Batamerki á vinnumarkaði
Ný vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sýnir að 1.100 færri eru nú án atvinnu en í febrúar 2011. Atvinnuleysi mælist 7,3 prósent nú en var 7,9 prósent vinnuaflsins í febrúar 2011. Þetta er minna atvinnuleysi en verið hefur síðan snemma árs 2009. Þegar ríkisstjórnin tók við var því spáð að atvinnuleysi yrði um 11 prósent. Með margskonar aðgerðum hefur tekist að koma í veg fyrir þá þróun og hefur atvinnuleysið aldrei farið yfir 10 prósent eftir bankahrunið haustið 2008.
Á samdráttarskeiði undanfarinna missera hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir því að gefa atvinnuleitendum tækifæri til þess að setjast á skólabekk en við það fækkar þeim sem annars væru á vinnumarkaði eða í atvinnuleit. „Þetta er góður kostur meðan þrengingarnar eru á vinnumarkaðnum og hvergi hefur það verið talið neikvætt að fólk fjölmenni í nám og sæki sér nýja þekkingu og færni. Allt slíkt er á endanum bæði hagur einstaklingsins og samfélagsins,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Merki um viðsnúning
Gögn Hagstofunnar sýna einnig að þrátt fyrir að störfum fjölgi ekki hratt eru þeir æ fleiri sem eru í fullu starfi um leið og þeim fækkar sem eru í hlutastarfi. „Þetta er vísbending um að vinna sé þrátt fyrir allt meiri en ætla mætti og að atvinna sé að glæðast. Fjöldi fyrirtækja skar niður yfirvinnu og lækkaði starfshlutfall til þess að halda sjó eftir hrunið án þess að segja upp fólki. Nú sjást merki um að þau séu að ná vopnum sínum. Fyrirtækin byrja á því að nýta betur fastráðið fólk og bæta svo vonandi við mannaflann eftir því sem hagvöxturinn glæðist. Hann er reyndar með því mesta sem gerist í Evrópu um þessar mundir og var 3,1 prósent á síðastliðnu ári,“ segir Jóhanna.
Opinberar og hálfopinberar framkvæmdir
Ríkisstjórnin greiðir ekki aðeins fyrir því að atvinnuleitendur geti stundað nám í fjárhagslegu skjóli. Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir umfangsmiklum framkvæmdum og verkefnum af ýmsum toga sem hafa haft jákvæð áhrif á atvinnustigið og á sama tíma staðið vörð um velferðarþjónustuna og þau mikilvægu störf sem þar eru innt af hendi. Af einstökum opinberum framkvæmdum og verkefnum, sem ýmist eru hafin eða er áætlað að hefja innan tíðar, má nefna:
- Nýtt fangelsi 2012 - 2015. Áætl. kostnaður: 2,2 milljarðar króna. Mannaflaþörf: 200 ársverk.
Landspítali – Háskólasjúkrahús. Áætl. kostnaður: 45 milljarðar króna. Mannaflaþörf: 1.420 ársverk til ársins 2015.-+ - Vegaframkvæmdir. 4,5 til 6 milljarðar á ári til ársins 2015, samtals tæpir 20 milljarðar króna. Mannaflaþörf: 550 ársverk.
- Vaðlaheiðargöng 2012 - 2015. Áætl. kostnaður: 11 milljarðar króna. Mannaflaþörf: 300 ársverk.
- Flugvellir 2012 – 2015. 400 til 500 milljónir króna á ári, samtals 1,9 milljarðar króna. Mannaflaþörf: 59 ársverk.
- Vitar, hafnir, sjóvarnir 2012 – 2015. 0,7 til 1 milljarður króna árlega, samtals um 3,3 milljarðar. Mannaflaþörf: 120 ársverk.
- Ný brú yfir Múlakvísl. Ósamið er um bætur úr Viðlagasjóði en brúin eyðilagðist í hamfaraflóði. Kostnaður við framkvæmdir getur numið allt að 1 milljarði króna.
- Félagsstofnun stúdenta - 290 íbúðir. Framkvæmdatími er frá 2011 til 2013. Áætl. kostnaður: 3 – 4 milljarðar króna. Mannaflaþörf: 300 ársverk.
- Hjúkrunarheimili og heilbrigðisstofnanir 2011 til 2014. Framkvæmdir eru í undirbúningi eða lengra komnar í 10 sveitarfélögum og fjármagnaðar með mismunandi hætti. Áætl. heildarkostnaður: 10 til 11 milljarðar króna. Mannaflaþörf: 920 ársverk.
- Framhaldsskólar 2012 – 2014. Mosfellsbær og Menntaskólinn við Sund. Áætl. heildarkostnaður: 2,6 milljarðar króna. Mannaflaþörf: ca. 240 ársverk.
- Ofanflóðavarnir 2012 – 2015. Varnargarðar o.fl. í Neskaupstað, Bolungarvík, á Ísafirði og Patreksfirði. Áætl. heildarkostnaður: 2,7 milljarðar króna. Mannaflaþörf: ca. 200 ársverk.
- Viðhaldsverkefni 2012 – 2015. Kostnaður við viðhald opinberra fasteigna nemur um 2,7 milljörðum króna á þessu ári. Áætl. heildarkostnaður út árið 2015: 8,1 milljarður króna. Mannaflaþörf: 150 ársverk.
- Ísland allt árið – átak til eflingar vetrarferðaþjónustu. Samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila út árið 2013. Áætl. heildarkostnaður: 1,8 milljarðar króna, þar af 900 milljónir frá ríkinu. Mannaflaþörf: 1000 ársverk.
- Nám er vinnandi vegur 2011 -2014 Ríkisstjórnin samþykkti fyrir tæpu ári að öllum umsækjendum um nám í framhaldsskóla að 25 ára aldri, sem uppfylla skilyrði, yrði tryggð skólavist. Einnig yrðu sköpuð ný námstækifæri fyrir allt að 1.000 atvinnuleitendur haustið 2011 og næstu tvö skólaár þar á eftir. Áætl. útgjöld ríkissjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna átaksins nema tæpum 7 milljörðum króna á árunum 2011-2014.
- Allir vinna átakið – 2012. Átakið hefur verið framlengt en á undanförnum árum hefur það skapað hundruð starfa í byggingartengdum iðnaði. Undanfarin tvö ár hefur endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað numið tæpum 8 milljörðum króna. Erfitt er að áætla umfang framkvæmda sem ráðist hefur verið í vegna þessa átaks og hefðu annað hvort ekki orðið eða farið af stað síðar.
- Til vinnu! – Aðgerðir í þágu langtímaatvinnulausra sem hafnar eru og miða að því að tryggja allt að 1.500 atvinnuleitendum störf eða starfstengd úrræði. Sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins standa að átakinu ásamt stjórnvöldum.
- Sumarstörf fyrir námsmenn – Atvinnuleysistryggingasjóður og ríkissjóður hafa sameinast um að skapa 900 sumarstörf fyrir námsmenn, líkt og undanfarin sumur. Atvinnuleysistryggingasjóður mun leggja tæpar 280 milljónir króna til sumarstarfa fyrir námsmenn gegn 100 milljón króna mótframlagi ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að hægt verði að skapa um 900 störf í sumar með þessu móti.
Þá má einnig geta verkefna eins og átaks í þágu ferðaþjónustunnar árið 2010, Inspired by Iceland, en þá lagði ríkið fram 300 milljónir króna gegn jafnháu framlagi ferðaþjónustufyrirtækjanna. Með öðru lagði átakið grunn að því að árið 2011 var metár í ferðaþjónustu. Margvíslegar framkvæmdir eru einnig fyrirhugaðar í ferðaþjónustu. Hæst ber e.t.v. bygging hótels við hlið Hörpu, en hönnun þess mun hefjast á vetri komanda. – Benda má á framlög til skapandi greina eins og íslenskrar kvikmyndagerðar, byggingar Hörpu og fleira mætti telja.
Ótalin eru einnig á annan tug fjárfestingarverkefna sem hafa verið undirrituð eða eru til skoðunar í samræmi við rammalöggjöf um ívilnanir vegna fjárfestinga. Heildarumfang þessara verkefna getur numið um 175 milljörðum króna á árunum 2012-2015. Loks má benda á viðamiklar virkjanaframkvæmdir sem ýmist eru þegar hafnar eða góðar horfur um svo sem Búðarhálsvirkjun, Bjarnaflag og Þeistareykir. Nánar verður fjallað um þessi umfangsmiklu fjárfestingarverkefni síðar.