Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2019 Forsætisráðuneytið

808/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019

Úrskurður

Hinn 3. júlí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 808/2019 í máli ÚNU 18120006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 20. desember 2018, kærði A, blaðamaður, synjun Íslandspósts ohf. um aðgang að afritum af lánasamningum og skuldaskilmálum félagsins til dótturfélags síns, ePósts ehf.

Með tölvupósti til Íslandspósts, dags. 17. desember 2018, óskaði kærandi m.a. eftir afritum af lánaskilmálum vegna lána sem félagið hefði veitt ePósti svo og minnisblöðum sem gengið hefðu á milli fyrirtækjanna. Vísaði kærandi til þess að undanþága ePósts frá gildissviði upplýsingalaga, sbr. auglýsingu nr. 1107/2015, væri fallin úr gildi. Í svari Íslandspósts, dags. 18. desember 2018, var beiðni kæranda hafnað. Vísað var til orðalags í framangreindri auglýsingu um að undanþága ePósts skyldi endurskoðuð eigi síðar en 15. desember 2018. Orðalagið gæfi ekki til kynna að undanþágan félli úr gildi við þetta tímamark, heldur væri þvert á móti gert ráð fyrir að ráðherra drægi slíka undanþágu sérstaklega til baka.

Með tölvupósti, dags. 19. desember 2018, ítrekaði kærandi beiðni sína um framangreind gögn. Þar sem um væri að ræða gögn sem stöfuðu frá Íslandspósti ætti undanþága ePósts frá gildissviði upplýsingalaga ekki við í málinu. Í svari Íslandspósts, dags. 20. desember 2018, kom fram að ekki væri heimilt að veita aðgang að gögnum sem vörðuðu mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og lögaðila, sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Skuldaskilmálar milli lögaðila þar sem annar þeirra væri undanþeginn gildissviði upplýsingalaga teldust gögn sem féllu undir 9. gr. laganna.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 21. desember 2018, var kæran kynnt Íslandspósti og frestur veittur til 11. janúar 2019, til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var óskað eftir því að nefndinni yrðu afhent afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Að beiðni Íslandspósts var fresturinn framlengdur til 16. janúar.

Í umsögn Íslandspósts, dags. 16. janúar 2019, var þess krafist að kærunni yrði vísað frá en til vara að henni yrði hafnað. Rakið var að ePóstur hefði verið undanþeginn gildissviði upplýsingalaga þar til félagið var afskráð 13. desember 2018. Íslandspóstur taldi að ekki skyldi afhenda upplýsingar um lánveitingar og önnur fjárhagsmálefni sem vörðuðu undanþegið félag, enda félli undanþágan sem veitt var með auglýsingu nr. 1107/2015 ekki úr gildi með afturvirkum hætti þegar félag hætti rekstri eða sameinaðist öðru félagi. Vísað var til umfjöllunar um undanþágu lögaðila frá gildissviði upplýsingalaga í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 771/2018, þar sem fram kæmi að lögaðilinn sjálfur væri undanþeginn lögunum samkvæmt ákvörðun ráðherra en ekki einstök gögn í hans vörslu. Íslandspóstur taldi það ekki á forræði úrskurðarnefndarinnar að taka ákvörðun um að afhenda skyldi gögn eða upplýsingar um félag, sem ráðherra hefði undanþegið gildissviði upplýsingalaga, enda færi það gegn þeirri ákvörðun og fæli í raun í sér afturköllun á undanþágunni sem veitt hefði verið.

Með bréfi, dags. 16. janúar 2019, var umsögn Íslandspósts kynnt kæranda og honum boðið að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 16. janúar 2019, voru gerðar athugasemdir við þá afstöðu Íslandspósts að kærunni skyldi vísað frá eða henni hafnað þar sem ePósti hefði verið veitt undanþága frá gildissviði upplýsingalaga. Félagið hefði verið afskráð 13. desember 2018 og það sameinað móðurfélaginu. Undanþágan hefði runnið sitt skeið og ekki hefði verið sótt um endurnýjun á henni, enda hefði verið búið að afskrá félagið. Kærandi tók fram að hann sæi ekki í fljótu bragði að þau ummæli Íslandspósts að undanþágan félli ekki úr gildi með afturvirkum hætti þegar félag hætti rekstri eða sameinaðist öðru félagi ættu sér stoð í upplýsingalögum eða lögskýringargögnum með þeim. Kærandi hafnaði því að mál þetta væri sambærilegt því sem var til umfjöllunar í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 771/2018. Í þessu máli væri óskað eftir gögnum í vörslum Íslandspósts, sem ekki hefði hlotið undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að afritum af lánasamningum og skuldaskilmálum Íslandspósts ohf. til dótturfélags síns, ePósts ehf.

Í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir: „Ef starfsemi lögaðila sem fellur undir 2. mgr. er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði getur ráðherra, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar og umsögn Samkeppniseftirlitsins, ákveðið að hann skuli ekki falla undir gildissvið laga þessara eða dregið slíka ákvörðun til baka.“

Á grundvelli þessarar heimildar birti ráðherra auglýsingu nr. 1107/2015, þar sem m.a. ePósti var veitt undanþága frá gildissviði upplýsingalaga. Skyldi undanþága félagsins endurskoðuð eigi síðar en 15. desember 2018. Ljóst er að ePóstur óskaði ekki eftir áframhaldandi undanþágu frá gildissviði laganna. Í 3. gr. auglýsingar frá 16. maí 2019 um undanþágu lögaðila frá gildissviði upplýsingalaga, nr. 448/2019, kemur svo fram að undanþága ePósts frá gildissviði laganna skuli falla brott.

Í samræmi við orðalag í auglýsingu nr. 1107/2015 um að undanþága ePósts skuli endurskoðuð eigi síðar en 15. desember 2018 lítur úrskurðarnefnd ekki svo á að undanþágan hafi fallið brott þann dag. Á slík túlkun sér stoð í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, þar sem fram kemur að ráðherra geti ákveðið að lögaðili skuli ekki falla undir gildissvið laganna eða dregið slíka ákvörðun til baka. Samkvæmt orðanna hljóðan fellur undanþága lögaðila ekki brott nema með atbeina ráðherra. Því var undanþága ePósts enn í gildi þegar beiðni kæranda barst Íslandspósti.

2.

Þrátt fyrir að undanþága ePósts frá gildissviði upplýsingalaga hafi enn verið í gildi þegar gagnabeiðni kæranda barst Íslandspósti er ljóst af gögnum málsins að beiðninni var ótvírætt beint að Íslandspósti en ekki ePósti, þótt umbeðin gögn varði bæði félögin. Íslandspóstur nýtur ekki undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna. Af því leiðir að um félagið gildir meginregla 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, þar sem fram kemur að skylt sé að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál, sé þess óskað, með þeim takmörkunum sem greini í 6.-10. gr. laganna.

Af hálfu Íslandspósts hefur verið vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 771/2018. Í því máli hafði beiðni verið beint til félags sem undanþegið var gildissviði laganna. Í niðurstöðu úrskurðarnefndar kom fram að það væri lögaðilinn sjálfur sem undanþeginn væri gildissviði upplýsingalaga samkvæmt ákvörðun ráðherra, en ekki einstök gögn í hans vörslu. Í samræmi við þá niðurstöðu telur úrskurðarnefnd að í þeim tilvikum þegar lögaðili er undanþeginn gildissviði laganna sé ekkert því til fyrirstöðu að óska eftir aðgangi að gögnum sem varða hinn undanþegna lögaðila, hjá öðrum aðila sem heyrir undir gildissvið laganna, líkt og kærandi í þessu máli hefur gert. Við mat á því hvort viðkomandi eigi rétt til aðgangs að gögnunum koma þá til skoðunar þær takmarkanir sem fjallað er um í 6.-10. gr. upplýsingalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur úrskurðarnefnd að vísa skuli beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu hjá Íslandspósti, þar sem tekin verði efnisleg afstaða til beiðninnar á grundvelli þeirra gagna sem fyrir kunna að liggja.

Úrskurðarorð:

Beiðni A um afrit af lánasamningum og skuldaskilmálum Íslandspósts ohf. til ePósts ehf., er vísað til Íslandspósts ohf. til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta