Yfirlýsing formanna ríkisstjórnarflokkanna í tilefni af þinglokum
Afgreiðsla frumvarps um veiðigjöld markar þáttaskil í auðlindamálum þjóðarinnar. Með þeim er loksins tryggt að þjóðin fái sanngjarna hlutdeild í umframarðinum af fiskveiðiauðlindinni þegar árferði er gott til sjávarins. Það er alrangt sem fram hefur komið í fjölmiðlum að nýsamþykkt lög um veiðigjöld gildi aðeins í eitt ár og að fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar sé í uppnámi. Þvert á móti munu veiðigjöldin verða stigvaxandi á næstu árum að óbreyttum lögum. Miðað við að afkoma sjávarútvegsins haldist áfram góð má gera ráð fyrir að arður þjóðarinnar af fiskveiðiauðlindinni verði um 1% af landsframleiðsu næstu árin, eða 40-50 milljarðar á næstu þremur árum eins og áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir.
Með þessari niðurstöðu hafa forsendur fjárlaga, langtímaáætlunar í fjármálum ríkissjóðs og sá hluti fjárfestingaáætlunar ríkisstjórnarinnar árin 2013-2015, þar sem horft var til tekna af sérstöku veiðigjaldi, verið tryggðar.
Lögfesting veiðigjalda nú gerir stjórnvöldum því kleift að hefja kröftuga uppbyggingu í samræmi við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar með er ljóst að hægt verður að ráðast í mikilvægar samgöngubætur á landsbyggðinni svo sem Norðfjarðargöng á næsta ári. Í beinu framhaldi af þeim hefst gerð Dýrafjarðarganga og munu 2.500 milljónir renna aukalega til samgöngumála á grundvelli fjárfestingaáætlunarinnar á næstu árum. Þar er einnig gert ráð fyrir nýjum Herjólfi, auknu fé í tengivegi o.fl. Hinn meginþáttur fjárfestingaáætlunarinnar, sem tekjum af veiðigjaldi er ætlað að standa undir, eru stóraukin framlög til rannsóknasjóða og sóknaráætlana landshluta.
Í heild er gert ráð fyrir að fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar muni skapa um 4.000 bein störf og um 7.000 afleidd störf, auka hagvöxt og draga umtalsvert úr atvinnuleysi. Framvinda hins hluta fjárfestingaáætlunarinnar er þó háð því hversu hratt arðgreiðslur og sala á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum skila sér.
Á yfirstandandi þingi voru afgreidd hátt í 150 þingmál. Þar má nefna ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands, staðfest fækkun ráðuneyta úr 12 í 8 á kjörtímabilinu, þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá, stuðningur við sjálfstæði Palestínu, þingsályktanir um grænt hagkerfi, stefnumörkun um erlendar fjárfestingar, samgönguáætlun, lyfjalög, barnalög, ný heilbrigðislög auk margra annarra merkra mála.
Langvinnt málþóf og óbilgirni stjórnarandstöðunnar, minnihlutans á Alþingi, gerði hins vegar að verkum að óumflýjanlegt varð að fresta afgreiðslu allmargra mála um sinn. Slíkt er umhugsunarefni frá sjónarhóli grundvallar leikreglna lýðræðis- og þingræðis, en breytir engu um ásetning stjórnarflokkanna að leiða þau mál einnig til lykta. Þar má nefna frumvarp um stjórn fiskveiða, rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða og rannsókn á einkavæðingu bankanna. Vissulega þurfa bæði ríkisstjórn og Alþingi að betrumbæta verklag sitt og jafna vinnuálag innan þingtímans. Á hitt ber að líta að aðstæður hafa verið krefjandi og verkefnin ærin á leið Íslands til endurreisnar sem nú er sem betur fer komin vel á veg.
Jóhanna Sigurðardóttir
Steingrímur J. Sigfússon