Hoppa yfir valmynd
30. mars 2012

Mikilvæg stefnumál komin fram til afgreiðslu

Gluggar á Alþingishúsinu
Gluggar á Alþingishúsinu

Ríkisstjórnin hefur að undanförnu samþykkt og lagt fram nokkur mikilvæg stefnumál sín og stjórnarflokkanna. Þau eru ýmist í formi þingsályktunartillagna eða lagafrumvarpa og eru misjafnlega á veg komin í meðförum Alþingis.

Stjórnkerfisbreytingar og fækkun ráðuneyta

Forsætisráðherra lagði í dag fram á Alþingi þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta Í henni er leitað eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaðar breytingar á heitum og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Mestu breytingarnar felast í fækkun ráðuneyta og stækkun þeirra; þau voru 12 í upphafi kjörtímabils en verða 8 þegar breytingarnar verða allar komnar til framkvæmda. Með tilflutningi verkefna verða til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Heiti Iðnaðarráðuneytis og Efnahags- og viðskiptaráðuneytis falla brott og verða verkefni þeirra undir hatti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis annars vegar og fjármála- og efnahagsráðuneytis hins vegar. 

Stjórn fiskveiða og veiðigjald

Þann 26. mars sl. kynntu forsætisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tvö ný frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Frumvörpin eiga að tryggja að nytjastofnar við Ísland séu ævarandi eign þjóðarinnar og að þjóðin fái skerf af afrakstri auðlindarinnar í formi sanngjarns veiðigjalds. 
Markmið frumvarpanna er að stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskistofna við Ísland, að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi, að treysta atvinnu og byggð í landinu, að hámarka þjóðahagslegan virðisauka af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu og loks að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi.
Fyrstu umræðu er nú lokið um frumvörpin og hefur þeim verið vísað til umfjöllunar í atvinnuveganefnd Alþingis.

Rammaáætlun

Iðnaðarráðherra hefur í samráði við umhverfisráðherra lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þetta er fyrsta þingsályktunartillagan sem fram kemur um flokkun hugsanlegra kosta í orkunýtingar-, verndar- og biðflokk á grundvelli laga um rammaáætlun frá í fyrra, en gert er ráð fyrir að Alþingi afgreiði slíkar tillögur eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Megintilgangurinn með nýrri rammaáætlunarskipan er að ákvarðanir um orkunýtingu verði framvegis teknar á grundvelli rannsókna og faglegs samanburðar á margvíslegu nýtingargildi landsvæða þar sem orku er að finna, þar á meðal verndarnýtingar með tilliti til hagsmuna tengdum náttúruvernd, útivist og ferðaþjónustu. Meðal þess sem fram kemur er að virkjanir í neðri hluta Þjórsár hafna um sinn í biðflokki þar eð þörf er talin á frekari rannsóknum.

Þjóðin segir álit sitt á stjórarskrártillögum

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eru sammála um að lyktir stjórnarskrármálsins á Alþingi 29. mars síðastliðinn komi ekki í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs fari fram. Þá náðist ekki samkomulag við þingflokk Sjálfstæðisflokksins um að afgreiða málið innan tilskilins tíma þannig að unnt yrði að bera málið undir þjóðina í ráðgefandi atkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningunum í lok júní næstkomandi.
„Það eru nokkrar leiðir færar til að láta þetta fylgja forsetakosningunum en þá þarf auðvitað að bregðast fljótt við eftir páska. Einnig eru til  aðrar leiðir sem ég vil ekki  tjá mig um núna,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir. „En markmiðið er skýrt; við ætlum að tryggja það að fólk fái að segja álit sitt á stjórnarskránni.“
„Nú bara fara menn yfir stöðuna og skoða hvaða kostir eru vænlegastir,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta