Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 152/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 152/2023

Miðvikudaginn 15. nóvember 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 16. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. desember 2022 um að fyrri endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021 skyldi standa óbreyttur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 1.536.352 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. október 2022. Kærandi andmælti niðurstöðunni með bréfi, dags. 7. nóvember 2022, og með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 30. desember 2022, var kæranda tilkynnt um að fyrri útreikningur skyldi standa óbreyttur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. mars 2023. Með bréfi, dags. 22. mars 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst 5. maí 2023 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. maí 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda í tölvupósti 18. maí 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. maí 2023. Með tölvupósti 16. júní 2023 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir nánari skýringum frá Tryggingastofnun á greiðslum kæranda frá Svíþjóð. Með bréfi, dags. 22. júní 2023, óskaði Tryggingastofnun eftir að málinu yrði vísað frá úrskurðarnefndinni. Með bréfi, dags. 27. júní 2023 óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs Tryggingastofnunar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 7. júlí 2023.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að árið 2003 hafi hann hafi flutt til Svíþjóðar og hafi þá tapað öllum félagslegum bótum frá Tryggingstofnun sem hafi verið um það bil helmingar bóta hans á Íslandi. Kærandi hafi reynt að fá hjálp frá Tryggingastofnun ríkisins til að fá þessar bætur greiddar í Svíþjóð en hann hafi fengið þau svör að bætur hans í Svíþjóð kæmu stofnuninni ekkert við. Samkvæmt lögum sem hafi verið í gildi á þessum tíma hafi þetta verið rangt hjá stofnuninni. Tryggingastofnun eigi lögum samkvæmt að hjálpa fólki að fá greidd sín réttindi.

Í stuttu máli sagt hafi kærandi ekki fengið greiddar þær bætur sem hann hafi misst vegna flutningsins frá Íslandi til Svíþjóðar fyrr en árið 2021. Á árinu 2021 hafi Evrópudómstóllinn skipað Svíþjóð að uppreikna vangreiddar bætur. Samkvæmt útreikningi Pensionsmyndigheten hafi þetta eingöngu verið gert vegna áranna 2017 til 2021 sem sé einungis hluti af þeim 20 árum sem liðin séu. Eftir að kærandi hafi sent Tryggingastofnun skattskýrslu vegna ársins 2021 hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi fengið greiddar of háar bætur á árinu 2021 og hafi tilkynnt að kröfunni hafi verið dreift á 36 mánuði.

Kærandi hafi bréflega upplýst Tryggingastofnun um að þetta hafi verið bætur greiddar frá Pensionsmyndigheten vegna fimm síðustu ára sem hafi verið greiddar vegna tilmæla Evrópudómstólsins. Tryggingastofnun hafi samt sem áður dregið af honum bætur sem Evrópudómstóllinn hafi fyrirskipað.

Til að kæra málið til Evrópudómstólsins þurfi kærandi að vera búinn að kæra málið á Íslandi. Einnig sé kært að kærandi hafi ekki fengið greiddar bætur allan tímann. Kærandi hafi þegar haft samband við umboðsmann Alþingis sem hafi bent honum á að úrskurðarnefnd velferðarmála þurfi að úrskurða í málinu.

Kærandi spyr hvort Ísland sé ekki í samstarfi við Evrópudómstólinn eða hvort Tryggingastofnun setji sig upp á móti dómstólnum. Tryggingastofnun hafi fengið útreikninga frá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð.

Í athugasemdum kæranda frá 18. maí 2023 kemur fram að Tryggingastofnun hafi tekið ranga afstöðu í málinu. Í EU samningnum sé fjallað um tvísköttun og áunnin réttindi fólks sem flytji milli landa. Þar komi skýrt fram að lífeyrisréttindi í einu landi eigi ekki að skerða lífeyrisrétt í öðru landi. Tryggingastofnun hafi því ekki rétt til að skerða bætur kæranda vegna bóta sem hann fái í Svíþjóð.

Kærandi muni halda áfram með málið alla leið til Evrópudómstólsins. Þess vegna sendi hann öllum sem málið varði bréf sem lið í að kæran verði tekin til afgreiðslu.

Í athugasemdum kæranda frá 7. júlí 2023 kemur meðal annars fram að Tryggingastofnun verði að skilja að stofnunin geti ekki skattlagt greiðslur sem þegar hafi verið skattlagðar í Svíþjóð.

 

 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2021.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt. III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Málavextir séu þeir að kæranda hafi verið tilkynnt um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2021 með bréfi, dags. 27. október 2022. Kærandi hafi andmælt endurreikningnum með bréfi, dags. 7. nóvember 2022, sem hafi verið svarað með bréfi, dags. 30. desember 2022, um að endurreikningur stæði óbreyttur.

Á árinu 2021 hafi kærandi verið með ellilífeyrisgreiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 1.536.352 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2022 vegna tekjuársins 2021 og við upplýsingar um erlendar tekjur árið 2021, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega ásamt upplýsingum frá erlendum stofnunum um tekjur erlendis, ef um þær sé að ræða.

Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun þann 28. janúar 2021. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að á árinu 2021 væri kærandi með íslenskan lífeyrissjóð að fjárhæð 477.199 kr. og erlendan lífeyrissjóð að fjárhæð 28.344 SEK ásamt 24 kr. í vexti og verðbætur. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi honum verið greitt eftir henni allt árið 2021.

Við bótauppgjör ársins 2021 hafi komið í ljós að kærandi hafði verið með samtals íslenskar og erlendar lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 4.906.707 kr. og 3 kr. í vexti og verðbætur. Tekjuáætlun Tryggingastofnunar hafi gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðstekjur kæranda, íslenskar og erlendar, myndu samtals vera 923.419 kr.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu 2.999.694 kr. en hefði átt að fá greitt 1.127.552 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 1.536.352 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi sé ósáttur við að uppsafnaðar bætur sem Pensionsmyndigheten í Svíþjóð hafi greitt honum á árinu 2021 skerði bætur frá Tryggingastofnun á árinu 2021 þar sem um hafi verið að ræða bætur allt aftur til ársins 2017.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum, eða öðrum tekjum eins og erlendum tekjum sem upplýsingar berist um erlendis frá.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2021. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglur og góða stjórnsýsluhætti.

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. júní 2023 segir að eftir að greinargerð hafi verið send í málinu og eftir ábendingar frá úrskurðarnefndinni telji stofnunin að ekki liggi fyrir skýrar upplýsingar um tekjur kæranda frá Svíþjóð og áhrif þeirra á bætur kæranda frá stofnuninni. Tryggingastofnun telji því að ástæða sé til að rannsaka málið nánar og óska eftir skýrari upplýsingum frá Svíþjóð um lífeyristekjur kæranda.

Þar sem Tryggingastofnun hafi nú tekið málið upp að nýju til nánari rannsóknar óski stofnunin eftir að úrskurðarnefndin vísi fyrirliggjandi kæru frá.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2021. Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur í 7. gr. og falla lífeyrissjóðstekjur þar undir, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna.

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Í þágildandi 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar segir að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður. Ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.  Ákvæði þágildandi 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar hljóðar svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatryggingaog lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert ellilífeyri. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki ellilífeyri og sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samning við. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Svíþjóð er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Svíþjóð, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki ellilífeyri. Af hinni kærðu ákvörðun verður ráðið að Tryggingastofnun hafi litið á greiðslur kæranda frá Svíþjóð sem greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum við endurreikninginn.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af gögnum málsins að kærandi fær greiddan lífeyri frá Svíþjóð. Aftur á móti er ekki skýrt af gögnum málsins hvers eðlis sá lífeyrir sé. Úrskurðarnefndin telur því að ekki liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar, sbr. rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til að meta hvort umræddur lífeyrir sé sambærilegur bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar eða greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Tryggingastofnun virðist vera sama sinnis enda greindi stofnunin frá því undir rekstri málsins að stofnunin teldi ástæðu til að rannsaka málið nánar og óska eftir skýrari upplýsingum frá Svíþjóð um lífeyristekjur kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin rétt að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar til rannsóknar á eðli lífeyrisgreiðslna kæranda frá Svíþjóð.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2021 er felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2021, er felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta