Hoppa yfir valmynd
9. mars 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 83/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 83/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110049

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. nóvember 2019 kærði maður sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. nóvember 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 8. október 2018. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 24. júní 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. nóvember 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 26. nóvember 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 10. desember 2019 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun ÚtlendingastofnunarÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu að verða fórnarlamb heiðursmorðs í heimaríki.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann sé fæddur og uppalinn í [...]. Um ástæður flótta hafi kæranda hafi kærandi greint frá því að hann hafi orðið ástfanginn af konu sem hann hafi kynnst í snyrtivöruverslun sem hann hafi átt. Þau hafi viljað gifta sig en þar sem þau hafi tilheyrt mismunandi trú, [...], hafi þeim verið það óheimilt. Þá hafi fjölskylda hennar ekki samþykkt að kærandi yrði hluti af fjölskyldu þeirra en faðir hennar sé valdamikill maður og frændi hennar háttsettur innan lögreglunnar. Þrátt fyrir það hafi þau ákveðið að láta gefa sig saman í dómsal þar sem ekki yrði spurt um trú þeirra. Á leið þeirra í dómsal hafi bróðir konunnar skotið kæranda þrívegis í handlegg, fótlegg og búk og hafi því ekkert orðið af ætluðu brúðkaupi. Kærandi hafi farið á spítala í fylgd föður síns og lagt á flótta daginn eftir skotárásina, fyrst innanlands, [...], og svo frá landinu.

Kærandi greinir frá því að á meðan hann hafi verið í [...] hafi faðir hans leitað til yfirvalda og lögreglunnar í [...] en honum hafi ekki verið veitt nein aðstoð þrátt fyrir að hann hafi borgað lögreglunni. Hafi það verið vegna afskipta framangreinds háttsetts frænda konunnar sem geti, stöðu sinnar vegna, komist að því hvar kærandi er staddur. Í kjölfarið hafi faðir kæranda reynt að koma honum til [...] en kæranda hafi verið meinað um vegabréfsáritun vegna [...] sem hann hafi ekki fengið fullnægjandi læknisþjónustu vegna í [...]. Þá greinir kærandi frá því að foreldrar hans hafi reynt að miðla málum en án árangurs. Fjölskylda konunnar hafi tjáð þeim að ef kærandi stígi fæti aftur í [...] yrði hann eða fjölskyldumeðlimir hans drepnir. Þetta hafi tekið mikið á móður kæranda og hafi hún látist fyrir nokkrum mánuðum síðan vegna álags og hás blóðþrýstings.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki hans sem og öryggisástand landsins. Kveður kærandi að almennt öryggisástand þar í landi sé afar ótryggt, m.a. vegna árása og ofbeldis af hálfu hryðjuverkahópa. Heimildir beri með sér að yfirvöld, m.a. lögregluyfirvöld, beiti pyndingum gegn borgurum landsins í skjóli refsileysis. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telur styðja mál sitt.

Í greinargerð er því haldið fram að heiðurstengdir glæpir séu rótgrónir í [...]. Í því sambandi vísar kærandi til fjölda skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2018. Þar komi fram að samfélagið í [...] stýri að mestu leyti makavali einstaklinga og að fjölmörg dæmi séu um að fjölskyldumeðlimir myrði bæði kvenmenn og karlmenn vegna ástarsambanda sem séu ekki fyrirfram ákveðin af fjölskyldum þeirra. Eigi bæði kyn því á hættu að vera tekin af lífi brjóti þau gegn boðum samfélagsins í þessum efnum. Minnihluti heiðursglæpa sé tilkynntur til yfirvalda en aðgerðasinnar telji að um þúsund einstaklingar séu teknir af lífi á ári hverju vegna heiðursdeilna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi yfirvöldum ekki tekist að koma í veg fyrir heiðursglæpi, [...]. Þá blandi lögregluyfirvöld og dómstólar sér oft á tíðum ekki inn í heimilisofbeldismál þar sem talið sé að slík mál skuli leyst innan veggja heimilisins. Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna aðildar sinnar að sérstökum þjóðfélagshópi, sbr. d- lið 3. mgr. 38. gr. laganna. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé þolandi heiðursglæps í heimaríki. Tengdafjölskylda hans hafi þrívegis skotið hann og hótað honum og fjölskyldu hans lífláti. Hafi það verið vegna þess að kærandi og unnusta hans hafi, með sambandi sínu og tilraun til hjónabands, farið gegn trú þeirra beggja og þannig varpað rýrð á heiður tengdafjölskyldu kæranda. Kærandi tilheyri því hópi einstaklinga sem hafi, eða séu taldir hafa, tekið þátt í athæfi sem sé fordæmt af samfélaginu og verði ekki tekið til baka. Hafi þessi hópur einstaklinga ástæðu til að óttast heiðursmorð eða aðra heiðursglæpi vegna umrædds athæfis. Þá vísar kærandi til ákvæða a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga um að ekki sé raunhæft að leita ásjár yfirvalda, enda séu það m.a. yfirvöld sjálf sem taki óbeint þátt í ofsóknum á hendur þeim þjóðfélagshópi sem kærandi tilheyrir. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara er gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð kæranda heldur hann því fram að hann eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum í [...]. Almennt öryggisástand í [...] sé mjög ótryggt og gríðarlegt mannfall sé ár hvert vegna árása af hálfu öryggissveita ríkisins og hryðjuverkasamtaka. Þá beiti yfirvöld borgara sína pyndingum og brjóti þannig á mannréttindum þeirra. Einnig telur kærandi, í ljósi þess hve mikil sambönd tengdafjölskylda hans hafi, að hann geti ekki leitað aðstoðar [...] yfirvalda.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Krafan byggist í fyrsta lagi á því að hann geti ekki, með hliðsjón af því sem hefur verið rakið að framan, treyst á vernd yfirvalda vegna þeirrar hættu sem hann er í vegna sambands hans við unnustu sína. Í öðru lagi byggist krafan á því að kæranda bíði erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki þar sem hann standi frammi fyrir félagslegri útskúfun vegna ágreinings síns og heiðursdeilu. Við það mat telur kærandi að taka þurfi sérstakt tillit til þess að faðir unnustu hans og frændi hennar hafi, sem háttsettir menn innan lögreglunnar í [...], getu til þess að nýta sér sambönd sín meðal yfirvalda og annarra aðila eftir þörfum. Í þriðja lagi byggist krafan á því að kærandi hafi ríka þörf fyrir vernd af heilbrigðisástæðum. Líkt og komi fram í framlögðum heilsufarsgögnum glími kærandi við [...]. Þar sem hann hafi ekki fengið fullnægjandi læknisaðstoð í heimaríki vegna framangreinds þurfi hann á viðeigandi heilbrigðisaðstoð að halda. Í ljósi framangreinds telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í málinu. Fyrir hið fyrsta gerir kærandi athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar um sönnunarfærslu í máli hans. Annars vegar mótmælir kærandi því að hann hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings málsástæðum sínum. Þau myndskeið sem hann hafi lagt fram sýni fram á að heiðursmorð, sem séu sambærileg máli hans, eigi sér stað og eigi borgarar erfitt með að leita aðstoðar vegna vandamála sinna. Hins vegar telur kærandi athyglisvert að stofnunin telji meiri líkur á því að hann búi yfir, eða geti orðið sér úti um, gögn sem leggi grunn að málsástæðum hans vegna þess að langur tími hafi liðið frá því að hinir meintu atburðir hafi átt sér stað. Í öðru lagi mótmælir kærandi því að frásögn hans í viðtölum hjá stofnuninni hafi verið óskýr og ónákvæm. Þá gerir kærandi athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar um þróun heiðursmorða í [...]. Með vísan til landaupplýsinga telur kærandi að heiðurstengdir glæpir og heiðursmorð tíðkist enn í miklum mæli í heimahéraði sínu, [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga skal viðtal við umsækjanda um alþjóðlega vernd hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geta haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist. Í tengslum við umsókn kæranda um alþjóðlega vernd voru tekin tvö viðtöl við kæranda hjá Útlendingastofnun, þ.e. þjónustuviðtal dags. 15. október 2018 og efnisviðtal dags. 24. júní 2019. Í viðtölunum var kærandi ekki spurður út í veigamikil atriði í frásögn hans er vörðuðu ástæðu flótta frá heimaríki, þ. á m. tímasetningar atburða, nöfn meintra ofsóknaraðila og stöðu þeirra innan yfirvalda í [...]. Mikilvægt sé að slíkar upplýsingar liggi fyrir við ákvörðunartöku og er sú framkvæmd að mati kærunefndar í samræmi við 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga. Með tilliti til heildarmats í máli kæranda er ekki ljóst að ítarlegra viðtal þar sem greinagóðar upplýsingar um ástæðu flótta hans frá heimaríki hefðu komið fram hafi ekki getað haft áhrif á niðurstöðu í máli hans. Er það mat kærunefndar að með þessum annmörkum á málsmeðferð kærenda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á máli hans. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kærenda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                                             Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta