1.000 störf skapast vegna fjárfestingarátaks
Áætlað er að fjárfestingarátak sem ráðist var í með fjáraukalögum í fyrravor til að mæta heimsfaraldri kórónuveiru hafi skapað um 1.000 störf, sem samsvarar um 0,5% af fjölda fólks á vinnumarkaði. Framhaldsfjárfestingarátak fyrir 100 milljarða króna til ársins 2025 hefst á þessu ári.
Markmið fjárfestingar- og uppbyggingarátaksins sem hófst í fyrra var að skapa störf og vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með arðbærum fjárfestingum. Sérstaklega var horft til verkefna sem stuðla að hagvexti til lengri tíma. Leitast var við að hafa verkefnin fjölbreytt til að skapa fjölbreytt störf víða í hagkerfinu. Auk þess var sérstaklega gætt að því að auka framlög til nýsköpunar, stafvæðingar og grænnar uppbyggingar. Heildarfjárhæð átaksins var um 17,9 milljarðar króna.
Flokkar verkefna í fjárfestingar- og uppbyggingarátaki 2020-21
Tegund verkefna | Framlög (m.kr.) | Vægi (%) |
---|---|---|
Viðhald og endurbætur fasteigna | 2.518 | 14 |
Nýbyggingar og meiri háttar endurbætur | 1.180 | 7 |
Samgöngumannvirki | 6.506 | 36 |
Orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál | 1.465 | 8 |
Önnur innviðaverkefni | 1.917 | 11 |
Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar | 3.000 | 17 |
Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni | 1.350 | 8 |
Samtals | 17.936 | 100 |
Framhaldsfjárfesting fyrir 100 milljarða
Í kjölfar fjárfestingarátaksins í fyrra var ráðist í framhaldsátak fyrir 100 milljarða króna á árunum 2021 til 2025.
Ríkissjóður hefur auk þess lagt til aukið hlutafé í ríkisfyrirtækjum til að flýta framkvæmdum. Þar má nefna allt að 19 milljarða króna hlutafjáraukningu í Isavia árin 2020 og 2021, til að fjármagna framkvæmdir í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Auk þess var samþykkt heimild í fjárlögum 2021 til að auka við hlutafé í Farice með það að markmiði að standa undir fjármögnun nýs sæstrengs, en heildarfjárhæð þess verkefnis er um 7 milljarðar króna og dreifist yfir tvö ár.
Verulegur vöxtur í opinberri fjárfestingu
Fjárfesting ríkis og sveitarfélaga dróst alls saman um 9% að raunvirði árið 2020 þrátt fyrir átakið. Þetta má rekja til fjórðungs samdráttar í fjárfestingu sveitarfélaga, á meðan fjárfesting ríkissjóðs jókst. Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands í mars, sem liggur til grundvallar fjármálaáætlun 2022-26, vex opinber fjárfesting um 18% í ár, sem er umtalsvert í sögulegu samhengi. Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir enn meiri vexti eða 32%.
Þróunin í fjárfestingu á fyrsta ársfjórðungi, jafnt hjá ríkissjóði sem og hinu opinbera í heild, gefur ekki tilefni til annars en að ætla að vöxtur opinberrar fjárfestingar í ár verði í takt við þjóðhagsspá Hagstofunnar. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs jókst opinber fjárfesting um 19% milli ára að raunvirði skv. þjóðhagsreikningum. Miðað við áætlanir ríkisaðila má ætla að fjárfesting ríkissjóðs, eins og hún er skilgreind í tölum Hagstofunnar, aukist um u.þ.b. 15% að raunvirði í ár og hafa áætlaðar fjárfestingar aukist frá því fyrr í vor.
Innviðafjárfesting styður við fjárfestingar einkaaðila
Fjárfestingar- og uppbyggingarátakið hefur verið mikilvægur hluti af efnahagslegum viðbrögðum stjórnvalda við heimsfaraldrinum. Auk þess að draga úr atvinnuleysi og bæta opinbera þjónustu styður fjárfesting í innviðum við fjárfestingar einkaaðila og dregur úr efnahagslegri óvissu, sérstaklega við aðstæður framleiðsluslaka. Rannsóknir OECD benda til þess að varanleg aukning opinberrar fjárfestingar um 0,5% af VLF á ári (svipuð aukning og búist er við í ár) auki VLF eftir 10 ár um 1,5%.
Þótt gert sé ráð fyrir nokkrum bata atvinnuvegafjárfestingar í ár verður vöxtur hennar lítill í sögulegu samhengi og hlutfall hennar af VLF lægra en árin 2015-2018. Enn er talsverður slaki í byggingariðnaði, en ríflega 1.000 færri starfa í greininni en fyrir tveimur árum. Auðvelt verður að mæta aukinni eftirspurn í byggingariðnaði með aðfluttum framleiðsluþáttum og vinnuafli ef þess reynist þörf. Því er ekki ástæða til að ætla að sá vöxtur opinberrar fjárfestingar sem er áætlaður á næstu misserum hafi umtalsverð ruðningsáhrif í hagkerfinu. Í því samhengi er vert að nefna að þrátt fyrir talsverðan vöxt í ár verður opinber fjárfesting aftur komin undir langtímameðaltal sitt sem hlutfall af VLF árið 2022 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar í mars. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur einnig verið jákvæður fyrir boðaðri aukningu í opinberri fjárfestingu, þ. á m. á yfirstandandi ári.