Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum fyrsta svæðið sem friðlýst er gegn orkuvinnslu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri undirrituðu friðlýsinguna við Gljúfrastofu í dag  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun). Þetta er fyrsta friðlýsing svæðis í verndarflokki rammaáætlunar. Undirritunin fór fram í Ásbyrgi og er hluti af átaki stjórnvalda í friðlýsingum.

Jökulsá á Fjöllum er merkileg fyrir það hvernig vatnsafl hennar hefur sorfið og mótað Jökulsárgljúfur þar sem samankomnar eru nokkrar af helstu perlum íslenskrar náttúru. Dettifoss er álitinn aflmesti foss Evrópu og má í honum skynja þá krafta sem myndað hafa Ásbyrgi og Hljóðakletta. Andstæður krafts og friðar eru óvíða skýrari en í Hólmatungum þar sem tærir lækir og lindir renna út í beljandi jökulána.

Í dag eru tímamót í friðlýsingum. Árið 2013 samþykkti Alþingi rammaáætlun og í því fólst m.a. að ákveðnar virkjanahugmyndir voru í raun teknar út af borðinu og ákveðið að friðlýsa þau svæði gegn orkuvinnslu. Það er síðan nú með átaki umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar sem loks er ráðist í þessar friðlýsingar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Með friðlýsingunni er Jökulsá á Fjöllum vernduð gegn orkuvinnslu sem tillögur voru um með Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun. Svæðið sem fellur undir friðlýsinguna afmarkast af vatnasviði ofan áður fyrirhugaðra stíflumannvirkja og meginfarveg og næsta nágrenni hans þar fyrir neðan.

Samhliða friðlýsingunni í dag undirritaði ráðherra breytingu á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð um stækkun hans sem nemur um tveggja ferkílómetra svæði í Ásbyrgi.

Friðlýsingin í dag er hluti af friðlýsingarátaki sem umhverfis- og auðlindaráðherra ýtti úr vör á síðasta ári. Teymi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar vinnur nú að friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar, svæða á náttúruverndaráætlunum og svæða sem eru undir álagi ferðamanna, auk annarra friðlýsinga. Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs í lok júní var liður í átakinu en þá bættust m.a. Herðubreið og Herðubreiðarlindir við þjóðgarðinn. Einnig hefur Akurey í Kollafirði nú þegar verið friðlýst og áform um fjölda friðlýsinga verið kynnt.

Fjölmenni var við friðlýsingarathöfnina sem bar upp á sama dag og Jökulsárhlaupið en hún fór fram við Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Auk ráðherra og ráðuneytisstarfsfólks var viðstatt heimafólk og aðrir gestir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta