Samgönguáætlun: Jarðgöngum hraðað í samræmi við nýja fjárfestingaáætlun
Í skýrslu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til Alþingis 24. maí sl. um nýja fjárfestingaáætlun segir meðal annars: „Hluta sérstaks veiðigjalds verður varið í fyrsta lagi til samgöngumála. Þar er um að ræða 2,5 milljarða króna árlegt viðbótarframlag til samgönguáætlunar/jarðgangaáætlunar til næstu 10 ára. Þetta skapar svigrúm til að að flýta framkvæmdum við Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng um þrjú ár og í kjölfarið ráðast fyrr en ella í byggingu annarra arðbærra mannvirkja.“
Í samgönguáætlun, sem er til afgreiðslu á Alþingi, sjást nú merki þessarar nýju fjárfestingaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt henni verður árlegt viðbótarframlag til vegamála frá og með árinu 2013 fram til ársins 2022 samtals 2,5 milljarðar króna ár ári. Ennfremur verður varið 2,3 milljörðum króna til að að fjármagna kaup á nýrri ferju til Vestmannaeyja auk framkvæmda við Landeyjahöfn 2013 og 2014. Auknir fjármunir til vegamála verða nýttir til þess að flýta Norðfjarðargöngum um eitt og hálft ár og Dýrafjarðargöngum um tvö og hálft ár. Þannig má gera ráð fyrir að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hefjist á miðju næsta ári. Þá er ráðgert að flýta öðrum samgönguframkvæmdum.
Örvar hagvöxt
Greiningardeild Arionbanka fjallaði nýverið um fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar og lagði mat á áhrif hennar miðað við eigin hagspá. Í Markaðspunktum bankans sagði meðal annars: „Ljóst er að ef áætlunin verður að veruleika, og margfeldisáhrif á fjárfestingu einkaaðila verða eins og gert er ráð fyrir, gæti það haft talsverð áhrif bæði á fjárfestingu á vegum hins opinbera og fjármunamyndun í landinu almennt.“ Meðfylgjandi súlurit greiningardeildar Arionbanka sýnir hver spáin er fram til ársins 2014 með og án fjárfestingaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu hefur áætlunin umtalsverð áhrif á hagvöxtinn að mati bankans:
- 2012 Arion 2,9%, Arion + fjárf.áætl. 2,9%, Hagstofa 2,6%, Seðlabanki 2,3%, ASÍ 2,2%, OECD 3,1%
- 2013 Arion 3,9%, Arion + fjárf.áætl. 4,3%, Hagstofa 2,5%, Seðlabanki 2,3%, ASÍ 2,1%, OECD 2,7%
- 2014 Arion 3,5%, Arion + fjárf.áætl. 4,1%, Hagstofa 2,8%, Seðlabanki 2,5%, ASÍ 1,9%, OECD --
Greiningardeild Arionbanka
Þess má geta að nýlegar greiningar sýna að hagvöxturinn í landinu um þessar mundir er ekki fyrst og fremst borinn uppi af aukinni einkaneyslu, heldur kemur einnig aukin fjárfesting og útflutningur þar við sögu. Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, vék orðum að þessu í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi 29. maí sl. og sagði meðal annars:
„[H]agvöxtur á Íslandi er um þessar mundir einhver sá mesti sem finnst meðal þróaðra hagkerfa. Hann er meiri en í nær öllum löndum Evrópusambandsins. Hann er meðal þess hæsta sem þekkist innan OECD. Hann er meiri en í Bandaríkjunum. Hann er meiri en í Japan. Og hann er meiri en í Noregi.“
Steingrímur sagði ennfremur: „Það er útflutningsstarfsemin og það eru auknar fjárfestingar sem eru í fyrsta og öðru sæti þess sem drífa áfram hagvöxtinn. Einkaneyslan kemur í þriðja sæti. Þannig að allt hefur gengið eftir og allt hefur það reynst rangt, sem betur fer, sem þeir svartsýnu héldu hér fram.“