hennar. Greiðslur af höfuðstól og verðbætur í svonefndum HFF14 flokki skuldabréfa Íbúðalánasjóðs geta numið allt að 42 milljörðum króna fram til loka gjalddaga í september 2014. Til samanburðar má geta þess að heildarvelta á innlendum gjaldeyrismarkaði á árinu 2011 nam um 77 milljörðum króna.
Í greinargerð með lagafrumvarpinu segir jafnframt orðrétt: „Alvarlegra er þó að til viðbótar hafa ýmsir aðilar gefið út, eða hafa í hyggju að gefa út, skuldabréf með hliðstæðum greiðslum og stutt íbúðabréf. Verði það raunin gæti útstreymi gjaldeyris aukist til muna eða jafnvel margfaldast. Árangur áætlunar um losun gjaldeyrishafta veltur að verulegu leyti á því að bankinn hafi stjórn á flæði fjármagns frá landinu gegnum gjaldeyrismarkaðinn og að ekki verði til glufur sem geta stækkað og stofnað öllu ferlinu í hættu. Verði ekki komið í veg fyrir þetta vandamál gæti það ógnað stöðugleika á innlendum gjaldeyrismarkaði með tilheyrandi afleiðingum fyrir gengisþróun og peningastefnu. Nauðsynlegt er að taka á þessu vandamáli strax með því að láta sömu takmarkanir gilda um afborganir af höfuðstól allra skuldabréfa og afstýra því að truflanir og tafir verði á afléttingu fjármagnshafta.“
Stöðugri króna með stýrðu útstreymi
Þrotabú fjármálafyrirtækja eiga verulegar eignir. Fé sem verður til vegna sölu innlendra eigna og bíður þess að verða ráðstafað til erlendra kröfuhafa myndar erlenda skuld þjóðarbúsins. Nær allir kröfuhafar Landsbanka Íslands eru erlendir en um 80 prósent krafna í þrotabú Glitnis og Kaupþings eru erlendar. Að teknu tilliti til krafna innlendra aðila í erlendar eignir þeirra er hrein gjaldeyrisskuld þrotabúanna um 530 milljarðar króna eða sem nemur 32 prósentum af vergri landsframleiðslu.
Með lagabreytingunum var numin úr gildi heimild sem þrotabúin höfðu til ótakmarkaðrar fjarmagnshreyfingar í innlendum gjaldeyri vegna greiðslu á kröfum. Þannig fær Seðlabanki Íslands svigrúm til þess að hafa meiri stjórn á þessum fjármagnshreyfingum með sértækum undanþágum og hamla þannig gegn frekari gegissigi krónunnar.