Aukinn jöfnuður mildar áhrif kreppunnar
Þróun í átt til ójafnrar tekjudreifingar á Íslandi árin 1995 til 2007 var fordæmalaus meðal landa sem njóta hagsældar og Íslendingar bera sig saman við.
Þetta segir í nýrri skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands um áhrif fjármálahrunsins á afkomu ólíkra tekjuhópa. Ísland er þar meðal annars borið saman við Bandaríkin en þar hefur ójöfnuður farið vaxandi nokkra síðustu áratugi. Tekjuhæsti tíundi hluti fjölskyldna í Bandaríkjunum hefur frá því um miðja síðustu öld aldrei fengið minna en þriðjung heildarteknanna í sinn hlut. Hlutur þessa hóps fór vaxandi eftir 1980 og var svo komið árið 2007 að hann hafði rétt um helming heildarteknanna.
Á Íslandi var þróunin með öðrum hætti og í stærri skrefum. Árið 1995 var hlutur tekjuhæsta tíunda hlutar þjóðarinnar um 22 prósent af heildartekjunum. Árið 2007 var var hlutdeild þessa hóps orðinn tæplega 40 prósent í heildartekjunum eins og sést vel á meðfylgjandi mynd (1).
Mynd 1. Hlutdeild tekjuhæstu 10% fjölskyldna af heildartekjum í Bandaríkjunum og á Íslandi. Heildartekjur fyrir skatt; allar skattskyldar tekjur meðtaldar.
Í skýrslunni segir að miðað við þennan hraða takt hefði þróunin ekki þurft að vera á sama veg mörg ár til viðbótar til þess að ná sama tekjuójöfnuði og í Bandaríkjunum. Glöggt má sjá (mynd 2) hversu gríðarlega tekjuhæstu hóparnir juku við sig á árunum 1995 til 2007 hér á Íslandi og höfðu þeir algera sérstöðu. Þessi mikla hækkun náði síður eða alls ekki til lág- og millitekjuhópa.
Mynd 2. Tekjur hátekjufólks 1993-2009. Upphæðir fjölskyldutekna á mánuði, á verðlagi ársins 2010. Heildartekjur hjóna og sambúðarfólks fyrir skatt; allar skattskyldar tekjur meðtaldar.
Á báðum myndunum (1 og 2) má sjá hvernig hlutdeild hátekjuhópanna í heildartekjunum lækkaði stórlega í kjölfar fjármálaahrunsins og meira en samsvarandi hópa í Bandaríkjunum. Skýrist það einkum af lækkun fjármagnstekna.
Skattakerfinu beitt til jöfnunar byrða
Í skýrslunni segir að aukin skattbyrði hátekjufólks hafi lækkað hlutdeild þess enn frekar hér á landi eftir fjármálahrunið 2008. Þeirrar þróunar hafi hins vegar ekki gætt í Bandaríkjunum enda hafi hátekjuskattar ekki verið hækkaðir þar með sama hætti og gert var hér á landi eftir hrun. Slík skattlagning var aftur á móti hluti stefnumörkunar núverandi ríkisstjórnar sem miðaði að því að jafna áhrifum efnahagshrunsins niður á heimilin í landinu.
Raunveruleg skattbyrði hátekjufólks var orðin minni hér á landi en í öðrum vestrænum ríkjum síðustu árin fyrir hrun og var hún til að mynda markvert hærri í Bandaríkjunum þrátt fyrir lækkun ríkisstjórnar George W. Bush á sköttum hátekjufólks, eins og fram kemur í skýrslu Þjóðmálastofnunar HÍ. Árið 2005 var raunveruleg skattbyrði tekjuhæsta eins hundraðshluta heimila í Bandaríkjunum rúmlega 30 prósent en aðeins um 13 prósent á Íslandi. Í öðrum OECD ríkjum er skattbyrði þeirra tekjuhæstu oft á bilinu 28 til 50 prósent.
„Það er því ljóst að breytingar á tekjuskattkerfinu á Íslandi á áratugnum fram að hruni fluttu skattbyrði í stórum stíl frá hærri tekjuhópum yfir á lægri tekjuhópa. Það jók ójöfnuð í tekjuskiptingunni svo um munaði. Umskipti urðu frá og með árinu 2007 og sérstaklega eftir hrun, en þá var skattastefnunni breytt að verulegu leyti. Skattbyrði lægri tekjuhópa lækkaði þá á ný og skattbyrði hátekjuhópa urðu aftur svipuð og verið hafði árið 1996 eða fyrr,“ eins og segir í skýrslunni.*
Mynd 3. Skattbyrði ólíkra tekjuhópa 2007 og 2010. Beinir skattar sem % heildartekna í viðkomandi tekjuhópum, eftir álagningu og alla frádrætti. Hjón og sambúðarfólk.
Þriðja myndin (3) sýnir samanburð á skattbyrði árið 2007 og aftur árið 2010 í 10 tekjubilum. Glöggt má sjá að skattbyrði þeirra sem hafa lægri tekjur léttist eftir hrunið. Hins vegar þyngdist hú verulega hjá tekjuhæstu hópunum, einkum þó hjá þeim allra tekjuhæstu svo sem fram kemur á myndinni.
„Skatta- og bótastefnu stjórnvalda var þannig beitt til að draga úr neikvæðum áhrifum kreppunnar á afkomu lægri tekjuhópa eftir hrun, um leið og þyngri byrðar voru lagðar á hátekjuhópa, sem áður nutu óvenju mikilla skattfríðinda í samanburði við önnur OECD-ríki.“
Aðgerðir sem báru árangur
Niðurstaða skýrsluhöfunda um þennan þátt málsins er sú að Ísland hafi að mörgu leyti farið aðrar leiðir í viðbrögðum við kreppunni en flestar vestrænar þjóðir. Í niðurlagi skýrslunnar segir meðal annars orðrétt:
„Hér var stefnan sett á að milda áhrif kreppunnar á afkomu lægri og milli tekjuhópa. Það virðist hafa tekist að umtalsverðu leyti, þó engin heimili fari varhluta af kjaraskerðingum. Á Írlandi, í Bandaríkjunum og Bretlandi, þaðan sem við höfum ágætlega sambærileg gögn, er ljóst að byrðar kreppunnar hafa fallið með mestum þunga á tekjulægri heimilin. Það er öndvert við þróunina á Íslandi.
Þessar sömu þjóðir hafa einnig verið lengur að ná sér upp úr kreppunni. Hagvaxtarhorfur þeirra eru til dæmis verri en Íslands á árinu 2012, samkvæmt helstu spám. Hagvöxtur Íslands á árinu 2011 var einnig með því mesta sem varð í hagsælli ríkjunum.
Í þessum löndum, sem hafa farið öndverða leið við Ísland, hefur einnig gengið verr að draga úr atvinnuleysi. Hið sama á við um þær evrópsku þjóðir sem fóru hvað verst út úr fjármálakreppunni. Þar má nefna Eystrasaltslöndin og sumar þjóðir í Suður og Austur-Evrópu.“
* Tilvitnanir eru allar sóttar í skýrslu Þjóðmálastofnunar um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar, Umfang kreppunnar og afkoma ólíkra tekjuhópa, eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson (2012).