Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 634/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. nóvember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 634/2017

Í stjórnsýslumáli nr. KNU17100026

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 11. október 2017, kærði Sveinn Andri Sveinsson hrl., f.h. [...], kt. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2017, um að synja kæranda um dvalarleyfi vegna náms.Kærandi gerir aðallega þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði hnekkt með þeim hætti að umsókn kæranda verði samþykkt. Til vara krefst kærandi þess að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að rökstyðja hina kærðu ákvörðun. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 krefst kærandi þess jafnframt að kæran fresti réttaráhrifum, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti fyrst um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar þann 19. maí 2016 og fékk leyfið veitt með gildistíma frá 30. ágúst 2016 til 30. ágúst 2017. Kærandi sótti um dvalarleyfi fyrir námsmenn þann 11. júlí 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2017, var kæranda synjað um dvalarleyfi vegna náms. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær ákvörðunin var afhent kæranda. Framangreind ákvörðun var kærð til kærunefndar útlendingamála þann 11. október 2017. Kærunefnd óskaði þann 18. október 2017 eftir athugasemdum stofnunarinnar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd 20. október 2017. Greinargerð kæranda auk fylgigagns bárust kærunefnd þann 13. nóvember 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt 5. mgr. 57 gr. laga um útlendinga geti stofnunin heimilað útlendingi sem dvalist hefur hér á landi á grundvelli annars konar dvalarleyfis en um getur í 64., 66., 67. og 68. gr., áframhaldandi dvöl meðan umsókn er til meðferðar. Í 1. málsl. 6. mgr. 57. gr. segi að hafna skuli umsókn hafi útlendingur sótt um dvalarleyfi á nýjum grundvelli án þess að uppfylla skilyrði 5. mgr. 57. gr. laganna. Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga þar sem hún hafi verið með útgefið dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar skv. 68. gr. laganna með gildistíma til 30. ágúst 2017. Umsókn kæranda var því hafnað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi telji sig uppfylla öll skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna náms á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að ekki fari mikið fyrir útskýringum Útlendingastofnunar á því hvernig komist sé að niðurstöðu út frá ákvæði 5. mgr. 57. gr. en kærandi telji að svo virðist vera sem stofnunin beiti e contrario ályktun út frá orðalagi ákvæðisins. Að mati kæranda gangi sú lögskýring sem Útlengingastofnun beiti um 5. mgr. 57. gr. laganna ekki upp. Hefði það verið ætlan löggjafans að þeir sem hefðu dvalarleyfi á grundvelli t.d. vistráðningar skv. 68. gr. laganna gætu ekki fengið áframhaldandi dvöl á grundvelli 65. gr. á meðan umsókn þeirra væri til umfjöllunar, hefðu verið hæg heimatökin að taka það fram í lagatexta.

Kærandi bendi á að í umfjöllun í greinargerð með frumvarpi um ákvæði 5. mgr. 57. sé kveðið á um að þeir útlendingar þurfi ekki að yfirgefa landið til að sækja um dvalarleyfi á nýjum grundvelli sem leggi inn umsókn um dvalarleyfi minnst fjórum vikum áður en fyrra leyfi renni út og þegar hann hafi verið í löglegri dvöl hér á landi í a.m.k. níu mánuði. Hvoru tveggja eiga við um kæranda. Af hálfu kæranda er því haldið fram að af skýringum ákvæðisins í greinargerð og þeim dæmum sem þar séu rakin, séu ekki skilyrði til e contrario ályktunar.

Ástæða þess að kærandi óski eftir því að búa áfram á Íslandi sé fyrst og fremst áhugi hennar á að læra íslensku og að fá tækifæri til að klára að mennta sig í Háskóla Íslands. Kærandi sótti um námsvist síðastliðið sumar og hafi fengið svar um skólavist í júlí, þ.e. að hún gæti hafið nám í lok ágúst. Hún hafði samband við Útlendingastofnun og tilkynnti þeim stöðuna. Kærandi hafi fengið þau skilaboð að hún gæti byrjað námið, þetta tæki allt sinn tíma. Námið sem um sé að ræða er diplómanám til kennslu og krefjist það fullrar viðveru einn dag í viku og geti kærandi stundað nám að heiman þess á milli.

Kærandi dvelji og hafi dvalið hjá hjónunum [...] og [...] að [...] í [...]. Kærandi hafi verið ómetanleg hjálp vegna veikinda [...], en hún hafi átt við langvarandi veikindi að stríða sem hafi kallað á mikla veru á sjúkrastofnunum og hjá sérfræðingum. Samkvæmt [...] hafi kærandi verið konu hans og dætrum mikilvægur stuðningur bæði vegna tungumálakunnáttu og almennrar kunnáttu hennar. Dætur hans hafi fengið að læra móðurmál móður sinnar. Kærandi hafi orðið sem ein af fjölskyldunni í gegnum þær raunir sem hafi dunið á henni.

Af hálfu kæranda er einnig byggt á því að öll sanngirnissjónarmið mæli með því að fallast á áframhaldandi dvöl kæranda á meðan á afgreiðslu umsóknar hennar um dvalarleyfi fyrir námsmenn stendur. Ef kærandi þyrfti að yfirgefa landið myndi það annars vegar koma sér mjög illa fyrir fjölskylduna sem hún dvelji hjá og hins vegar hafa í för með sér mikið rask fyrir kæranda, sem ekki aðeins hafi greitt skólagjöld fyrir Háskóla Íslands heldur hafi hafið þar nám.

Þá veki kærandi athygli á því að í forsendum ákvörðun Útlendingastofnunar sé engan rökstuðning að finna um það að skilyrði ákvæðis 65. gr. séu ekki uppfyllt. Að mati kæranda virðist stofnunin því ekki hafa farið að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og sé því til vara krafist að kærunefndin leggi fyrir stofnunina að rökstyðja ákvörðun sína, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 11. júlí 2017 um dvalarleyfi, sbr. 6. mgr. 57. gr., sbr. 65. gr. laga um útlendinga.

Í 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi sem dvalist hefur hér á landi á grundvelli annars konar dvalarleyfis en um getur í 64., 66., 67. eða 68. gr. og sækir um dvalarleyfi á nýjum grundvelli áframhaldandi dvöl þar til endanleg ákvörðun um umsókn liggur fyrir enda sæki útlendingur um nýtt leyfi eigi síðar en fjórum vikum áður en fyrra dvalarleyfi fellur úr gildi og hefur verið í löglegri dvöl a.m.k. síðustu níu mánuði.

Í 6. mgr. 57. gr. laganna segir að sæki útlendingur um dvalarleyfi á nýjum grundvelli hér á landi án þess að uppfylla skilyrði 5. mgr. 57. gr. skuli hafna umsókn af þeirri ástæðu. Í undantekningartilvikum geti Útlendingastofnun þó heimilað umsækjanda, sem ekki uppfyllir fyrrgreind skilyrði, að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Málsástæður kæranda lúta að því að hún uppfylli öll skilyrði til útgáfu dvalarleyfis og að túlkun Útlendingastofnunar á 5. mgr. 57. gr. sé ekki rétt. Þá mæli sanngirnissjónarmið með því að kærandi fái að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hennar þar sem það myndi koma sér mjög illa fyrir fjölskylduna sem hún dveljist hjá að henni yrði gert að fara úr landi og það hefði í för með sér rask fyrir kæranda sem þegar hafi hafið nám við Háskóla Íslands.

Í athugasemdum um 5. mgr. 57. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að í 5. mgr. eru nýmæli, en samkvæmt henni er Útlendingastofnun heimilt að ákveða að útlendingar, aðrir en þeir sem dveljast á grundvelli þeirra leyfa sem talin eru í málsgreininni, sem eru yfirleitt styttri leyfi þar sem ekki er gert ráð fyrir áframhaldandi dvöl, þurfi ekki að yfirgefa landið til þess að sækja um dvalarleyfi á nýjum grundvelli. Á þetta við þegar útlendingur leggur inn umsókn um dvalarleyfi minnst fjórum vikum áður en fyrra leyfi rennur út og þegar hann hefur verið í löglegri dvöl hér á landi í a.m.k. níu mánuði.

Þá er í athugasemdum um 6. mgr. 57. gr. í sama frumvarpi fjallað um heimild til að hafna umsóknum um dvalarleyfi á nýjum grundvelli í þeim tilvikum þar sem umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði 5. mgr. en nauðsynlegt er að skýr synjunarheimild sé til staðar til þess að koma í veg fyrir að umsækjendur geti nýtt sér framkomna umsókn til að framlengja dvöl hér á landi. Jafnframt er kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu til þess að dveljast á landinu ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því en við það mat yrði litið til sambærilegra ástæðna og greinir í ákvæði því sem nú er í 51. gr. laga um útlendinga.

Í athugasemdum við 51. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að í 3. mgr. 51. gr. sé almenn heimild til að undanskilja umsækjendur frá skilyrði 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því og að ætlunin sé að ákvæðinu verði beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. og 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga mæla bæði fyrir um að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi að dveljast hér á landi meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar, þrátt fyrir að ekki séu uppfyllt tiltekin skilyrði þess efnis, ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í því ljósi telur kærunefnd rétt að hafa hliðsjón af athugasemdum við 3. mgr. 51. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga við mat á 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laganna.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi var áður með dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar, sbr. 68. gr. laga um útlendinga, frá 30. ágúst 2016 til 30. ágúst 2017. Með umsókn sinni um dvalarleyfi á grundvelli náms, dags. 11. júlí 2017, var kærandi því að sækja um dvalarleyfi á nýjum grundvelli. Þar sem kærandi dvaldi hér á landi á dvalarleyfi samkvæmt 68. gr. laganna uppfyllir kærandi ekki skilyrði 5. mgr. 57. gr. laganna. Vegna athugasemda í greinargerð kæranda tekur kærunefnd fram að upptalning leyfa í 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga vísar til dvalarleyfa sem hafa verið grundvöllur fyrri dvalar en ekki til leyfa sem sótt er um. Umsókn kæranda ber því að hafna samkvæmt 6. mgr. 57. gr. laganna. Kærandi hefur borið fyrir sig að sanngirnisástæður mæli með því að hún fái að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hennar, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki sýnt fram á að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að hún fái að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hennar.

Meðal þeirra óskráðu grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins sem stjórnvöldum ber að fylgja er svonefnd skýrleikaregla. Af henni leiðir að ákvarðanir stjórnvalda verða jafnan að vera eins skýrar og glöggar að efni til og kostur er. Í ákvörðunarorði Útlendingastofnunar kemur ekki fram að ákvörðun í máli kæranda feli í sér að kæranda sé synjað um dvalarleyfi. Ákvörðunarorðið er óskýrt og uppfyllir því ekki þær kröfur sem skýrleikaregla stjórnsýslunnar gerir til ákvarðana stjórnavalda. Annmarkinn er þó ekki svo verulegur að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Að öllu framangreindu virtu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta