Sendiráð Íslands í Peking hefur útgáfu Schengen-vegabréfsáritana
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum þriðjudaginn 27. mars, að tillögu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, að hefja útgáfu Schengen-vegabréfsáritana í sendiráði Íslands í Peking. Ráðuneytin hafa um nokkurt skeið unnið að undirbúningi þessa verkefnis en sendiráð Danmerkur í Peking hefur séð um slíkar áritanir fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.
Jóhann Jóhannsson, sérfræðingur á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem starfað hefur um árabil hjá Útlendingastofnun, hefur verið ráðinn sem sendiráðunautur í þetta verkefni. Hann mun brátt halda til Peking, en um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja og hálfs árs.
Reykjavík, 28. mars 2007.