Mál nr. 381/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 381/2019
Þriðjudaginn 26. nóvember 2019
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 12. september 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. september 2019, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi hefur þegið greiðslur atvinnuleysisbóta frá júní 2017. Með bréfi, dags. 26. ágúst 2019, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hann hefði verið staddur erlendis í ágúst 2019 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs þar sem fram kemur að hann hafi ekki verið erlendis. Þann 3. september 2019 var kærandi upplýstur um að Vinnumálastofnun hefði undir höndum gögn af samskiptamiðlum sem sýndu fram á dvöl erlendis í ágúst 2019. Kæranda var veittur viðbótarfrestur til að skila frekari skýringum og farseðlum. Skýringar bárust frá kærandi samdægurs þar sem fram kemur að hann hafi sett inn gamlar myndir og myndbönd af utanlandsferð. Tveimur dögum síðar bárust nýjar skýringar frá kæranda og flugfarseðlar vegna dvalar erlendis á tímabilinu 1. til 22. ágúst 2019. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. september 2019, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans væru stöðvaðar á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. mgr. 61. gr. laganna, sökum þess að kærandi hefði ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um dvöl sína erlendis.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. september 2019. Með bréfi, dags. 13. september 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 11. og 17. október 2019. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 23. október 2019, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. október 2019, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun sé alltaf að refsa honum fyrir utanlandsferðir. Hann hafi alltaf sent stofnuninni öll gögn um ferðirnar nema fyrsta skiptið því að þá hafi hann ekki vitað betur. Kærandi búi út á landi þar sem ekki sé mikla vinnu að fá en hann sé í stöðugri atvinnuleit. Kærandi hafi fengið viðurlög þrisvar sinnum og nú sé hann ekki lengur á skrá hjá Vinnumálastofnun. Það finnist kæranda harkalegt og óskar eftir að fá að klára þá mánuði sem hann eigi inni hjá stofnuninni.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til þess að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.
Í 13. gr. laganna séu talin upp almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Þar segi meðal annars í c-lið ákvæðisins að það sé skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Á vef Vinnumálastofnunar komi þessar upplýsingar fram undir liðnum „réttindi og skyldur - upplýsingaskylda“. Þar segi: „Ekki er heimilt að dvelja erlendis á sama tíma og umsækjandi þiggur atvinnuleysisbætur nema hafa sótt um U2-vottorð.“ Einnig sé vakin athygli á þessu í umsóknarferli á “Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar. Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Þá sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á þessari upplýsingaskyldu hins tryggða.
Óumdeilt sé að kærandi hafi verið staddur erlendis frá 1. ágúst til 22. ágúst 2019, á sama tíma og hann hafi verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Í meðfylgjandi gögnum séu skjáskot af samfélagsmiðli kæranda þar sem hann veiti upplýsingar um utanlandsferð sína. Af flugfarseðlum kæranda sé ljóst að hann hafi verið staddur erlendis á ofangreindu tímabili. Stofnuninni hafi ekki borist tilkynning fyrir fram um utanlandsferð kæranda, líkt og skylt sé samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006.
Á því tímabili sem atvinnuleitandi fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eftir greiðslum beri honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verða á högum sínum, þar á meðal ferðir sínar utanlands. Þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað þá sé umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varða réttindi og skyldur, þar með talið að tilkynna beri um ferðir erlendis. Umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki að þeir hafi lesið og skilið þær upplýsingar sem fram komi í umsókn um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi samþykkt ofangreinda skilmála þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni í júní 2017. Einnig hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þann 21. júní 2017 vegna umsóknar hans um atvinnuleysisbætur þar sem honum hafi verið bent á að ef farið væri til útlanda þyrfti að tilkynna það fyrir fram og skila afriti af flugfarseðlum til stofnunarinnar því til staðfestingar. Þá séu víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Þar komi skýrt fram að atvinnuleitanda beri að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína. Þá bendir Vinnumálastofnun á að kærandi hafi áður þurft að sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hafi ekki tilkynnt um ferðir sínar. Í apríl 2018 hafi kæranda verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma vegna ótilkynntrar dvalar erlendis.
Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um utanlandsferð sína líkt og honum bar. Þegar stofnunin hafi leitað eftir athugasemdum kæranda hafi hann sagt ósatt um hagi sína og haldið því fram að hann hefði ekki verið erlendis á umræddum tíma. Að öllu framangreindu virtu sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er hafi bein áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysistrygginga og því skuli hann sæta viðurlögum samkvæmt 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi tvisvar áður sætt viðurlögum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Af 4. mgr. 61. gr. laganna leiði að komi til þess að atvinnuleitandi sæti viðurlögum í þriðja sinn eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna. Í ljósi alls framangreinds hafi Vinnumálastofnun borið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda. Kærandi geti í fyrsta lagi átt rétt á greiðslum að nýju þegar hann hafi starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 59. og 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:
„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur og staddur hér á landi. Óumdeilt er að kærandi var staddur erlendis á tímabilinu 1. til 22. ágúst 2019 en tilkynnti ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um ferð sína. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að þegar umsækjendur um atvinnuleysisbætur sæki um greiðslur bóta með rafrænni umsókn sé þeim kynnt margvísleg atriði er varða réttindi og skyldur, þar með talið að tilkynna beri um ferðir erlendis. Þá þurfi umsækjendur að staðfesta í lok umsóknarferlisins að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi þeirra og skyldur. Kærandi hafi samþykkt þá skilmála þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í júní 2017.
Í tölvupósti Vinnumálastofnunar 21. júní 2017 var kærandi upplýstur um að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir erlendis. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um skyldur sínar, að honum bæri að tilkynna Vinnumálastofnun sérstaklega um ferðir erlendis.
Á því tímabili sem atvinnuleitandi fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum ber honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, þar á meðal ferðir sínar erlendis. Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hann tilkynnti ekki um ferð sína erlendis.
Kærandi hefur tvisvar áður þurft að sæta viðurlögum á grundvelli laga nr. 54/2006. Í fyrra skiptið í apríl 2018 á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laganna og seinna skiptið í febrúar 2019 á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna. Í 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Þar segir að sá sem hafi sætt viðurlögum samkvæmt 57.-59. gr. eða biðtíma samkvæmt 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greini eigi sér stað að nýju á sama tímabili samkvæmt 29. gr., skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggi fyrir, enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili samkvæmt 29. gr. Í 4. mgr. 61. gr. laganna segir að endurtaki atvik sig sem lýst sé í 1. málsl. 1. mgr. á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“
Samkvæmt framangreindu sætti kærandi þrisvar sinnum viðurlögum á grundvelli laga nr. 54/2006 á sama bótatímabili. Að því virtu á kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá síðustu greiðslu atvinnuleysisbóta. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006, er staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. september 2019, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til handa A er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson