Hoppa yfir valmynd
22. mars 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrari heimildir til kvörtunar vegna heilbrigðisþjónustu og einfaldari málsmeðferð

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti á fundi sínum í ríkisstjórn í morgun frumvarp sitt til breytinga á lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um réttindi sjúklinga. Markmið breytinganna er að skýra kvörtunarheimildir vegna heilbrigðisþjónustu og einfalda málsmeðferð í slíkum málum.

Frumvarpið samdi starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði á liðnu ári í þessu skyni og var hlutverk hans fyrst og fremst að gera endurbætur á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu sem snýr að kvörtunarmálum. Ákvæðið hefur þótt óljóst, erfitt í framkvæmd, kröfur þess umfangsmiklar og þær ekki til þess fallnar að stuðla að gæða- og öryggisumbótum.

Markmiðið með frumvarpinu er að auðvelda Embætti landlæknis að greina þær kvartanir sem krefjast aðgerða af hálfu embættisins til að tryggja öryggi og gæði heilbrigðisþjónustunnar í samræmi við meginhlutverk embættisins. Sérstök áhersla er lögð á tilgang og hlutverk Embættis landlæknis sem eftirlitsstofnunar og breytingar á 12. gr. lagðar til með það að leiðarljósi. Einnig er lögð til breyting þess efnis að skýrt verði tekið fram hverjum sé heimilt að kvarta til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu, þ.e. bæði sjúklingur og náinn aðstandandi látins sjúklings.

Í starfshópnum sem undirbjó frumvarpið sátu fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins, Landspítalans og Embættis landlæknis. Frumvarpið var birt til umsagnar á samráðsgátt Stjórnarráðsins og bárust engar umsagnir.

Frumvarpið verður nú sent þingflokkum til umfjöllunar og í framhaldi af því lagt fyrir Alþingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta