Stöðugur efnahagsbati
Tölur Hagstofa Íslands um landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi 2012 staðfesta að efnahagsbatinn er stöðugur og heldur áfram. Landsframleiðsla á föstu verðlagi jókst um 2,4% frá 4. ársfjórðungi 2011 til 1. fjórðungs 2012. Hagvöxtur hefur verið jákvæður á 5 síðustu ársfjórðungum eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Birgðir sjávarafurða jukust mikið milli ársfjórðunga og leggja birgðabreytingar mest til hagvaxtarins. Fjármunamyndun dróst hins vegar saman eftir mikinn vöxt á þriðja ársfjórðungi í fyrra.
Hagvöxtur, breyting landsframleiðslu frá sama ársfjórðungi fyrra ár
Athyglisvert er að bera saman hagvöxt hér á landi og annars staðar og er það gert á meðfylgjandi mynd. Hagvöxtur er hvergi meiri en hér á landi meðal þeirra ríkja sem Hagstofan birtir upplýsingar um.
Hagvöxtur í nokkrum löndum. Breyting landsframleiðslu frá 4F 2011 til 1F 2012
Enn skýrari vísbending fæst með því að bera saman landsframleiðslu á föstu verðlagi yfir 12 mánaða tímabil, frá 1. ársfjórðungi 2011 til jafnlengdar 2012. Þá fæst 4,2% hagvöxtur sem bera má saman við nýlega spá Seðlabankans um 2,6% hagvöxt á árinu í heild. Hagvöxturinn hvílir á breiðum grunni eins og meðfylgjandi tafla sýnir. Fjármunamyndun hefur vaxið hratt og skiptir fjármunamyndun atvinnuveganna öllu máli í því efni enda um umtalsverðan samdrátt í fjármunamyndun hins opinbera að ræða.
Ársbreyting landsframleiðslu eftir ársfjórðungum 2011-2012, %
2011 1F | 2011 2F | 2011 3F | 2011 4F | 2012 1F | |
Einkaneysla | 1,8 | 6,3 | 4,0 | 3,9 | 4,2 |
Samneysla | -1,6 | -1,5 | 1,0 | -0,4 | 1,01 |
Fjármunamyndun | 5,5 | 3,2 | 9,6 | 32,6 | 9,3 |
Þ.a. atvinnuvegir | 14,3 | 16,7 | 29,0 | 41,0 | 15,9 |
Birgðabreyting | 2,3 | 0,9 | -0,6 | -0,2 | 0,0 |
Þjóðarútgjöld | 3,8 | 4,8 | 3,0 | 6,8 | 3,9 |
Útflutningur | 4,2 | 0,5 | 6,0 | 2,0 | 4,2 |
Innflutningur | 3,6 | 6,0 | 5,6 | 9,7 | 3,0 |
Landsframleiðsla | 3,8 | 1,8 | 3,8 | 2,7 | 4,5 |
Framlag einstakra þátta til hagvaxtar frá 1. fjórðungi 2011 til jafnlengdar 2012 er sýnt í eftirfarandi mynd. Þar kemur fram að einkaneysla leggur til 2,5% til hagvaxar, samneysla 0,4%, fjármunamyndun 1,2%, útflutningur 2,4%, en á móti rýrir innflutningur hagvöxt um 2%.
Hlutdeild í hagvexti, %
Skýrsla Seðlabankans um fjármálastöðugleika
Seðlabanki Íslands kynnti 6. júní síðastliðinn nýtt mat á fjármálastöðugleika. Þar er meðal annars vikið að eftirfarandi atriðum:
- Hagvöxtur varð um 3 % í fyrra.
- Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 2,9% á árinu.
- Einkaneysla jókst um 4% á árinu.
- Atvinnuvegafjárfesting jókst um 7% á árinu 2011.
- Skuldsetning er enn há.
- Verbólguhorfur hafa versnað.
- Eiginfjárstaða stóru bankanna er sterk.
- Skuldsetning heimila sem hlutfall þjóðarframleiðslu lækkaði um 8% milli ára.
- Skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum fara lækkandi.
- Skuldir fyrirtækja sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu lækkuðu um 30% milli ára.
Lokaorð kynningar Seðlabankans eru þau að innlendur efnahagsbandi haldi áfram. Enn dragi úr skuldsetningu heimila og fyrirtækja en ástandið sé enn viðkvæmt. Í því sambandi er meðal annars vísað til óróleika á evrusvæðinu, fjármagnshaftanna, gengislánadóma og áhættu sem tengist endurfjármögnun, afborgunum og vaxtagreiðslum af erlendum lánum annarra en ríkissjóðs.
Aukinn þorskafli
Hafrannsóknastofnunin hefur kynnt skýrslu sína um ástand nytjastofna og ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Þar eru einnig vísbendingar um auknar útflutningstekjur . Munar þar mestu um að lagt er til að auka þorskkvótann um 19 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári. Miðað við ráðgjöfina fyrir réttu ári er nú lagt til að veiðiheimildir verði auknar í fjölda tegunda eins og ufsa, gullkarfa, grálúðu, löngu og íslenskri sumargotssíld. Aftur á móti er lagt til að dregið verði úr veiðum á ýsu og skötusel svo nokkuð sé nefnt. Ekki eru enn forsendur til að ákvarða afla í ýmsum uppsjávartegundum og verður það gert með haustinu.
Hagur vænkast – minna basl
Enn fleiri jákvæðar vísbendingar er að finna um vöxt og aukna bjartsýni. Capacent kannar til að mynda lífsmat reglulega. Um 29 prósent aðspurðra töldu í nýliðnum mánuði að þeir ættu í basli, en það er lægsta hlutfall sem mælst hefur undanfarin misseri. Þetta speglast einnig í því að æ fleiri segja að hagurinn dafni eða tveir af hverjum þremur, en það er hæsta hlutfall undanfarinna missera. Aðeins 3,6 prósent aðspurðra telja sig búa við þrengingar.