Fundur ríkisstjórnarinnar haldinn á Egilsstöðum
Reglubundinn fundur ríkisstjórnarinnar verður haldinn á Egilsstöðum þriðjudaginn 8. maí næstkomandi. Fundarstaður er Gistihúsið á Egilsstöðum og hefst fundurinn að venju klukkan 09:00. Þetta er fyrsti fundur ríkisstjórnarinnar á Austurlandi, en áður hefur hún haldið fundi utan höfuðborgarinnar, á Ísafirði, Akureyri og í Reykjanesbæ.
Meðal þess sem tekið verður fyrir á fundinum eru byggðamál og málefni tengd Austurlandi.
Að loknum ríkisstjórnarfundinum hitta ráðherrarnir sveitarstjórnarfólk á Austurlandi á sérstökum fundi.
Efni ríkisstjórnarfundarins og fundar ráðherranna með sveitarstjórnarfólkinu verður kynnt blaða- og fréttamönnum á fundarstað klukkan 11:30 jafnframt því sem undirritun samninga fer fram.
Klukkan 13:00 verður haldinn á Reyðarfirði stofnfundur sameinaðra stoðstofnana á Austurlandi (AST), en þær vinna að þróun og eflingu atvinnulífs og samfélags á Austurlandi. Ráðherrar sitja fundinn og mun Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ávarpa fundargesti jafnframt því sem lögð verður fram tillaga að samþykktum AST og fleira.
Klukkan 15:00 síðdegis verður haldið málþing um sameiningu stoðstofnana, sóknaráætlanir landshluta og fleira. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun ávarpa málþingið. Á sama tíma er gert ráð fyrir að aðrir ráðherrar heimsæki fjölmenna vinnustaði á Austurlandi.
Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, sækja loks opinn fund um sjávarútvegsmál í Egilsbúð í Neskaupstað annað kvöld. Gert er ráð fyrir að þingmenn kjördæmisins sæki einnig fundinn.