Athugasemd frá forsætisráðherra vegna veiðigjalda
Að gefnu tilefni áréttar forsætisráðherra að það er rangt sem fram hefur komið í fjölmiðlum að fyrirhuguð lög um veiðigjöld muni aðeins gilda í eitt ár og að fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar sé í uppnámi. Þvert á móti munu veiðigjöldin verða stig vaxandi á næstu árum verði fyrirliggjandi lagafrumvarp samþykkt eins og samkomulag um þinglok gerir ráð fyrir. Miðað við óbreytta afkomu sjávarútvegsins má því gera ráð fyrir að arður þjóðarinnar af fiskveiðiauðlindinni verði um 1% af landsframleiðsu næstu árin, eða 40-50 milljarðar á næstu þremur árum eins og áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir.
Með þessari niðurstöðu hafa forsendur fjárlaga, langtímaáætlunar í fjármálum ríkissjóðs og fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar 2013-2015 verið tryggðar hvað varðar tekjur af veiðigjöldum.