Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 300/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 300/2019

Þriðjudaginn 5. nóvember 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. júlí 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júlí 2019, um að innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 30. október 2018. Með bréfi, dags. 10. maí 2019, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hann hefði verið staddur erlendis í febrúar 2019 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt um dvöl sína erlendis til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Skýringar og farseðlar bárust Vinnumálastofnun samdægurs þar sem fram kom að kærandi hefði verið í tilfallandi vinnu erlendis. Þann 1. júlí 2019 var kæranda tilkynnt ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna orlofs 2. febrúar til 9. mars og 29. mars til 1. apríl 2019. Heildarskuld kæranda næmi 243.363 kr. og yrði innheimt með skuldajöfnuði samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. júlí 2019. Með bréfi, dags. 17. júlí 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 16. ágúst 2019, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda við greinargerð Vinnumálastofnunar bárust 29. ágúst 2019 og með bréfi, dagsettu sama dag, voru athugasemdirnar sendar Vinnumálastofnun til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og skerðing á bótum vegna tilfallandi starfs sem hafi farið fram erlendis sé reiknuð á sama hátt og ef það hefði farið fram á Íslandi.

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið atvinnuleitandi á skrá hjá Vinnumálastofnun frá 1. nóvember 2018 og fengið tilfallandi vinnu í fimm vikur í febrúar og mars 2019 sem fararstjóri B. Eðli málsins samkvæmt hafi starfið kallað á að kærandi dveldi erlendis þann tíma. Þá hafi kærandi einnig verið fararstjóri í helgarferð til C í mars 2019. Starf fararstjóra feli ekki í sér neinn sérstakan vinnutíma en hann hafi ákveðnar starfsskyldur, auk þess að vera á bakvakt allan sólarhringinn, alla daga vikunnar þann tíma sem ferðin vari. Fararstjóri þurfi að vera með í för í þeirri ferð sem verið sé að fara í og dvelji þess vegna erlendis þann tíma. Ferðirnar hafi verið farnar á vegum íslenskrar ferðaskrifstofu með farþega frá Íslandi og laun hafi verið greidd í íslenskum krónum og staðin hafi verið skil á tilkynningum og greiðslum til íslenskra skattyfirvalda. Kærandi hafi sjálfur tilkynnt til Vinnumálastofnunar um þessa tilfallandi vinnu og dvölina erlendis að fyrra bragði og til að leiðrétta mistök sem hann hafi gert við upphaflega skráningu starfsins og ferðarinnar. Ekki sé ágreiningur um að kærandi hafi gert þetta á viðunandi máta, enda hafi Vinnumálastofnun ekki látið kæranda sæta neinum viðurlögum vegna þeirra hnökra sem hefðu verið á tilkynningunni um starfið og ferðina.

Samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 1. júlí sé ekki hægt að reikna tekjur af tilfallandi störfum við fararstjórn á sama hátt og vegna annarra tilfallandi starfa. Þar sem starfið hafi farið fram erlendis verði Vinnumálastofnun að reikna skerðingu vegna þessara tilfallandi starfa á annan hátt, sem feli í sér lægri heildargreiðslur til kæranda en áður hefðu verið reiknaðar. Vinnumálastofnun hafi vísað til 18. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sem geri fortakslausa kröfu um að sá sem eigi rétt til atvinnuleysisbóta sé búsettur og staddur hér á landi. Fram komi í ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið „skráður í orlof“ og að hann hafi „fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna orlofs á tímabilinu 2. febrúar til 9. mars og 29. mars til 1. apríl 2019.“

Kærandi kærir ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 1. júlí 2019 í fyrsta lagi á þeim grundvelli að ákvörðunin eigi sér ekki stoð í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðunin byggi á því að kærandi hafi verið í „orlofi“ á þeim tíma sem um ræði og hafi því ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta á þeim tíma. Þess vegna skuli skerðing ekki reiknuð með þeim hætti eins og að ofan greini heldur skuli litið þannig á að kærandi hafi engan rétt haft til atvinnuleysisbóta vegna þess að hann hafi verið í orlofi. Ekki sé getið um það í lögunum að atvinnuleitendur geti farið í orlof frá atvinnuleit hvað þá að Vinnumálastofnun geti einhliða skráð atvinnuleitanda í orlof. Það sé vægast sagt merki um rökleysu í ákvörðun Vinnumálastofnunar að til þess að geta tjáð og framfylgt ákvörðuninni þurfi Vinnumálastofnun að úrskurða að atvinnuleitandi sé í orlofi erlendis og ekki á öðrum tíma en þegar hann hafi óumdeilt verið í vinnu. Þetta orlof sem  atvinnuleitandi sé settur í með þessum hætti eigi margt skylt við úrræði sem  Vinnumálastofnun hafi til viðurlaga og biðtíma sem sérstaklega og ítarlega sé fjallað um í lögunum, öfugt við úrræðið að skrá atvinnuleitanda í orlof. Það leiði af 36. gr. laga nr. 54/2006 að það skuli fara með útreikning á tekjum þeirra sem sæta viðurlögum og biðtíma eins og þeir væru með óskertar bætur. Það skjóti því skökku við að þeir sem séu í „orlofi“ sæti meiri skerðingum vegna tekna af tilfallandi vinnu en þeir sem sæti beinum refsingum vegna þess að þeir hafi ekki fylgt lögum og reglum um atvinnuleysisbætur.

Í öðru lagi sé um að ræða brot á jafnræðisreglu. Starfið sem um ræði sé einungis að einu leyti frábrugðið þeim störfum sem farið sé með á allt annan hátt, það er að segja, að það fari fram erlendis. Jafnræði eigi að vera á milli fólks óháð því í hvaða landi það sé statt nema ríkar málefnalegar ástæður komi til. Starf sem að öllu leyti væri eins, en unnið á Íslandi, myndi ekki hafa leitt til sömu skerðinga.

Í þriðja lagi vinni ákvörðunin gegn tilgangi Vinnumálastofnunnar og viðkomandi laga. Kærandi vísar til þess að á heimasíðu Vinnumálastofnunar standi að markmið laganna sé að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Þáttur í að koma fólki aftur á vinnumarkað sé að hvetja atvinnuleitendur til að taka þátt í atvinnulífinu hvort sem um sé að ræða tilfallandi störf eða langvarandi. Að letja atvinnuleitendur sérstaklega til að ganga til íslenskra starfa sem unnin séu erlendis umfram önnur störf geti ekki verið hluti af verksviði og tilgangi Vinnumálastofnunar. Settar hafi verið skorður við því að einstaklingar í atvinnuleit dveljist erlendis, meðal annars á þeim forsendum að þeir sem ekki séu staddir á Íslandi geti ekki verið í virkri atvinnuleit. Það megi vel vera að þetta hafi einhvern tímann verið rétt. Á undanförnum árum hafi bæði samskiptaaðferðir við atvinnuleit og tíðar samgöngur á milli landa gert mælikvarða um hvar fólk dvelst mjög slæman. Ef sama starf og kærandi gegndi hefði verið á miðjum Vatnajökli, utan samskiptakerfa, hefðu möguleikar á virkri atvinnuleit verið miklu mun minni en hjá kæranda á meðan á dvöl hans á B og á C hafi staðið, bæði með tilliti til rafrænna umsókna og viðtala í gegnum fjarfundabúnað. Önnur rök fyrir því að mismuna fólki á grundvelli dvalar í útlöndum séu þau að dvöl erlendis geri fólki erfiðara um vik að taka vinnu sem bjóðist með skömmum fyrirvara með vísan til athugasemda með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar og laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þessi rök eigi alls ekki við í því tilfelli sem hér um ræði vegna þess að kærandi hafi verið í fullri vinnu og á bakvakt allan sólarhringinn allan tímann sem hann hafi dvalið erlendis. Hann hefði því ekki undir neinum kringumstæðum hlaupið frá þeirri vinnu til annarrar á þessu tímabili. Að auki séu þessi rök almennt léttvæg þar sem það geti verið bæði ódýrara og fljótlegra að koma sér frá útlöndum til Íslands en á milli staða á Íslandi. Skerðing á ferðafrelsi atvinnuleitanda með svo veikum rökum sem ofan greini sé mjög vafasöm almennt. Ferðafrelsi sé hluti af almennum mannréttindum og takmarkanir á því hljóti að vera sett ef ríkar ástæður og almannahagsmunir séu fyrir því. Atvinnuleitendur séu margir að ganga í gegnum erfiða tíma, niðurlægingu og þjáningar. Viðvarandi grunsemdir um svik sem atvinnuleitendur verði að afsanna með reglulegum hætti séu óviðeigandi og vinni gegn tilgangi laganna og Vinnumálastofnunar, sem sé að auðvelda fólki að koma sér aftur til starfa en ekki að brjóta fólk niður með óbeinum ásökunum um óheiðarleika.

Í fjórða lagi brjóti ákvörðunin gegn meðalhófsreglu sem lögfest sé í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem segi að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli gæta þess að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Kærandi telji vandséð hvert markmið þessarar íþyngjandi ákvörðunar sé annað en að fylgja lagabókstaf út í hörgul með vafasamri og þröngri túlkun. Þetta sé gert án þess að beita skynsemi til að meta áhrif þeirrar íþyngjandi ákvörðunar sem verið sé að taka. Á sama hátt sé vandséð hvaða nauðsyn hafi borið til þess að taka íþyngjandi ákvörðun nema ef að vera skyldi til að letja kæranda til þess að taka að sér vinnu við fararstjórn erlendis og að það sé almennt markmið í sjálfu sér að letja íslenska atvinnuleitendur til þess að taka að sér tilfallandi störf sem séu unnin erlendis. Enga nauðsyn hafi borið til að taka þessa ákvörðun, hún sé íþyngjandi og nái ekki skilgreindum markmiðum heldur vinni bæði gegn anda og tilgangi laganna sem hún sé byggð á.

Í athugasemdum við greinargerð Vinnumálastofnunar greinir kærandi frá því að honum sé ljóst að einu haldbæru rökin sem Vinnumálastofnun hafi gegn kærunni séu þau að lögin geri fortakslausa kröfu um að sá sem njóti þjónustu Vinnumálastofnunar skuli vera staddur hér á landi. Kærandi ítrekar að þetta fari gegn markmiði og tilgangi laga um atvinnuleysistryggingar og vísar til kærunnar og þeirra raka fyrir því að ákvörðunin skuli felld úr gildi. Þá sé hin kærða ákvörðun íþyngjandi breyting á ákvörðun sem þegar hafi verið tekin. Engar nýjar upplýsingar hafi komið fram sem réttlæti breytingar á eldri ákvörðun. Kærandi hafi verið og sé sáttur við málsmeðferð sem hafi leitt til fyrri niðurstöðu. Ekkert hafi komið fram að um bersýnilega villu hafi verið að ræða í tilkynningu um fyrri ákvörðun. Þann 1. apríl 2019 hafi verið tekin ákvörðun um leiðréttingu vegna ofgreiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli upplýsinga sem kærandi hafi sent í tölvupósti 5. mars 2019. Þessi leiðrétting hafi falið í sér að litið hafi verið á starf kæranda við fararstjórn sem hverja aðra tilfallandi vinnu. Kærandi hafi ekki gert athugasemd við þessa málsmeðferð og reiknað með að þetta hefðu verið endanlegar ákvarðanir. Þessum ákvörðunum sé breytt með ákvörðun 1. júlí 2019 sem fjalli um sömu málsatvik. Kærandi sé ekki löglærður en það megi hverjum manni vera ljóst að ef Vinnumálastofnun taki eina ákvörðun á grundvelli einhverra upplýsinga á einum tíma og svo aðra og meiri íþyngjandi ákvörðun þremur mánuðum seinna á grundvelli nákvæmlega sömu upplýsinga sé eitthvað mikið að og ákvörðunin ólögmæt vegna þessa. Vísar kærandi til 23. gr. stjórnsýslulaga í þessu samhengi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Gert sé ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Í 13. gr. laganna séu talin upp almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Segi meðal annars í c-lið ákvæðisins að það sé skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Á vef Vinnumálastofnunar komi þessar upplýsingar fram undir liðnum „réttindi og skyldur - upplýsingaskylda“. Þar segi: „Ekki er heimilt að dvelja erlendis á sama tíma og umsækjandi þiggur atvinnuleysisbætur nema hafa sótt um U2-vottorð.“ Einnig sé vakin athygli á þessu í umsóknarferli á “Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar.

Óumdeilt sé að kærandi hafi verið staddur erlendis frá 2. febrúar til 9. mars 2019 og frá 29. mars til 1. apríl 2019, á sama tíma og hann hafi verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Stofnuninni hafi ekki borist tilkynning fyrir fram um utanlandsferð kæranda, líkt og skylt sé samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en stofnuninni hafi þó borist erindi frá kæranda þann 5. mars 2019 um tilfallandi vinnu og dvöl erlendis. Þar sem ekki hafi legið fyrir fyrrgreindar upplýsingar hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar og fengið þar af leiðandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma.

Á því tímabili sem atvinnuleitandi fái greiddar atvinnuleysisbætur beri honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, þar á meðal ferðir sínar utanlands. Þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað sé umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar með talið að tilkynna beri um ferðir erlendis. Umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykkja að þeir hafi lesið og skilið þær upplýsingar sem fram komi í umsókn um réttindi og skyldur. Kærandi hafi samþykkt ofangreinda skilmála þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni þann 30. október 2018. Kærandi hafi einnig fengið tölvupóst þann 31. október 2018 vegna umsóknar hans um atvinnuleysisbætur þar sem honum hafi verið bent á að ef farið væri til útlanda þyrfti að tilkynna það fyrir fram og skila afriti af flugfarseðlum til stofnunarinnar því til staðfestingar. Þá séu víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda á vefsíðu Vinnumálastofnunar undir liðnum „réttindi og skyldur – upplýsingaskylda“. Þar komi skýrt fram að atvinnuleitanda beri að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína. Í skýringum sínum tilgreini kærandi að honum hafi ekki tekist að tilkynna fyrir fram um tilfallandi vinnu sína á þessu tímabili en þegar hann hafi orðið var við mögulega ofgreiðslu atvinnuleysisbóta hafi hann sent stofnuninni erindi. Kom fram að utanlandsferð kæranda hafi verið til komin vegna tilfallandi vinnu hans fyrir innlenda ferðaskrifstofu.

Með hliðsjón af tölvupósti kæranda, dags. 5. mars 2019, þar sem kærandi hafi tilkynnt um dvöl sína erlendis hafi stofnunin hvorki beitt viðurlögum í formi biðtíma, sbr. 59. gr. laganna, né 15% álagi á ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um utanlandsferð sína líkt og honum hafi borið en það hafi leitt til ofgreiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda. Eins og að framan greini hefði kærandi fengið upplýsingar um réttindi sín og skyldur, þar með talið varðandi tilkynningar á dvölum erlendis. Stofnunin veki athygli á að tilgangur dvalar erlendis skipti ekki máli við mat á ofgreiðslu atvinnuleysisbóta, enda sé stofnuninni óheimilt að greiða einstaklingi atvinnuleysisbætur nema hann sé búsettur og staddur hér á landi eða hafi fengið útgefið U2 vottorð til atvinnuleitar í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru sinni geri kærandi kröfu um að ákvörðun stofnunarinnar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að fara með skerðingu bóta vegna tilfallandi tekna af vinnu hans líkt og hann hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Eins og áður hafi komið fram sé eitt af almennum skilyrðum 13. gr. laganna fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sé „búsettur og staddur hér á landi“. Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta á fyrrgreindum tímabilum beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann hafi verið staddur erlendis. Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu bóta á því tímabili sem hann hafi verið við störf erlendis sé stofnuninni ekki fært að skerða atvinnuleysisbætur líkt og hann hafi verið staddur hér á landi, enda komi ákvæði 36. gr. laganna ekki til skoðunar nema atvinnuleitandi hafi á sama tímabili uppfyllt almenn skilyrði laga til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Enn fremur hafni stofnunin þeim röksemdum kæranda í kæru til úrskurðarnefndarinnar að um sé að ræða takmörkun á ferðafrelsi og þar með mannréttindum kæranda, enda sé atvinnuleitendum frjálst að dveljast erlendis. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps, er varð að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Skuld kæranda muni verða innheimt samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilin 2. febrúar til 9. mars og 29. mars til 1. apríl 2019, að upphæð 243.363. kr., sem verði innheimt samkvæmt 3. mgr. 39. laganna, þ.e. með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum, en skuld kæranda við Vinnumálastofnun nemi nú 82.228. kr.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi telur að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi var erlendis á tímabilunum 2. febrúar til 9. mars og 29. mars til 1. apríl 2019, uppfyllti hann ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera búsettur og staddur hér á landi. Því er ekki heimilt að beita frádráttarreglu 36. gr. laganna. Ákvæði 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur og því er ekki heimilt að beita vægari úrræðum en þar er kveðið á um. Þá verður ekki annað ráðið en að gætt hafi verið jafnræðis við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júlí 2019, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta