Góðar horfur á Íslandi að mati OECD
Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, er bjartsýn á horfur í efnahagslífinu hér á landi samkvæmt nýrri hagspá sem stofnunin gaf út í vikunni í tengslum við ársfund stofnunarinnar sem nú stendur yfir í París. Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, situr fundinn fyrir Íslands hönd.
OECD spáir því að hagvöxtur verði 3,1% á árinu sem er viðlíka mikill vöxtur og varð á síðasta ári. Gert er ráð fyrir því að úr vextinum dragi á næsta ári og verði um 2,7%.
Eins og sjá á á meðfylgjandi töflu spáir OECD meiri hagvexti hér á landi á þessu ári en aðrir hafa gert. Næst OECD spánni fer Arionbanki, en hann spáir reyndar meiri hagvexti út árið 2014 en aðrir.
2012 Arion 2,9%, Hagstofa 2,6%, Seðlabanki 2,3%, ASÍ 2,2%, OECD 3,1%
2013 Arion 3,9%, Hagstofa 2,5%, Seðlabanki 2,3%, ASÍ 2,1%, OECD 2,7%
2014 Arion 3,5%, Hagstofa 2,8%, Seðlabanki 2,5%, ASÍ 1,9%, OECD --
Greining Íslandsbanka segir um þetta í umfjöllun sinni í vikunni, að munurinn á fyrri spám og spá OECD byggist fyrst og fremst á ólíkri sýn á fjárfestingar. OECD geri ráð fyrir meiri fjárfestingum á árinu en aðrir. Á það er bent að Hagstofan geri einnig ráð fyrir auknum fjárfestingum á árinu en minni vexti einkaneyslu.
Að mati OECD mun verðbólga hér á landi fara hjaðnandi. Hún verður þó enn yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í lok árs 2013 eða um 4% . Stofnunin gerir ráð fyrir að atvinnuleysi verði komið niður í 5% á þeim tíma. Þetta er samhljóða því sem sett er fram í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var 18. maí síðastliðinn. Þar er gert ráð fyrir að atvinnuleysið verði komið niður í 5,1% í lok næsta árs ef forsendur áætlunarinnar ganga eftir.
OECD telur mikilvægt að íslensk stjórnvöld haldi áfram að fylgja eftir áætlun um aðlögun ríkisfjármála og að lagarammi utan um fjárlagagerð sé styrktur. Auk þess verði að auka peningalegt aðhald jafnt og þétt til að styðja við áætlanir um afnám gjaldeyrishafta.
Óvíða meiri vöxtur
Í nýju fjárfestingaráætluninni er sérstaklega tekið fram að ekki verið hvikað frá markmiðum um jöfnuð í ríkisfjármálum árið 2014 og bent á að auknar fjárfestingar og kraftmeiri efnahagsbati muni styðja þá vegferð.
Greining Íslandsabanka segir orðrétt um nýja hagspá OECD: „Það eru ekki mörg ríki sem munu geta státað að viðlíka vexti og þeim sem OECD spáir íslenska hagkerfinu á þessu ári. Horfurnar í alþjóða hagkerfinu eru enn mikilli óvissu háðar að mati OECD og hagkerfi heimsins eru að koma mjög misjafnlega undan löngum og ströngum vetri. Japan og Bandaríkin virðast vera að ná bata og þá hafa nýmarkaðsríki einnig náð að hrista af sér það versta. Evrópa hefur hinsvegar ekki náð sér á strik ennþá og þar er t.d. atvinnuleysi enn að aukast á meðan vinnumarkaðir í Japan og Bandaríkjunum virðast hafa náð sér. Þannig spáir OECD nú að evrusvæðið muni dragast saman um 0,1% á þessu ári áður en vaxa um 0,9% á því næsta. Bandaríkin munu vaxa um 2,4% á þessu ári og 2,6% á því næsta og í Japan verður hagvöxtur 2% á þessu ári og 1,5% á því næsta. Að meðaltali verður hagvöxtur í öllum ríkjum OECD 1,6% á þessu ári samkvæmt spánni. Af þessu má sjá að horfurnar fyrir íslenska hagkerfið eru mjög góðar um þessar mundir í alþjóðlegu samhengi en fá ríki sem spá OECD tekur til munu vaxa eins mikið á næstu tveimur árum að nýmarkaðsríkjum undanskildum.“